Esekíel sýnir, aðeins og Samaría (Ísraelsríki) hafði fengið refsingu fyrir sinn óguðleika, eins átti Jerúsalem (Júdaríki), sem ekki var hóti betri, von á sömu hegningu, 1–35; afmálar afguðadýrkun beggja ríkja, og þá lesti, sem henni voru samfara, 36–49.

1Drottinn talaði til mín svolátandi orðum:2þú mannsins son, einu sinni voru tvær konur, sem voru dætur einnar móður;3þær voru lauslátar í æsku sinni, og frömdu hórdóm í Egyptalandi, létu þar taka á brjóstum sér og fara höndum um sinn meyjarbarm.4Hin stærri hét Ohola a), en systir hennar Oholíba b); eg batt við þær hjúskap, og fæddu þær mér syni og dætur. Sú er þýðing nafna þeirra, að Ohola er Samaría, en Oholíba Jerúsalem.5Ohola tók framhjá mér, og felldi hug til fylgismanna sinna, þeirra Assyríumanna, sem til hennar komu;6þeir gengu allir á dökkbláum klæðum, voru það jarlar, landshöfðingjar, fríðir æskumenn og riddarar, ríðandi á hestum.7Hún ofurseldi sig þessum mönnum til saurlifnaðar, öllum hinum útvöldustu mönnum af Assyríalandi, og flekkaði sig með skurðgoðum allra þeirra, sem hún felldi hug sinn til.8Ekki lét hún að heldur af samlagi við Egyptalandsmenn, því þeir höfðu legið með henni í ungdæmi hennar, farið höndum um brjóst hennar, og gjört hana drukkna af saurlífislosta.9Þess vegna seldi eg hana í hendur ástmanna sinna, í hendur Assyríumanna, sem hún hafði fellt hug sinn til;10þeir flettu hana klæðum, tóku burt syni hennar og dætur, og vógu hana sjálfa með sverði; varð hún svo öðrum konum til viðvörunar, eftir það að hegningin var fram á henni komin.11En þótt Oholíba, systir hennar, sæi þetta, þá varð hún þó enn frekari í lostanum, og drýgði enn meiri saurlifnað, en systir hennar.12Hún felldi ást til Assyríumanna, voru það jarlar og landshöfðingjar, er til hennar komu prúðbúnir, og riddarar, ríðandi á hestum, alltsaman fríðir æskumenn.13Eg sá, hvörsu hún saurgaði sig, og að eitt og hið sama var háttalag beggja þeirra systra.14Þó varð þessi enn frekari í saurlifnaðinum: hún sá mannsmyndir, sem dregnar voru á vegginn, það voru myndir Kaldea, þeir voru málaðir með menju,15höfðu belti um sig miðja, og langa lafdregla um höfuð sér, allir voru þeir hinir hermannlegustu, og líkir Babelsmönnum, þeim Kaldeum, eins og þeir eru heima í föðurlandi sínu.16Undir eins og hún leit þá augum, felldi hún ást til þeirra, og gjörði boð eftir þeim til Kaldealands.17Þá komu Babelsmenn til samlags við hana, og flekkuðu hana með saurlifnaði sínum; en þegar hún hafði saurgast með þeim, varð hún leið á þeim.18Þegar hún nú framdi sinn saurlifnað og svívirðingu svo berlega, þá varð eg einnig leiður á henni, eins og eg hafði orðið leiður á systur hennar.19En hún varð æ frekari í hórdóminum, þar eð hún minntist síns æskutíma, þá hún framdi saurlifnað á Egyptalandi;20og nú felldi hún hug til þessara fylgismanna sinna, hvörra girndarbruni var sem girndarbruni asna og flóðhesta.21Þannig hvarfst þú aftur til þess svívirðilega athæfis, sem þú framdir í æsku þinni, þá Egyptalandsmenn höfðu við þig ástfarir, upptendraðir af þínum æskublóma.22Þar fyrir, Oholíba! Svo segir Drottinn alvaldur: sjá! eg skal æsa upp ástmenn þína gegn þér, þá sem þér eru leiðir orðnir, og láta þá veitast að þér úr öllum áttum:23Babelsmenn, alla Kaldea með valdsmönnunum, ríkismönnunum og stóreflismönnunum, þar með alla Assyríumenn, hina fríðu æskumenn, alla jarlana og landshöfðingjana, kappana og ágætismennina, alla ríðandi á hestum;24þeir skulu fara í móti þér vígbúnir, með hjólvögnum og mannfjölda, skjöldum og búklurum og hjálmum, og setjast umhverfis um þig; þeim vil eg dómsatkvæðið í hendur fá, og þeir skulu dæma þig eftir sínum lögum.25Eg skal láta mína vandlætingu niður á þér koma, svo að þeir skulu breyta við þig heiftarlega, sníða af þér nef og eyru, og það sem eftir verður af þér, skal fyrir sverði falla; þeir skulu herleiða þína syni og dætur, og það sem þá verður eftir af þér, skal verða eldsmatur;26þeir skulu færa þig af klæðum og taka af þér skartið.27Þannig vil eg enda gjöra á þínum svívirðilega lifnaði og hórdómi þínum við Egyptalandsmenn; þú skalt ekki framar líta við þeim, og ekki framar hugsa til Egyptalands.28Því svo segir Drottinn alvaldur: sjá! eg sel þig í hendur þeim, sem þú hatar, í hendur þeirra, sem þú ert orðin leið á;29þeir skulu breyta við þig haturslega, taka frá þér alla atvinnu þína, og láta þig eftir nakta og bera, svo svívirðing þíns saurlifnaðar, lauslætis og hóranar verði opinber.30Þetta skal eg láta fram við þig koma fyrir þann saurlifnað, sem þú hefir framið við heiðingjana, og fyrir það þú hefir saurgað þig á þeirra afguðum.31Þú hefir gengið götu systur þinnar, þess vegna rétti eg að þér hennar bikar;32svo segir Drottinn alvaldur: þann djúpa og víða bikarinn systur þinnar skaltu afdrekka; hann skal gjöra þig að athlægi og háðung—svo ílögugóður er hann!33Þú skalt verða drukkin af hörmungarinnar sterka drykk, af bikar angistarinnar og sinnuleysisins, af bikar Samaríu, systur þinnar;34þenna bikar skaltu afdrekka og í botn sötra, brjóta hann síðan í mola, og sundurrífa þín brjóst, því eg hefi talað það, segir Drottinn alvaldur.35Þar fyrir, svo segir Drottinn alvaldur: sökum þess þú gleymdir mér, og snerir baki við mér, þá skaltu nú og gjöld taka fyrir þinn illlifnað og saurlifnað.
36Ennfremur sagði Drottinn til mín: þú mannsins son! ávíta þú Oholu og Oholíbu, og leið þeim fyrir sjónir sínar svívirðingar:37því þær hafa drýgt hórdóm og flekkað hendur sínar með blóði, þær hafa framið hórdóm með afguðum, og þar með brenndu þær, þeim til fórnar, sín eigin börn, sem þær fæddu mér.38Auk þessa hafa þær gjört mér það, að þær sama daginn saurguðu minn helgidóm og vanhelguðu mína hvíldardaga;39því þá þær höfðu slátrað börnum sínum, afguðunum til fórnar, gengu þær sama daginn inn í minn helgidóm, til þess að vanhelga hann. Slíkt aðhöfðust þær í mínu eigin musteri!40Þær sendu jafnvel eftir mönnum, sem koma skyldu af fjarlægum löndum; þegar þessir fengu boðin, þá komu þeir: fyrir þeirra skuld laugaðir þú þig, barst lit í augu þér, og bjóst þig í skart;41síðan settist þú á veglegan bekk, þar stóð fyrir framan uppbúið borð, og þar lagðir þú á mitt reykelsi og mitt viðsmjör;42hér var nú söngur upphafinn af þeim guðlausa manngrúa, var þar auk tignarmanna fjöldi minni háttar fólks, drykkjumenn, sem sóttir höfðu verið í eyðimörkina, létu þeir armbauga á handleggi þeirra systra og veglegar kórónur á höfuð þeim.43Eg hugsaði með sjálfum mér um þessa gömlu hóru: mun nokkur enn vilja drýgja hórdóm með slíkri sem hún er?44jú, þeir gengu inn til hennar! Eins og gengið er inn til einnar hórkonu, eins gengu þeir inn til Oholu og Oholíbu, þeirra saurlífiskvenna.45En réttlátu mennirnir a), þeir skulu ljúka dóminum á þeim, dómi hórkvenna og morðkvenna; því hórkonur eru þær, og hafa blóðflekkaðar hendur.46Því svo segir Drottinn alvaldur: stefndu fjölmenni í gegn þeim, og ofursel þær til misþyrmingar og herfangs;47mannfjöldinn skal gjöra þeim grjóthríð, og höggva þær sundur með sverðum, drepa sonu þeirra og dætur, og brenna upp hús þeirra.48Með þessu móti vil eg útrýma illlifnaðinum úr landinu, og allar konur skulu láta sér yðar víti að varnaði verða, að þær breyti ekki eftir yðar skammarlega athæfi.49Þegar þeir svo láta yðar svívirðingu niður á yður koma, og þér hljótið að gjalda yðar syndsamlegu afguðadýrkunar, þá skuluð þér viðurkenna, að eg em Drottinn alvaldur.

V. 4. a. Ohola (eigin tjaldbúð) bendir til þeirrar sjálfgjörðu guðsdýrkunar, er Jeróbóam kóngur innleiddi í Ísraelsríki, 1 Kóng. 12,26–33. b. Oholíba (mín tjaldbúð er í henni) lýtur til þess, að musteri og helgidómur Drottins var í Jerúsalem. V. 45. a. Kaldear, sem áttu að framkvæma reiðidóm Drottins á Jerúsalem.