Akior ræður Hólofernes frá því forgefins að áreita Gyðinga.

1Þetta var sagt Hólofernes æðsta herforingja þess assýriska hers, að Ísraelssynir byggju sig út til stríðs, og hefðu læst veginum yfir fjöllin, og sett vígi á brúnir þeirra háu fjalla, og lagt hindranir á sléttlendið.2Þá varð hann ákaflega reiður, og kallaði alla Móabshöfðingja og fyrirliða Ammonssona, og alla höfuðsmenn í landinu við sjóinn,3og sagði við þá: látið mig þó vita, þér Kanaanssynir, hvaða fólk það er, sem býr á fjöllunum, og í hvaða borgum það býr, og hvörsu mikil þess makt er, og hvar í þess styrkur og máttur er innifalin, og hvör yfir það er settur, sem konungur, og er fyrir þess her,4og hvörs vegna þeir hliðruðu sér hjá, fremur öðrum innbúum vesturlanda, að ganga út á móti mér.5Og Akior höfuðsmaður allra Ammonssona mælti til hans: minn herra heyri tal af munni síns þjóns: svo mun eg segja þér sannleikann um fólk það, sem býr á þessum fjöllum, í nánd við þig; og engin ósannindi skulu koma fram af munni þíns þjóns.6Þetta fólk er komið af Kaldeumönnum.7Fyrst áttu þeir heima í Mesópotamíu. En af því þeir vildu ekki aðhyllast Guð sinna feðra, sem bjuggu í Kaldeulandi,8og viku af vegum feðra sinna, og tilbáðu himinsins Guð sem þeir höfðu lært að þekkja, svo ráku þeir þá burt frá augsýn sinna guða, og þeir flýðu til Mesópotamíu, og staðnæmdust þar lengi.9Og þeirra Guð bauð þeim að flytja sig úr sínum aðsetursstað, og fara inn í Kanaansland. Og þeir bjuggu þar, og urðu ríkir af gulli og silfri og mjög miklum fénaði.10Og þaðan fóru þeir til Egyptalands, því hungursneyð þrengdi að Kanaanslandi; og þeir voru þar þangað til þeir sneru þaðan aftur. Og þeir urðu þar að miklum fjölda, og þeirra kyn varð ekki talið.11Þá reis Egyptalandskóngur móti þeim, og menn beittu brögðum við þá með tígulsteinserfiði, og þröngdu þeim og gjörðu þá að þrælum.12Og þeir kölluðu til síns Guðs, og hann sló allt Egyptaland með plágum, hvar við engin lækning fékkst. Og egypskir ráku þá burt frá sér.13Og Guð lét það rauða haf fyrir þeim þorna,14og leiddi þá veginn til Sínaí og til Kades-Barnea, og þeir hröktu burt alla sem bjuggu í eyðimörkinni.15Og þeir bjuggu í Amorítalandi, og afmáðu alla Hesboníta með sínum mætti. Og þeir fóru yfir Jórdan, og unnu allt fjalllendið,16og ráku burt frá sér Kananíta, Feresíta, Jebúsíta, Sikemíta og alla Gergesíta, og bjuggu langan tíma í landinu.17Og svo lengi sem þeir syndguðu ekki fyrir sínum Guði, var hamingjan með þeim, því sá Guð, sem hatar ranglæti var með þeim.18En þegar þeir viku af þeim vegi sem hann hafði boðið þeim, urðu þeir mjög svo upprættir í mörgum stríðum, og burtfluttir í önnur lönd, og musteri þeirra Guðs var í grunn niðurrifið, og þeirra borgir unnar af mótstöðumönnunum.19En nú, þá þeir hvurfu aftur til síns Guðs, eru þeir komnir heim úr þeirri tvístrun, sem þeir höfðu fyrir orðið, og hafa náð aftur Jerúsalem, hvar þeirra helgidómur er, og hafa sest að á fjöllunum, því þau voru eyðimörk.20Og nú hússbóndi og herra, sé yfirtroðsla meðal þessa fólks, og syndgi þeir móti sínum Guði: svo látum oss eftir því grennslast, hvör yfirtroðsla á þeim hvílir, og leggja af stað og við þá stríða.21En ef engin sekt hvílir á þeim, kannske þeirra Drottinn og þeirra Guð haldi skildi yfir þeim, og vér verðum allri jörðunni að skopi.
22En sem Akior hætti að tala þessi orð, möglaði fólkið, sem stóð í kringum tjaldið. Og Hólofernes voldugu menn, og allir sem bjuggu í landinu við sjóinn, og Móabítar sögðu, að vinna skyldi á honum,23„því ekki erum vér hræddir við Ísraelssyni (sögðu þeir). Því sjá! í þeirri þjóð er engin kraftur og engin máttur til harðrar orrustu.24Látum oss því móti þeim fara, og þeir munu verða bráð öllum þínum her, vor herra Hólofernes“.