Ísraelsbörn eru umskorin, halda páska. Vitrun Jósúa.

1Þegar Amorítanna kóngar fyrir vestan Jórdan, og allir Kananítakonungar við hafið *) heyrðu, að Drottinn hafði þurrkað Jórdanarvatn fyrir Ísrael, meðan þeir fóru þar yfir, þá æðruðust þeir, og þeim féllst hugur fyrir Ísraelsbörnum.
2Á þeim tíma sagði Drottinn við Jósúa: gjör þér steinknífa, og umsker Ísraelssonu öðru sinni;3lét þá Jósúa gjöra steinknífa, og umskar Ísraelssonu, á Yfirhúðahæðinni.4Sú var orsökin, hvörs vegna Jósúa umskar þá: allt karlmannafólkið, sem fór út af Egyptalandi, allir vopnfærir menn höfðu dáið á leiðinni í óbyggðinni;5allt fólkið, sem út fór, var umskorið, en allt það fólk, sem fæðst hafði á leiðinni í óbyggðinni eftir útgöngu þess af Egyptalandi var óumskorið;6því Ísrael ferðaðist í 40 ár í óbyggðum, þangað til allir þeir vopnfæru, sem af Egyptalandi fóru, vóru dánir, af því þeir höfðu verið óhlýðnir Drottni, svo Drottinn sór, að þeir ekki skyldu sjá það land, sem Drottinn hafði svarið feðrum þeirra, að hann vildi gefa oss, það landið, sem flýtur af mjólk og hunangi;7syni þeirra, sem upp vóru komnir í þeirra stað, umskar Jósúa, því þeir höfðu yfirhúð, og höfðu ekki verið umskornir á ferðinni.8Þegar nú allir vóru umskornir, héldu þeir kyrru fyrir hvör á sínum stað í herbúðunum, þangað til þeir vóru grónir.9Þá sagði Drottinn til Jósúa: í dag hefi eg burt tekið frá yður svívirðingu **) Egyptalands, og kallast því þessi staður enn í dag Gilgal.
10Ísraelsmenn lágu í herbúðum sínum í Gilgal, og héldu páska á Jeríkósvöllum, að kvöldi þess fjórtánda dags mánaðarins;11og átu af landsins gróða frá öðrum páskadegi, ósýrt brauð og steikt öx, einmitt á sama degi.12Daginn eftir að þeir höfðu etið af landsins gróða, þraut manna, og þaðan í frá höfðu þeir ekki manna, heldur átu þeir það árið ávöxtu Kanaanslands.
13Það bar til, þegar Jósúa var hjá Jeríkó, að hann leit upp, og sá hvar maður stóð gegnt honum með brugðnu sverði; Jósúa gekk til hans og spurði hann: ertú af voru liði, eða óvinanna!14Hann svaraði: nei! heldur er eg hershöfðingi Drottins, og nú er eg kominn! Þá féll Jósúa fram á ásjónu sína til jarðar, tilbað og sagði: hvað býður minn herra þjóni sínum?15Þá sagði hershöfðingi Drottins: drag þína skó af fótum þér, því sá staður, er þú stendur á, er heilagur; og Jósúa gjörði það.

*) Þ. e. Miðjarðarhafið. **) Þ. e. eftirleifar af hjáguðadýrkun og annarri heiðni, sem Gyðingar höfðu vanist á í Egyptalandi og undir eins endurnýjað þann sáttmála, sem gjörður var við Abraham. 1 Mós. 17,8–13.