Jesús kennir í eftirlíkingum; lætur sjóinn verða kyrran.

1Og hann tók aftur til að kenna við sjóinn, dreif þá til hans svo mikill fjöldi fólks, að hann hlaut að stíga á skip og setjast þar, en múgurinn allur var á landi fram við sjóinn;
2þá kenndi hann þeim margt í dæmisögum, og mælti til þeirra í sinni kenningu:3gefið gaum að máli mínu! sjá! maður nokkur fór að sá;4en það vildi svo til, þá hann var að sá, að sumt sæðið féll við veginn og fuglar komu og átu það;5sumt féll í grýtta jörð hvar það hafði lítinn jarðveg; það óx að sönnu skjótt, því það hafði lítinn jarðveg;6en er sólin hækkaði á lofti, skrælnaði það og visnaði, sökum þess það hafði ekki nógar rætur;7sumt féll meðal þyrna, en þyrnarnir uxu upp og kæfðu það, svo það bar engan ávöxt.8En sumt féll í góða jörð, það spratt, óx og bar ávöxt, sumt þrítugfaldan, sumt fertugfaldan og sumt hundraðfaldan.9Nemi þetta—segir hann—sá, er nema kann!10Síðar, er hann var einnsaman, spurðu þeir, sem með honum vóru, ásamt þeim tólf, um það, hvað þessi dæmisaga ætti að þýða?11Jesús mælti: yður er unnt að skilja leyndardóma Guðs ríkis, hinum út í frá hlýtur að kennast með dæmisögum;12því þótt þeir horfi með opnum augum, sjá þeir samt ekki, og þótt þeir hlusti með eyrunum, þá skynja þeir ekki; þess vegna bæta þeir ekki ráð sitt, til að öðlast aflát fyrir misgjörðir sínar.13Síðan sagði hann við þá: ef þér skiljið ekki þessa dæmisögu, hvörninn getið þér þá allar dæmisögur skilið?14Sáðmaðurinn þýðir þann, er kenninguna flytur;15sæðið, sem við veginn var sáð, merkir þá, hvörjum kenningin er flutt, og nær þeir hafa heyrt hana, kemur Satan strax og tekur kenninguna, er þeim var birt, burt úr hjörtum þeirra.16Eins merkir sæðið, sem féll í grýtta jörð þá, sem heyra mína kenningu og veita henni strax viðtöku með fögnuði;17en vegna þess að þeir láta ekki lærdóminn rótfestast, heldur eru óstöðugir, þá kasta þeir strax trú sinni, þegar þeir, minnar kenningar vegna, hljóta mótlæti og ofsóknum að mæta.18Sæðið, hvörju sáð var meðal þyrna, merkir þá, er að sönnu heyra mína kenningu,19en umhyggja fyrir lífi þessu, táldrægni auðæfanna og girndir til annarra hluta koma til og kefja kenninguna, svo hún verður ávaxtarlaus.20En sæðið, er féll í góða jörð, þýðir þá, er heyra mína kenningu og færa ávöxt, sumir þrítugfaldan, sumir sextugfaldan og sumir hundraðfaldan.
21Síðan sagði hann við þá: hvört plaga menn að bera inn ljós og hylja það síðan undir íláti eður bekk? er ekki heldur siður að setja það í ljósastiku?22Því ekkert er svo hulið, að það ekki verði opinbert, og ekkert svo fólgið, að það ekki verði augljóst.23Nemi þetta hvör sá, er nema kann!24Enn framar sagði hann við þá: gefið gaum að því, sem þér heyrið; með þeim sama mæli, sem þér mælið, mun yður mælt verða, og við yður, sem takið eftir, mun viðbætt verða;25þeim, sem hefir, mun veitast, en frá hinum, sem ekki hefir, mun tekið verða jafnvel það hann hefir.
26Síðan sagði hann: eins er því varið með Guðs ríki, eins og þegar einhvör kastar sæði í jörð;27hann sefur um nætur, en vakir um daga, en sæðið vex og dafnar án þess hann viti það;28því jörðin ber sjálfkrafa ávöxt, fyrst kornstöngina, síðan axið, og seinast fullvaxið korn í axinu;29en nær ávöxturinn er fullvaxinn, lætur hann slá kornið, því þá er kornskurðartíminn fyrir hendi.
30Enn sagði hann: hvar við skal eg jafna Guðs ríki? eður hvörja eftirlíkingu skal eg brúka, til að leiða yður það fyrir sjónir?31Líkt er það mustarðskorni; nær því er sáð, er það hið minnsta allra frækorna;32síðan vex það, og verður hvörju kálgresi meira, og fær stórar greinir, svo fuglar himins geta leitað sér skjóls í skugga þess.33Í mörgum þess konar eftirlíkingum framsetti hann kenningu sína, eins og best átti við þeirra skilning;34en án eftirlíkinga kenndi hann þeim ekki. Síðan, þegar hann var einnsaman, lagði hann allt út fyrir lærisveinum sínum.
35Að kvöldi sama dags bauð hann lærisveinum sínum að fara yfir um sjóinn.36Þeir skildu við fólkið, og fóru með hann með sér á skipinu, eins og hann stóð, en önnur skip fylgdust með honum.37Þá gjörði veður mikið, svo bylgjurnar féllu yfir skipið, svo að lá við að fyllti;38en hann svaf á kodda í skutnum. Þeir fóru þá og vöktu hann og sögðu: Meistari! hirðir þú ekki um það, að vér tortínumst?39hann reis þá upp, hastaði á vindinn og sagði við sjóinn: þegi þú og vertú kyrr! þá lægði veðrið og varð blíða logn;40síðan sagði hann við þá: því eruð þér svo huglausir, hvörsu gegnir yðar vantraust?
41en þeir urðu næsta hræddir, og sögðu hvör við annan: hvílíkur er þessi, er bæði veður og sjór hlýða?

V. 1–20. Matth. 13,1–8. Lúk. 8,5–15. V. 8. 1 Mós. 26,12. V. 21–23, sbr. Lúk. 8,6–18. (11,33–35. Matth 15,14.15. 10,26). V. 24, sbr. Matt. 7,2. V. 25, sbr. Matt. 13,12. V. 30–34, sbr. Matt. 13,32.34. V. 35–41. sbr. Matt 8,23–27. Lúk. 8,22–25.