Amos spáir, að musterið muni niðurbrotið verða, ríkið til grunna ganga, og þjóðin tvístrast; að Drottinn muni aftur saman safna Ísraelsmönnum, viðreisa veldisstól Davíðs, og blessa sitt fólk ríkuglega.

1Eg sá hinn Alvalda standa uppi á altarinu, og hann sagði: slá þú á súlnahöfuðin, svo hart að þröskuldarnir skjálfi; högg þú þau sundur, svo brotin hrjóti í höfuð öllum þeim (sem fyrir neðan standa), en hina, sem eftir verða, skal eg slá í hel með sverði. Sá af þeim, sem á flótta er kominn, skal ekki geta undan flúið; og sá sem er burt hlaupinn, skal ekki undan komast.
2Þó þeir brjóti sér farveg niður í undirheima, þá skal þó hönd mín þrífa þá þaðan; þó þeir stígi upp til himins, skal eg steypa þeim ofan þaðan;3þó þeir feli sig á Karmelstindi, skal eg leita þeirra þar og færa þá þaðan; þó þeir vilji leynast fyrir augum mínum á mararbotni, skal eg bjóða höggormi, og hann skal bíta þá;4og þó þeir hljóti að fara á undan óvinum sínum í útlegð, þá skal eg þaðan senda sverðið til að drepa þá. Eg vil snúa mínu augliti í gegn þeim, til ills, en ekki til góðs.5Því þegar hinn alvaldi allsherjar Drottinn snertir jörðina, þá rennur hún sundur, og allir, sem á henni búa, verða fullir angistar; hún verður öll í einu flóði, eins og í vatnagangi, og fer í kaf, eins og Egyptafljót flói yfir hana.6Hann er sá, sem byggir sín herbergi á himni uppi (Sálm. 104,3.13), og grundvallar sínar hvelfingar yfir jörðinni; hann kallar til sjávarvatnsins, og eys því yfir jörðina: Drottinn er hans nafn.7Er mér vandfarnara við yður, Ísraelsmenn, en við Blálendinga? segir Drottinn; hefi eg ekki flutt Ísraelsmenn frá Egyptalandi, Filista frá Kaftorslandi, og Sýrlendinga frá Kírlandi?8Sjá, Drottinn hinn alvaldi snýr augliti sínu gegn því hinu glæpafulla konungsríki; eg skal afmá það af jörðunni. Þó vil eg ekki með öllu afmá Jakobsniðja, segir Drottinn.9Því sjá, eg hefi ásett mér að sáldra Ísraelsmönnum meðal alls konar þjóða, eins og þá sáld er þannig skekið, að ekkert korn fellur til jarðar.10En allir syndarar meðal míns fólks skulu fyrir sverði falla, þeir er segja, „ógæfan mun ekki ná oss, og ekki koma á bak oss“.
11Á þeim degi vil eg aftur upp reisa Davíðs föllnu tjaldbúð, hlaða upp í veggjaskörðin, hressa við það sem hrunið er, og byggja hana upp, eins og hún var fyrr meir.12Þá skulu þeir eignast eftirleifar Edomsmanna og allra þeirra heiðingja, sem mér hafa á hönd gengið, segir Drottinn, sem lætur þetta fram koma.13Sjá! þeir dagar munu koma, segir Drottinn, að erjandanum skal lenda saman við kornskurðarmanninn, og víntroðslumanninum saman við sáðmanninn; fjöllin skulu drjúpa, og allir hálsar fljóta af vínberjalegi.14Því eg vil aftur heim leiða minn herleidda lýð, Ísraelslýð; þeir skulu uppbyggja hinar eyðilögðu borgir, og búa í þeim, planta víngarða, og drekka vín af þeim, búa til aldingarða, og eta ávöxt þeirra.15Eg vil gróðursetja þá í þeirra landi, og þeir skulu ekki framar upprættir verða úr landi þeirra, því er eg hefi gefið þeim, segir Drottinn þinn Guð.