Um hvíldarárið og fagnaðarárið.

1Og Drottinn talaði ennframar við Móses á fjallinu Sínaí þannig:2Tala þú til Ísraelsbarna og seg þeim, að þegar þau koma inn í landið, sem eg gef yður, þá skal landið halda Drottni hvíld.3Sex ár skaltu sá þinn akur og sex ár klippa þinn víngarð og innsafna hans gróða;4en á sjöunda árinu skal vera hátíðleg hvíld, hvíld Drottni (til dýrðar); akur þinn skaltu þá ekki sá, og þinn víngarð ekki klippa;5það korn, sem vex eftir þína haustyrkju af sjálfu sér, skaltu ekki uppskera, og vínber þess óklippta vínviðar skaltu ekki taka; landið skal hafa hátíðlega hvíld;6það sem landið í hvíld sinni (gefur) yður til fæðu, það skal vera handa þér, þínum þræli, þinni ambátt, þínum daglaunamanni, og þeim útlendu sem búa hjá þér,7og handa þínum fénaði og villudýrunum sem eru í þínu landi; allur gróðinn skal vera þessu til fæðu.
8Þú skalt telja sjö hvíldarár, sjö sinnum sjö ár, svo að tími þeirrar sjö hvíldarára verði níu ár og fjörutíu,9þá skaltu á þeim tíunda degi þess sjöunda mánaðar láta básúnuna gella, á forlíkunardeginum skuluð þér láta básúnuna hljóma um allt yðvart land,10og halda heilagt það fimmtugasta ár, og úthrópa frelsi í landinu fyrir alla þá, sem búa í því; það skal vera yður fagnaðarár, því þá skal hvör koma aftur til síns óðals, og hvör snúa aftur til sinnar ættar.11Hið fimmtugasta ár skal vera yður fagnaðarár; þér skuluð ekki sá og ekki uppskera það, sem vaxið hefir af því niðurfallna sæði, né lesa vínber af því óklippta víntré;12því það er fagnaðarár, það sé yður heilagt; þér skuluð eta af merkurinnar gróða.13Á þessu fagnaðarári skal hvör koma aftur til síns óðals.14Þegar þér seljið nokkurn hlut náunga yðar, eða kaupið af honum, þá skal enginn ásælast sinn bróður;15eftir tölu áranna (sem liðin eru) frá fagnaðarárinu skaltu kaupa af þínum náunga, eftir áratölu gróðans skal hann selja þér.16Eftir tiltölu, sem árin eru fleiri eftir, skaltu láta verðið hækka, og eftir sem þau eru færri lækka, því það er eftir tölu uppskeranna hann selur þér.17Enginn ásælist sinn náunga, heldur skaltu óttast þinn Guð, því eg er Drottinn yðar Guð.18Þér skuluð gjöra eftir mínum setningum og varðveita mín boðorð og breyta eftir þeim; þá skuluð þér óttalausir búa í landinu;19landið skal gefa yður sinn gróða, og þér skuluð hafa gnægð að eta, og ugglausir búa í því.20Og ef þér spyrjið: hvað skulum vér eta á því sjöunda ári, sjá! vér megum ekki sá, og ekki safna vorum gróða?21þá vil eg láta mína blessun svoleiðis í té á sjötta árinu, að landið gefi gróða fyrir þrjú ár,22svo að þegar þér sáið á því áttunda ári, þá skuluð þér eta af þeim forna gróða; allt þangað til gróði níunda ársins er kominn, skuluð þér eta hinn forna (gróða).
23Landið máttu ekki afsala þér að fullu, því að landið er mitt; þér eruð framandi, en búsettir hjá mér;24en í öllu yðar eignarlandi skuluð þér eftirláta erfingjanum (innlausnarrétt) landsins.25Ef fé þrýtur svo fyrir náunga þínum, að hann verður að selja af eign sinni, þá skal erfinginn, náfrændi hans, koma og leysa það, sem þinn náungi hefir selt;26en hafi hann engan erfingja, en hann sjálfur hefir útveg til að geta greitt lausnarverðið,27þá skal hann reikna árin frá því hann seldi, og gjalda það sem eftirstendur þeim manni, sem hann seldi og þá kemur hann til óðals síns aftur.28En hafi hann ekki efni til að leysa til sín óðal sitt, þá skal sá sem keypt hefir halda því selda til fagnaðarársins, en þá gengur það úr eigu hans, og hinn skal þá aftur koma til sinnar eignar.29En selji nokkur íbúðarhús í múrgirtri borg, skal hann hafa heils árs frest til að leysa það aftur, svo lengi hefir hann innlausnarrétt;30en leysi hann það ekki aftur fyrr en allt árið er liðið, þá haldi kaupandinn og hans eftirkomendur húsinu í þeirri múrgirtu borg með fullum afsalsrétti, það gangi ekki úr kaupandans eign á fagnaðarárinu.31En hús í þorpum sem ekki eru múri girt, þau skulu menn reikna til akurlendis; þau skulu standa til lausnar, á fagnaðarárinu skulu þau fara úr kaupandans eign.32En staðir Levítanna og hús í þeim stöðum sem þeir eiga, standa til ævarandi lausnar fyrir Levítana.33Brigði maður af Levíta eftir brigðarétti, þá gengur hið selda hús í hans eignarborg (til baka) úr eigu hans á fagnaðarárinu; því að húsin í Levítanna borgum eru þeirra eign á meðal Ísraelsbarna.34En mörkin, beitiland borgar þeirra, má ekki seljast, hún er þeirra ævarandi eign.
35Ef þinn bróðir kemst í fátækt og fé hans gengur til þurrðar hjá þér, þá skaltu aðstoða hann, þó hann sé útlendur og framandi, svo að hann geti lifað hjá þér;36þú skalt ekki taka af honum rentu eður aukagjöld, heldur skaltu óttast þinn Guð, svo að þinn bróðir megi lifa hjá þér.37Þú skalt ekki fá honum fé þitt á rentu eða hjálpa honum um matvæli með okri.38Eg er Drottinn yðar Guð, sem leiddi yður út af Egyptalandi til þess að eg gæfi yður Kanaansland, svo að eg væri yðar Guð.
39Ef að bróðir þinn kemur í fátækt hjá þér og selur sig þér, þá skaltu ekki leggja á hann (ánauðugs) þræls vinnu;40hann skal vera hjá þér sem daglaunamaður, og framandi; til fagnaðarársins skal hann þjóna þér,41en þá skal hann fara frá þér og synir hans með honum, og hverfa til sinnar ættar, til eignar feðra hans skal hann aftur hverfa;42þeir eru mínir þjónar, sem eg hefi útleitt af Egyptalandi, þeir mega ekki seljast, sem ánauðugir þrælar;43og þú mátt ekki ómiskunnsamlega drottna yfir þeim, heldur skaltu óttast þinn Guð.44En ef þú vilt fá þér ánauðuga þræla og ambáttir, þá skuluð þér kaupa yður þræla og ambáttir af þjóðum þeim, sem í kringum yður búa;45líka börn þeirra framandi og útlendu, sem búa hjá yður, og börn af ætt þeirra, sem eru hjá yður, er þeir hafa átt í yðar landi, þau mega vera yðar eign;46þau megið þér láta eftir yður í arf börnum yðar til eignar og hafa þau sem ævinlega þræla; en yfir yðar bræðrum, Ísraelsbörnum, má enginn harðlega drottna.47En ef sá útlendi, sá framandi sem býr hjá þér, auðgast, og bróðir þinn kemst í fátækt hjá þér og selur sig til þess útlenda, sem er búsettur hjá þér, ellegar til nokkurs af útlendri ætt sem hefir fengið bólfestu,48þá skal hann hafa lausnarrétt eftir það að hann er seldur, einhvör af ættingjum hans skal leysa hann,49annaðhvört föðurbróðir eða bræðrungur, eða einhvör náfrændi, af hans ætt, eða ef hann sjálfur fær efni á því, þá hefir hann rétt til lausnar,50og hann skal þá reikna við þann, sem keypti hann, frá því ári á hvörju hann var seldur til fagnaðarársins, og verðið sem hann var seldur fyrir skal skiptast á árin, en hann skal álítast eins og hann hefði verið daglaunamaður hjá honum.51Séu mörg ár eftir, skal hann eftir tiltölu gjalda fyrir lausn sína meira af verðinu, sem hann var keyptur fyrir;52en séu fá ár eftir til fagnaðarársins, skal hann reikna honum það; eftir áratölunni skal hann gjalda fyrir sína lausn.53Ár frá ári skal hann meðfarast sem daglaunamaður hjá honum, og ekki skal hann með harðýðgi drottna yfir honum fyrir þínum augum.54En ef hann ekki leysist með þessum hætti, fari hann samt úr (þrældómnum) á fagnaðarárinu, og börn hans með honum;55því Ísraelsbörn eru mínir þjónar, mínir þjónar eru þeir, sem eg leiddi út af Egyptalandi. Eg er Drottinn yðar Guð.

V. 3. Klippa: menn burtsneiða kvistu af aldintrjám og toppa greina, þó sérdeilis af vínvið, svo vöxturinn leggist til ávaxtarins. V. 5. Að hvíla akurinn gjörir hann arðmeiri. Þar að auki átti hvíldarárið að minna á sköpunarverkið eins og hvíldardagurinn. 1 Mós. 1,1–3. 2 Mós. 20,11. V. 6. Gefur: sjálfkrafa. V. 10. Fagnaðarárið var hvört 50ta ár; hvíldarárið hvört sjöunda, því sjö sinnum sjöunda var sleppt, eða 49da. Á fagnaðarárinu fékk hvör jörð sína aftur kauplaust, sem hann hafði selt, eða hans erfingjar, því arður hennar var búinn að betala hennar verð. Þeir sem í þrældóm höfðu komist af Gyðingum vegna einhvörra orsaka (sjá 2 Mós. 22,3. 2 Kóngb. 4,1. Matt. 15,25) urðu lausir á því (2 Mós. 21,2–11) eins og á hvörju öðru hvíldarári. V. 16. Árin fleiri: til fagnaðarársins. V. 34. Sbr. 4 Mós. 35,1–8. V. 39. Með þræla var í fornöld farið sem gripi, og er enn þar sem þrældómur viðhelst. Mósislög sýndu nokkra vægð (2 Mós. 20,10. 21,20.21. 5 Mós. 5,14–15. 12,17.18) útlendum þrælum; með hebreska þræla skipa þau að fara sem daglaunamenn. Sjá ennfremur skgr. til v. 10.