Davíð og Jónatan verða vinir. Konurnar hrósa Davíð. Sál mislíkar, giftir honum þó dóttur sína Mikal.

1Og það skeði, er hann hafði endað tal sitt við Sál, þá batt Jónatans sál sig við Davíðs sál, og Jónatan elskaði hann sem sína sál a).2Og Sál tók hann, þann sama dag, og leyfði honum ekki að fara heim aftur til föður síns.3Og Jónatan og Davíð gjörðu fóstbræðralag b) af því hann elskaði hann sem sína sál.4Og Jónatan fór úr sinni skikkju sem hann var í, og gaf hana Davíð, og sinn kyrtil, já, sitt sverð, sinn boga og sitt belti.5Og Davíð var í sendiförum; hvört sem Sál sendi hann, hafði hann lukku, og Sál setti hann yfir stríðsfólkið, og hann var elskaður af öllu fólkinu og líka þjónum Sáls.
6Og það skeði, er þeir fóru inn (í staðinn) þá Davíð kom til baka og hafði lagt að velli Filisteann, að konurnar úr öllum Ísraels stöðum gengu út á móti Sál konungi syngjandi, honum til sóma, með básúnum, fagnaðarópi og hljóðfærum.7Og konurnar sungu, þær sem léku á hljóðfærin, og sögðu: Sál lagði að velli sína þúsund; en Davíð sín tíu þúsund c).8Þá varð Sál æfareiður, og honum mislíkuðu þessi orð, og hann sagði: Davíð hafa þær gefið 10 þúsund, og mér hafa þær gefið eitt þúsund; og hér eftir fær hann kóngsríkið í viðbót.9Og Sál leit öfundaraugum til Davíðs ávallt upp frá þeim degi.
10Og það skeði annars dags að illur andi frá Guði kom yfir Sál; og hann æddi í húsinu, en Davíð lék með sinni hendi þenna dag, eins og alla daga (á hljóðfæri), og Sáls spjót var í hans hendi.11Þá skaut Sál spjótinu, og hugsaði: eg vil nísta Davíð í gegn upp við vegginn; en Davíð skaut sér tvívegis undan.12Og Sál óttaðist Davíð, því Drottinn var með honum, og frá Sál var hann vikinn.13Og Sál lét hann frá sér, og gjörði hann að höfuðsmanni yfir þúsund, og hann gekk út og inn fyrir fólkinu.14Og Davíð var heppinn á öllum sínum vegum og Drottin var með honum.15Og sem Sál sá það, að hann hafði mikla lukku, varð hann hræddur við hann.16En allur Ísrael og Júda elskaði Davíð, og hann gekk út og inn fyrir þeim.
17Og Sál sagði við Davíð: sjá! mína elstu dóttur Merab vil eg gifta þér, reynstu mér aðeins öruggur maður, og stríð þú Drottins stríð d) en Sál hugsaði: mína hönd skal eg ekki á hann leggja; en leggi Filistearnir hönd á hann.18Og Davíð mælti við Sál: hvör er eg, og hvað mitt líf, ætt míns föðurs í Ísrael, að eg skyldi verða kóngsins tengdasonur?19En það skeði um það bil sem Merab dóttir Sáls skyldi gefast Davíð, þá var hún gefin Adriel Meholatíta fyrir konu.
20Og Mikal dóttir Sáls elskaði Davíð og Sál var sagt það, og honum líkaði það vel.21Og Sál mælti: eg vil gefa honum hana svo hún verði honum að snöru, og hönd Filisteanna komi yfir hann. Og Sál talaði í annað sinn við Davíð: þú skalt mægjast við mig í dag.22Og Sál bauð sínum þénurum: talið við Davíð heimuglega og segið: sjá! kóngurinn er þér velviljaður og allir hans þjónar elska þig, svo skaltu nú mægjast við konunginn.23Og þjónar Sáls töluðu þessi orð fyrir Davíðs eyrum. Og Davíð mælti: þykir yður það lítið að mægjast við konunginn? eg er fátækur og lítilsháttar maður!24Og þénarar Sáls báru honum þetta og mæltu: einmitt þessi orð hefir Davíð talað.25Og Sál mælti: segið svo Davíð: kóngurinn girnist enga brúðargáfu e), heldur aðeins hundrað forhúðir Filisteanna, svo að hefnd verði goldin fjandmönnum konungsins. En Sál hugsaði að láta Davíð falla fyrir hendi Filisteanna.26Og þjónar hans báru Davíð þessi orð, og Davíð líkaði þetta að mægjast við kónginn. Og enn var ekki tíminn kominn.27Þá tók Davíð sig til og lagði af stað, hann og hans menn og felldi meðal Filisteanna 2 hundruð menn og kom með þeirra forhúðir, og menn lögðu þær allar með tölu fyrir kónginn, svo að hann skyldi ná mægðum við kónginn; og Sál gaf honum Mikal sína dóttur fyrir konu.28Og Sál sá og tók eftir því að Drottinn var með Davíð; og Mikal, dóttir Sáls, elskaði hann (Davíð).29Og Sál hræddist Davíð enn meir, og sýndi honum fjandskap alla ævi.
30Og þegar höfðingjar Filistea fóru í hernað, svo skeði það, svo oft sem þeir drógu út, að Davíð var heppnari en allir þjónar Sáls, og mikið orð fór af honum.

V. 1. a. Kap. 16,21. 19,1. V. 3. b. Kap. 20,8. 2 Sam. 21,7. V. 7. c. Kap. 21,11. 29,5. V. 17. d. Aðr. og berstu bardögum Drottins. Kap. 25,28. V. 25. e. Konur voru keyptar af feðrum þeirra.