Danítar leiðast og til afguðadýrkunar. Vinna Laís.

1Á þeim dögum var enginn kóngur í Ísrael, og Dans kynkvísl leitaðist við að fá sér eign, hvar hún búið gæti, því henni var inn til þess dags engin eign tilfallin meðal Ísraels ættkvísla.2Og Dansniðjar sendu út af sinni ættkvísl fimm menn, frá sínum endimörkum, hraustmenni, frá Sóra og Estahól, til að njósna um landið og skoða það, og sögðu til þeirra: farið og skoðið landið! og þeir komu á Efraimsfjall að húsi Mika, og voru þar um nótt.3Þegar þeir voru nú þar í húsi Mika, tóku þeir eftir málfæri þess unga manns Levítans, viku þess vegna afsíðis og sögðu við hann: hvör hefir fært þig hingað? hvað er það, sem þú aðhefst hér? og hvað fyrir kosti hefir þú hér?4Og hann sagði þeim á hvörn hátt að Mika hefði breytt við sig, og að hann hefði leigt sig og gjört sig að presti sínum.5Þá sögðu þeir til hans: kæri, aðspyr þú þá Guð, svo vér fáum að vita, hvört það áform, sem vér höfum fyrir stafni, skal vel lukkast? Presturinn sagði þeim: farið í friði!6áform það, sem þér hafið fyrir stafni, geðjast Drottni! Síðan fóru þessir fimm menn af stað, og komu til Laís,7og sáu að fólk það, sem þar bjó, var, eftir sídóniskra hætti, rólegt og óhult um sig; og þar var enginn í landinu, (sem gjörði þeim óskunda), eða sem vald hefði yfir þeim; og þeir voru í fjarlægð við þá sídónisku, og höfðu ekkert saman við fólk að sælda.8Og (njósnarmennirnir) fóru (til baka) til bræðra sinna í Sóra og Estahól; og bræður þeirra svöruðu: hvað segið þér? þeir svöruðu: takið yður upp, og látum oss hefja herför á móti þeim;9því vér höfum séð landið og að það er yfrið gott. Og—hvað; viljið þér hika við þetta? *) verið ekki tregir að fara ferð þessa, svo þér getið eignast landið.10Nær þér komið þar, munuð þér hitta ugglaust fólk, en landið er bæði vítt og breitt, og Guð hefir gefið það í yðar hendur, já þvílíkt eitt pláss, hvar enginn skortur er á neinu því, sem til er í landinu.11Þar eftir ferðuðust þaðan, af Dans ættkvísl frá Sóra og Estahól, sex hundruð manna, útbúnir með hervopnum.12Og þeir fóru upp eftir og settu herbúðir í Kiríat Jearím í Júda; þess vegna kalla menn þann sama stað: Dans herbúðir, allt fram á þennan dag, hvör eð liggur á baka til við Kiríat Jearím.13Svo fóru þeir þaðan og yfir á Efraimsfjall, og komu til Mika húss.14Þá hófu þeir fimm menn, sem út höfðu farið að skoða landið Laís, máls, og sögðu til sinna bræðra: vitið þér að í þessu húsi er hökull, húsgoð, bæði útskorið og steypt bílæti, hugsið þér yður nú um, hvað þér skuluð gjöra!15Og þeir viku (sér af vegi) þangað, og komu í hús ens unga manns, (nefnilega) þess Levíta, sem var á heimili Mika, og þeir heilsuðu honum kærlega *).16En þau sex hundruð manna, sem útbúin voru með hervopnum, af niðjum Dans, stóðu úti fyrir portdyrunum.17En þeir fimm menn, sem út höfðu farið að njósna um landið, fóru upp þangað, og tóku útskorna bílætið, hökulinn, húsgoðin, og hið steypta bílæti; en presturinn stóð úti fyrir portdyrunum og þau sex hundruð manna, sem útbúin voru með hervopnum.18Nú sem hinir voru komnir í hús Mika, og höfðu tekið hið útskorna bílæti, hökulinn, húsgoðin, og það steypta bílæti, þá sagði presturinn til þeirra: hvað hafist þið að?19En þeir svöruðu honum: þegi þú og halt munni þínum *), og far með oss og vertu vor faðir og prestur. Er þér það betra að þú sért prestur í eins manns húsi, en á meðal heillrar kynkvíslar og ættar í Ísrael?20Og presturinn lét sér þetta mikið vel lynda, svo hann tók hökulinn, hús goðin, og það útskorna bílæti og komst í för með fólkinu.21Og sem þeir (Danítar) sneru við og fóru þaðan, þá sendu þeir undan sér börn og búsmala og annan farangur.22En sem þeir voru komnir langt áleiðis, frá húsi Mika, þá voru þeir menn, sem bjuggu í húsum nálægt húsi Mika, samankallaðir, og þeir sóttu fast eftir Dansniðjum.23Síðan kölluðu þeir til þeirra; en Dansniðjar sneru sér við og sögðu til Mika: hvað vantar þig, að þú ferð með (slíkan) samandreginn fjölda manns (eftir oss)?24Hann svaraði: þér hafið tekið mína guði, þá sem eg hafði gjört (mér) og svo prestinn, og eruð farnir burt, hvað hefi eg þá eftir framar? hvörnig kemur það þá til, að þér spyrjið: hvað (vantar) þig?25Þá sögðu Dans niðjar til hans: lát þú ekki heyrast þína raust hjá oss, svo fólkið, fullt af gremju ekki yfirfalli þig, og þú glatir svo lífi þínu og lífi þíns húss.26Dansniðjar fóru svo leiðar sinnar; og af því að Mika sá, að þeir voru sér yfirsterkari, sneri hann til baka og fór heim aftur.27En hinir tóku húsgoðin sem Mika hafði tilbúið, og prest hans, og féllu (óvörum) yfir Laís, yfir rólegt fólk, sem ekki hugði að sér, og slógu það með sverðseggjum, en lögðu eld í borgina.28Og þar var enginn sem kæmi þeim til hjálpar, því borgin lá langt frá Sídon, og þeir höfðu engin mök við nokkra þjóð, því borgin var í dal nokkrum, sem liggur hjá Bet-Rekob. Svo byggðu þeir (Dansniðjar) borgina upp (aftur), og settust þar að.29Og þeir kölluðu nafn borgarinnar Dan, eftir nafni Dans, þeirra forföðurs, sem var Ísraelssonur; en borgarinnar nafn hafði þó í öndverðu verið Laís.30En Dansniðjar uppreistu hér það útskorna bílæti handa sér (til dýrkunar); og Jónatan, sonur Gersons, sonar Manassis og niðjar hans voru prestar meðal Dans ættkvíslar, uns þeir (herleiddir) fluttu sig af landi burt.31Svoleiðis settu þeir það útskorna bílæti, sem Mika hafði tilbúið, upp, sín á meðal, svo lengi sem Guðs hús var í Síló.

V. 1. Dóm. 17,6. 19,1. 21,25. V. 2. Dóm. 13,25. 17,1. V. 3. Dóm. 17,7. nl. að hann var ekki þar uppalin. V. 5. Áform. heb. vegur. V. 9. *) Hebr. og þér þegið. V. 12. Jós. 15,9.60. V. 13. Dóm. 17,1. 18,2. V. 14. Dóm. 17,4.5. V. 15. *) Hebr. óskuðu honum friðar. V. 19. *) Hebr. legg hönd þína yfir munn þinn. V. 20. Dóm. 16,25. V. 28. 2 Sam. 10,6.8. V. 31. Jós. 18,1. V. 30. 1 Kóng. 12,28. og s. fr. 2 Kóng. 17,29. V. 31. Jós. 18,1.