Sakarías spáir Gyðingalandi stóru áfelli; talar um vonda hirðara, og ótrúrra hirðara makleg laun.

1Upp lúk þínum dyrum, Líbanonsfjall, svo eldurinn geti eytt þínum sedrustrjám.2Grátið, þér furutré, því sedrusviðurinn er fallinn, þau stoltartré eru eyðilögð. Grátið, þér Basans eikur, því hinn þykkvi skógurinn liggur við velli.3Nú heyrist gráthljóð hirðaranna, því þeirra gersemi er eyðilögð: öskurhljóð ljónskálfanna, því mikillæti Jórdanar liggur í eyði.
4Svo sagði Drottinn, minn Guð: vert þú hirðir skurðarsauðanna,5hvörra kaupendur slátra þeim að saklausu, og seljendurnir segja, „lofaður veri Drottinn, nú er eg orðinn ríkur“, og hirðararnir vægja þeim ekki.6Því nú má eg ekki lengur vægja innbyggjendum landsins, segir Drottinn. Sjá, eg vil selja hvörn þeirra á vald annars, og á vald konungs þeirra; þeir skulu slá landið, og eg vil ekki frelsa það af þeirra hendi.7Eg gjörðist nú hirðir skurðarsauðanna,—það var í sannleika aumt fé!—Eg tók mér tvo stafi, kallaði annan þeirra Líknarstaf, en hinn Harmastaf, og gætti nú fjárins.8Á fyrsta mánuði afmáði eg þrjá hirðara, því eg var orðinn leiður á þeim, og þeir voru ekki heldur ánægðir með mig.9Loksins sagði eg: eg vil ekki vera yðar hirðir: deyi það sem deyja vill, farist það sem farast vill, og þeir, sem eftir verða eti hvör annars hold.10Síðan tók eg Líknarstaf minn, og braut í sundur, til að bregða þeim sáttmála, sem eg hafði samið við allar þjóðir.11Þannig var þessum sáttmála brugðið á þeim sama degi; og þá skildu hinir aumu sauðirnir, sem enn gáfu mér gaum, að þetta var orð Drottins.12Nú sagði eg til þeirra: „ef yður þóknast, þá greiðið mér kaup mitt, en ef ekki, þá látið það vera“; þeir vógu mér þá þrjátíu sikla silfurs í kaup mitt.13Þá sagði Drottinn til mín: „kasta þú til leirkerasmiðsins þessu merkilega kaupgjaldi, sem þeir hafa metið mig verðan“. Og eg tók þá þrjátíu sikla silfurs, og kastaði þeim í hús Drottins til leirkerasmiðsins.14Síðan braut eg sundur hinn stafinn, Harmastafinn, til þess að bregða upp bræðrafélaginu milli Júdaríkismanna og Ísraelsmanna.15Enn mælti Drottinn til mín: nú skaltu fyrirmynda ónýtan hirðir!16Því sjá, eg læt þann hirðir upp koma í landinu, sem ekki mun vitja hins fjársjúka, ekki leita hins hrakta, ekki græða hið limlesta, ekki bera hið þreytta, heldur eta kjötið af hinu feita fénu, en fleygja klaufunum.17Vei þeim ónýtum hirðir, sem yfirgefur hjörðina! Sverð skal koma á hans handlegg og hægra auga; hans armleggur skal uppvisna, og hans hægra auga verða steinblint.