Sadrak, Mesak og Abednegó er kastað í eldsofn.

1Nebúkadnesar konungur lét tilgjöra líkneskju af gulli, 60 álna á hæð og 6 álna á breidd; hann lét reisa hana í Dúradal í Babels héraði.2Nebúkadnesar konungur gjörði boð eftir þjóðjörlunum, yfirjörlunum, undirjörlunum, yfirdómurunum, gjaldkerunum, lögmönnunum, lögsögumönnunum og öllum sýslumönnum, að þeir skyldu koma saman til að vígja þá líkneskju, sem Nebúkadnesar konungur hafði reisa látið.3Þá söfnuðust saman þjóðjarlarnir, yfirjarlarnir, undirjarlarnir, yfirdómendurnir, gjaldkerarnir, lögmennirnir, lögsögumennirnir, og allir sýslumenn, til að vígja þá líkneskju, sem Nebúkadnesar konungur hafði reisa látið; og er þeir stóðu frammi fyrir þeirri líkneskju, er Nebúkadnesar konungur hafði látið reisa,4þá kallaði kallarinn hárri röddu: svo er yður öllum boðið, hvörrar þjóðar og hvaða landsmenn sem þér eruð, og hvörja tungu sem þér talið,5að þegar er þér heyrið hljóð hornanna, pípnanna, harpnanna, gígjanna, saltaranna, symfónanna, og alls kyns strengleika, þá skuluð þér fram falla, og tilbiðja þá gulllíkneskju, sem Nebúkadnesar konungur hefir reisa látið;6en hvör sem eigi fellur fram og tilbiður, þeim skal á samri stundu kastað verða inn í brennanda eldsofn.7Þess vegna, undir eins og allt fólkið heyrði hljóð hornanna, pípnanna, harpnanna, gígjanna, saltaranna og annarra hljóðfæra, þá féllu allir fram, hvörrar þjóðar, hvörs lands, og hvörrar tungu sem voru, og tilbáðu það gulllíkneski, sem Nebúkadnesar konungur hafði gjöra látið.8En á sömu stundu gengu fram nokkurir menn af Kaldeum, og ákærðu Gyðinga;9þeir tóku svo til orða, og sögðu til Nebúkadnesars konungs: njóti konungurinn langra lífdaga!10Þú gafst, konungur, þá skipun, að hvör maður, sem heyrði hljóð hornanna, pípnanna, harpnanna, gígjanna, saltaranna, symfónanna, og annarra hljóðfæra, skyldi fram falla og tilbiðja gulllíkneskið,11og hvör sem ekki félli fram og tilbæði, honum skyldi kasta inn í brennanda eldsofn.12Nú eru hér Gyðingar nokkrir, sem þú hefir sett til yfirstjórnar yfir Babels héraði, þeir Sadrak, Mesak og Abednegó; þessir menn virða þig að öngvu, konungur, þeir dýrka ekki þína guði, og tilbiðja ekki þá gulllíkneskju, sem þú hefir reisa látið.13Þá varð Nebúkadnesar fullur reiði og heiftar, og bauð að leiða fram þá Sadrak, Mesak og Abednegó; og voru þessir menn leiddir fyrir konunginn.14Nebúkadnesar tók til máls og sagði til þeirra: er það af ásettu, Sadrak, Mesak og Abednegó, að þér ekki viljið dýrka minn guð, og ekki tilbiðja þá líkneskju, sem eg hefi gjöra látið?15Nú vel! eruð þér nú við búnir, jafnskjótt og þér heyrið hljóð hornanna, pípnanna, harpnanna, gígjanna, saltaranna, symfónanna og annarra hljóðfæra, að falla fram og tilbiðja þá líkneskju, sem eg hefi gjöra látið? Ef þér tilbiðjið hana ekki, þá skal yður samstundis kastað verða inn í eldsofn brennanda; og hvör er sá Guð, er yður megi frelsa úr mínum höndum?16Sadrak, Mesak og Abednegó svöruðu, og sögðu til Nebúkadnesars konungs: ekki mun oss orðfátt verða, að svara þér hér til;17sjá þú! vor Guð, sem vér dýrkum, getur frelsað oss úr eldsofni brennanda; hann mun frelsa oss af þinni hendi, konungur,18og þó hann gjöri það ekki, þá skaltu samt vita, konungur, að vér munum ekki dýrka þína guði, og ekki tilbiðja þá gulllíkneskju, sem þú hefir reisa látið.19Þá fylltist Nebúkadnesar heiftarreiði við þá Sadrak, Mesak og Abednegó, svo hans ásjóna afmyndaðist; en er hann fékk orðum upp komið, bauð hann að kynda ofninn sjöfalt heitara, en menn hefði fyrr séð;20þá bauð hann ramefldum mönnum, sem voru í her hans, að binda þá Sadrak, Mesak og Abednegó, og kasta þeim svo í hinn brennanda eldsofn.21Síðan voru þessir menn bundnir í leistabrókum, kyrtlum, yfirhöfnum og klæðnaði sínum, og þeim varpað inn í hinn brennanda eldsofn;22og sökum þess að skipun konungsins var svo strengileg, en ofninn kyntur ákaflega, þá drap eldsloginn marga af mönnum þeim, sem köstuðu þeim Sadrak, Mesak og Abednegó inn í ofninn;23en þeir þrír menn, Sadrak, Mesak og Abednegó, féllu bundnir niður í þann brennanda eldsofn.24Brátt þar eftir varð Nebúkadnesar konungur forviða, spratt upp skyndilega, og mælti til ráðgjafa sinna: höfum vér ekki látið fleygja þremur mönnum fjötruðum inn í eldinn? Þeir svöruðu konunginum og sögðu: vissulega konungur!25Hann svaraði og sagði: eg sé þó fjóra menn ganga lausa inni í eldinum, án þess nokkuð hafi orðið þeim að grandi, og er því líkast, sem hinn fjórði sé sonur goðanna.26Þá gekk Nebúkadnesar að munna hins brennanda eldsofns, tók til orða og sagði: Sadrak, Mesak og Abednegó, þjónar hins hæsta Guðs! gangið út, og komið hingað! Þá gengu þeir Sadrak, Mesak og Abednegó út úr eldinum.27Þá flykktust að þjóðjarlarnir, yfirjarlarnir og undirjarlarnir, og ráðgjafar konungsins, og sáu, að eldurinn hafði ekki á þessa menn unnið, og ekki var sviðnað eitt hár á höfði þeirra, leistabrókum þeirra var ekki brugðið, og enginn eldseimur fannst af þeim.28Þá tók Nebúkadnesar til orða, og sagði: lofaður sé Guð þeirra Sadraks, Mesaks og Abednegós! hann sendi sinn engil, og frelsaði sína þjóna, sem í trausti til hans, skeyttu ekki boðskapi konungsins, heldur lögðu líkami sína í sölurnar, til þess þeir skyldu öngvan guð heiðra né tilbiðja annan, en þeirra Guð.29Nú útgef eg þá skipun, að sérhvör, hvörrar þjóðar, hvörs lands og hvörrar tungu sem er, sem mælir lastmæli gegn Guði þeirra Sadraks, Mesaks og Abednegós, sá skal höggvinn verða í stykki, og hús hans gjört að moldarhrúgu; því enginn annar guð er til, sem eins getur frelsað og hann.30Síðan hóf konungurinn þá Sadrak, Mesak og Abednegó til stórra mannvirðinga í Babels héraði.