Jesús talar um víngarð; um skatt; um upprisuna; um lögmálið; um sjálfan sig; um gjöf ekkjunnar.

1Þá sagði hann dæmisögu þessa: maður nokkur plantaði víngarð, og hlóð garð um hann; þar gjörði hann vínpressu og byggði þar turn; síðan leigði hann víngarðinn víngarðsmönnum, og fór úr landi.2Þegar tími var til, sendi hann þjón sinn til víngarðsmannanna, til að veita þeim hluta ávaxtarins móttöku, er hann hafði áskilið sér;3hann tóku þeir höndum, börðu hann, og sendu aftur tómhentan.4Þá sendi húsbóndinn annan þjón til þeirra; þenna börðu þeir grjóti, særðu hann á höfði, lögðu honum háðungar til, og létu hann svo fara.5Enn þá sendi hann þann þriðja þjón til þeirra; hann myrtu þeir. Marga fleiri sendi hann, en suma af þeim börðu þeir, en suma drápu þeir.6En þá átti hann eftir einn einkason, hvörjum hann unni mjög; þenna sendi hann seinast til þeirra, og sagði þeir mundu þó bera virðingu fyrir syni sínum;7en víngarðsmennirnir tóku ráð sín saman, og mæltu sín á milli: þessi er sá, sem erfa skal víngarðinn, tökum hann af lífi, svo verður arfurinn vor.8Síðan tóku þeir hann höndum, myrtu hann, og köstuðu honum út fyrir víngarðinn.9Hvað ætlið þér, að eigandi víngarðsins muni gjöra? hann mun koma og fyrirfara víngarðsmönnunum, og leigja víngarð sinn öðrum.10Hafið þér ekki lesið það: sá steinn, er húsasmiðirnir útskúfuðu, hann er nú hornsteinn orðinn,11af Guði er hann þar til kjörinn, þótt oss undarlegt þyki.12Þá vildu þeir leggja hendur á hann, en þorðu það ekki fyrir alþýðunni, því þeir skildu, að hann sagði dæmisögu þessa upp á þá; þeir yfirgáfu hann því og gengu á burt.
13Eftir þetta sendu þeir til hans nokkra af faríseum og mönnum Heródesar er leitast skyldu við að fá á orðum hans.14Þeir spurðu hann á þessa leið: Meistari! oss er kunnugt að þú ert sannorður, þú mælir ekki, sem hvör vill heyra, og fer ekki að mannvirðingum, heldur kennir þú Guðs lærdóm réttilega: hvört eigum vér að lúta keisaranum skatt eður ekki? hvört skulum vér gjalda hann eður ekki?15Nú er Jesús skildi fláttskap þeirra, mælti hann: því freistið þér mín? færið mér peninginn, að eg sjái hann; þeir gjörðu svo.16Jesús spurði þá: hvörs að væri mynd sú og yfirskrift, er á honum stæði? þeir sögðu: að það væri keisarans;17þá sagði Jesús: gjaldið þá keisaranum, hvað keisarans er, og Guði, hvað Guðs er; og þá furðaði á honum.18Nú komu sadúsear til hans, sem neita því, að dauðir menn upprísi. Þeir lögðu fyrir hann þessa spurningu:19Meistari!—sögðu þeir—Mósis hefir boðið oss: að ef nokkur dæi barnlaus frá konu sinni, þá skyldi bróðir hans fá konu hans, til þess að halda við ættlegg bróður síns;20en með oss voru sjö bræður, hinn fyrsti þeirra kvongaðist og dó barnlaus;21þá gekk annar bróðir hans til að eiga konu hans; hann dó og barnlaus;22síðan hinn þriðji, og allir sjö eignuðust hana, og deyðu barnlausir, en seinast allra deyði konan.23Hvörs þeirra eiginkona skal hún nú verða í upprisunni, þá þeir upprísa? því þeir höfðu átt hana allir sjö.24Jesús mælti: hvört villist þér ekki þess vegna, að þér hvörki skiljið Ritninguna, né mátt Guðs?25því þegar menn upprísa, munu hvörki þeir kvænast, né þær giftast, heldur munu þeir verða eins og englar Guðs á himnum.26En hvað upprisu framliðinna viðvíkur, hafið þér ekki lesið í Mósisbók í frásögunni um runninn, hvað Guð sagði við hann, og svo hljóðar: „Eg er Guð Abrahams, Guð Ísaks og Guð Jakobs.“27Guð er ekki Guð dauðra, heldur lifendra; er því villa yðar stór.28Þá kom til hans einn af þeim skriftlærðu, er heyrt hafði á samtal þeirra, og hvörsu vel að Jesús hafði svarað þeim; hann spurði á þessa leið: hvör er það allra æðsta boð?29Jesús mælti: það allra æðsta boð er þetta: heyr þú, Ísrael! Drottinn vor Guð er sá einasti Guð,30þar fyrir átt þú að elska Drottin Guð þinn af öllu þínu hjarta, af allri þinni sálu, af öllum huga og öllum kröftum.31Þetta er það æðsta boð, og þessu líkt er hitt: elska skaltu náunga þinn eins og sjálfan þig; ekkert boð er æðra, en þessi.32Þá sagði hinn skriftlærði: ágætlega svaraðir þú, og satt er það, að ekki er Guð nema einn, og enginn utan hann;33og að elska Guð af öllu hjarta, öllum huga, allri sálu og öllum kröftum, og náungann eins og sjálfan sig, er meir áríðandi, en öll boð um brennifórnir og offur.34Þegar Jesús heyrði þetta skynsamlega andsvar hans, mælti hann: þú ert ekki langt frá Guðs ríki; og enginn þorði að þreyta spurningar við hann framar.
35Og er Jesús var að kenna í musterinu sagði hann: því segja hinir skriftlærðu, að Kristur sé Davíðs sonur?36en Davíð segir þó sjálfur fyrir heilagan Anda: „Drottinn sagði við minn Drottin: sit þú mér til hægri handar, þar til eg gjöri óvini þína að skör fóta þinna.“37Hér kallar Davíð hann sjálfur Herra; hvörninn kann hann þá að vera sonur hans? og allur lýðurinn heyrði hann fúslega.38Í kenningu sinni sagði hann þá til þeirra: varið yður við þeim skriftlærðu, sem gjarna brúka síð klæði; girnast, að þeim sé heilsað á mannamótum,39sitji í fyrirsæti í samkundum og séu efstir til borðs í veislum;40þeir útsjúga hús ekkna, og það undir yfirhylmingu langra bæna; þeir munu og þess þyngra straffi sæta.
41Einhvörju sinni sat Jesús gegnt féhirslu musterisins, og sá, að fjöldi fólks lagði þar fé í, og margir þeir, er ríkir vóru, lögðu mikið til;42þá kom þar að ekkja nokkur fátæk, og lagði þar í tvo smápeninga, sem eru hálfs skildings virði.43Þá kallaði Jesús til sín lærisveina sína, og sagði þeim: trúið mér! þessi fátæka ekkja hefir meira fé lagt í fjárhirsluna, en allir hinir;44því þeir gáfu allir af því, sem þeir höfðu afgangs, en hún af fátækdóm sínum, aleigu sína, alla sína lífsbjörg.

V. 1–12, sbr. Matt. 21,33–42. Lúk. 20,9–19. V. 10–11, sbr. Sálm. 118,22.23. V. 13–17. Matt. 22,15–22. Lúk. 20,20–26. V. 18–34, sbr. Matt. 22,23–40. Lúk. 20,27–39. V. 18. Post. Gb. 23,8. V. 19. 5 Mós. 25,5. V. 26. 2 Mós. 3,2–6. V. 29. sbr. 5 Mós. 6,4.5. 3 Mós. 19,18. V. 31–34. sbr. Lúk. 10,25–37. V. 35–37. Matt. 22,41–46. Lúk. 20,41–44. V. 36. Sálm. 110,1. V. 37–40. sbr. Matt. 23,5–7. Lúk. 20,45–47. V. 41–44. sbr. Lúk. 21,1–4.