Jesús ríður inn í Jerúsalem, og hreinsar musterið; læknar; forsvarar börnin, sem prísuðu hann; lætur fíkjutré visna; forsvarar sinn myndugleika; segir dæmisöguna um þá tvo sonu, og um víngarðsmennina; prestarnir vilja leggja hendur á hann.

1Þegar þeir nú nálguðust Jerúsalem og komu til Betfage hjá Viðsmjörsfjallinu, þá sendi Jesús frá sér tvo af lærisveinum sínum og mælti:2farið þið í þorp það, er gagnvart ykkur er, og strax munuð þið finna ösnu bundna og fola hjá henni, leysið þau og færið mér;3en verði nokkuð til yðar sagt, þá segið: að Herra ykkar þurfi þeirra við; og þá mun þeim strax verða sleppt við yður.4Allt þetta skeði, svo að sannaðist það, er spámaðurinn segir:5„Segið Síons dóttur a): Sjá! þinn konungur kemur til þín hógvær, ríðandi ösnu og fola hennar.“6lærisveinarnir fóru leiðar sinnar og gjörðu, sem Jesús hafði fyrir þá lagt,7færðu þangað ösnuna og folann, og lögðu á þau klæði sín, en hann steig á bak;8en flestir af fólkinu breiddu klæði sín á veginn; aðrir hjuggu lim af trjánum, og stráðu því á brautina.9En múgurinn, er undan fór og á eftir fylgdi, kallaði og sagði: styrk þú, Drottinn! þenna niðja Davíðs! blessaður sé þessi, sem kemur í umboði Drottins! hjálpa þú, sem á himninum byggir!10Nú er þeir komu inn í Jerúsalem, varð allur borgarlýður uppvægur og spurði: hvör þessi væri?11en fólkið, er honum fylgdi, sagði: þessi er spámaðurinn Jesús frá Nasaret í Galíleu.12Þá fór Jesús inn í musteri Guðs, og rak þaðan út alla þá, sem seldu þar og keyptu; hann hratt og niður borðum þeirra, er með peninga okruðu, og stólum þeirra, er dúfur seldu,13og mælti við þá: skrifað er: „að mitt hús skuli vera bænahús b), en þér hafið gjört það að ræningjabæli c).“14Þá voru færðir til hans blindir og haltir í musterinu og hann læknaði þá.15En er þeir æðstu prestar og hinir skriftlærðu sáu þau undur, er hann gjörði, og að börnin kölluðu í musterinu og sögðu: styrk þú, (Drottinn)! þenna niðja Davíðs! þá reiddust þeir16og sögðu við hann: heyrir þú hvað þessir segja? sannlega heyri eg það, sagði Jesús; en hafið þér ekki lesið: „þú hefir tilreitt þér lof af munni barna og brjóstmylkinga.“17Að svo mæltu: veik hann frá þeim og fór úr borginni til Betaníu, og var þar um nóttina.
18En að morgni, er hann fór aftur til borgarinnar, tók hann að hungra;19þá leit hann eitt fíkjutré er stóð við veginn; þangað gekk hann, en fann ekkert á því nema blöðin tóm; þá mælti hann við tréð: aldrei vaxi á þér ávöxtur framar; en fíkjutréð visnaði strax.20Og er lærisveinar hans sáu það, undruðust þeir og mæltu: hvörsu skjótt visnaði ekki fíkjutréð?21Þá tók Jesús til orða og mælti: sannlega segi eg yður, ef að þér tryðuð og efuðust ekki, þá munduð þér ekki einungis gjört geta þetta við fíkjutréð, heldur ef þér segðuð fjalli þessu að lyfta sér upp og kasta sér á haf út, þá mundi það verða.22Því allt það, hvörs þér trúaröruggir beiðist, mun yður veitt verða.
23Nú er hann kom í musterið, söfnuðust til hans hinir æðstu prestar og öldungar lýðsins, og spurðu hann: með hvörjum myndugleika hann gjörði þetta, eður hvör honum hefði gefið þetta vald?24Jesús mælti: eg vil spyrja yður eins hlutar, og ef þér segið mér hann, mun eg og segja yður, með hvörjum myndugleika eg gjöri þetta.25Hvör gaf Jóhannesi vald að skíra? hvört heldur Guð eður menn? þeir íhuguðu þetta og ætluðu, að ef þeir segðu að Guð hefði gefið honum þetta vald, þá mundi hann spyrja: því þeir ekki hefðu trúað honum?26en að það hafi verið af manna völdum, þorðu þeir ekki fyrir alþýðu að segja; því allir höfðu það fyrir satt, að Jóhannes hefði spámaður verið:27Þá svöruðu þeir: að þeir vissu það ekki. Jesús sagði þá og við þá: þá mun eg ekki heldur segja yður með hvörjum myndugleika eg gjöri þetta.28En hvað sýnist yður um það: að einn maður átti tvo sonu; hann gekk til annars og sagði: sonur! far þú í dag og vinn verk í víngarði mínum;29en hann kvaðst hvörgi mundu fara; en eftir á iðraðist hann þess, og fór til verksins.30Þá gekk faðirinn til hins, og sagði eins við hann; hann játti því, en fór þó hvörgi.31Hvör af þessum tveimur gjörði nú vilja föðursins? þeir svöruðu: sá fyrri. Þá mælti Jesús: trúið mér, að skattheimtendur og pútur munu fyrr koma í Guðs ríki en þér;32því Jóhannes kom og vísaði yður á veg ráðvendninnar, en þér hlýdduð honum ekki, en skattheimtarar og pútur hlýddu honum; og þótt þér sæjuð það, sneruð þér yður þó ekki til betrunar, svo að þér festuð trú til hans kenninga.33Eg vil segja yður aðra dæmisögu: Húsbóndi nokkur plantaði víngarð, hlóð garð um hann, þar gjörði hann vínpressu og byggði hús mikið; síðan leigði hann víngarðinn víngarðsmönnum og fór sjálfur úr landi;34en er leið að vínberjalesturstímanum, sendi hann þjóna sína til víngarðsmannanna, að veita ávöxtunum móttöku.35En víngarðsmennirnir tóku þá höndum, og börðu suma, aðra drápu þeir og nokkra lömdu þeir grjóti.36Þá sendi húsbóndinn í öðru sinni aðra þjóna, fleiri en þá fyrri; en þeir breyttu eins við þá.37Seinast sendi hann til þeirra son sinn, því hann ætlaði, að þeir mundu þó bera virðingu fyrir syni sínum;38en er víngarðsmennirnir sáu hann, tóku þeir ráð sín saman, og mæltu: þetta er erfinginn, tökum hann af lífi, svo vér náum arfi hans.39Síðan tóku þeir hann höndum, drógu hann út úr víngarðinum og drápu hann.40Hvörninn ætlið þér nú, að eigandi víngarðsins muni breyta við þessa víngarðsmenn nær hann kemur?41þeir mæltu: illmennum þessum mun hann tortína; en víngarð sinn mun hann leigja öðrum víngarðsmönnum, þeim er gjalda honum ávextina í réttan tíma.42Jesús mælti: hafið þér aldrei lesið í bókinni helgu: „steinn sá, er húsasmiðir útskúfuðu, hann er nú hornsteinn orðinn, af Guði er hann til þess kjörinn, þótt oss undarlegt þyki“.43Þess vegna segi eg yður það fyrir satt, að Guðs ríki mun frá yður takast, og gefast þjóð þeirri er ber því verðuga ávexti.44Hvör hann fellur á stein þenna, mun sig slasa, en á hvörn að steinninn fellur, þann mun hann merja.45En er hinir æðstu prestar og farísearnir heyrðu þessar dæmisögur, skildu þeir, að hann meinti þetta til þeirra;46og vildu leggja hendur á hann, þorðu það þó ekki fyrir alþýðunni, því allir héldu hann að vera spámann.

V. 1–17. sbr. Mark. 11,1–11.15–19. Lúk. 19,29–40. V. 2. Jóh. 12,14–15. V. 4. Sak. 9,9. V. 5. a. Þ. e. Jerúsalem. V. 9. Sálm. 118,24–26. V. 13. b. Esa. 56,7. c. Jer. 7,11. V. 16. Sálm. 8,3. V. 18–22, sbr. Mark. 11,12–14.20–24. V. 23–27. Mark. 11,27–33. Lúk. 20,1–8. V. 33–42. Mark. 12,1–12. Lúk. 20,9–19. V. 42. Sálm. 118,22.23. V. 44. Es. 8,14.15.