Móses er kallaður af Guði til að leiða Ísraels fólk út af Egyptalandi.

1Móses var fjárhirðir hjá Jetró, tengdaföður sínum, kennimanni í Midíanslandi, og hélt fénu vestur í eyðimörkina, og kom til Guðs fjalls, Hórebs.2Þar birtist honum engill Drottins í eldsloga, sem lagði út af þyrnirunni nokkurum; og sá hann, að runnurinn logaði, en brann ekki.3Þá sagði Móses: eg vil ganga nær, og sjá þessa hina miklu sýn, hvað til þess komi, að runnurinn brennur ekki.4En sem Drottinn sá, að hann veik þangað til að skoða þetta, þá kallaði Guð til hans úr runninum, og sagði: Móses! Móses! Hann svaraði: hér em eg:5Hann sagði: gakk ekki hingað! drag skó þína af fótum þér, því sá staður, er þú stendur á, er heilög jörð.6Hann sagði enn fremur: eg em Guð föður þíns, Guð Abrahams, Guð Ísaaks, og Guð Jakobs. Þá byrgði Móses sitt andlit, því hann þorði ekki að líta upp á Guð.7Drottinn sagði: eg hefi sannlega séð eymd míns fólks í Egyptalandi, og heyrt, hversu það kveinar undan þeim, sem þrælka það; eg veit, hvað bágt það á.8Eg em ofan farinn til að frelsa það af hendi Egyptalandsmanna, og til að leiða það út af því landi og til þess lands, sem er gott og víðlent, til þess lands, sem flýtur af mjólk og hunangi, í stöðvar þeirra Kananíta, Hetíta, Amoríta, Feresíta, Hevíta og Jebusíta.9Nú með því að kall Ísraelsmanna er komið til mín, og eg þar með hefi séð þá kúgun, með hvörri Egyptar þröngva þeim:10þá far þú nú, eg vil senda þig til faraós, og þú skalt leiða mitt fólk, Ísraelsmenn, út af Egyptalandi.11Móses sagði til Guðs: hvör em eg, að eg fari til fundar við faraó, og leiði Ísraelsmenn út af Egyptalandi?12Hann sagði: eg vil vera með þér; og það skaltu til marks hafa, að eg hefi sent þig, að þá þú hefir leitt fólkið út af Egyptalandi, skuluð þér þjóna Guði á þessu fjalli.13Móses sagði til Guðs: en þegar eg kem til Ísraelsmanna, og segi þeim: Guð feðra yðvarra sendi mig til yðar, og þeir segja til mín: hvört er nafn hans? hverju skal eg þá svara?14Guð sagði til Mósis: eg verð sá sem eg er; og hann sagði: svo skaltu segja Ísraelsmönnum: „sá sem verður (það sem hann er)“, hann sendi mig til yðar.15Guð sagði enn fremur til Móses: svo skaltu segja Ísraelsmönnum: Drottinn, Guð feðra yðvarra, Guð Abrahams, Guð Ísaaks, og Guð Jakobs, sendi mig til yðar; þetta er mitt nafn ævinlega, og með því skal nefna mig um aldur og ævi.16Far nú, og safna saman höfðingjum Ísraels fólks, og mæl við þá: Drottinn, Guð feðra yðvarra, Guð Abrahams, Ísaaks og Jakobs, birtist mér og sagði: eg hefi vitjað yðar, og séð meðferðina á yður í Egyptalandi;17og eg hefi sagt: eg vil leiða yður úr Egyptalands ánauð inn í land þeirra Kananíta, Hetíta, Amoríta, Feresíta, Hevíta og Jebúsíta, í það landið, sem flýtur af mjólk og hunangi.18Þeir munu skipast við orð þín, og skaltu þá ganga með höfðingjum Ísraelsmanna fyrir Egyptalandskonung, og segja til hans: Drottinn, Guð ebreskra manna, hefir birst oss; þar fyrir leyf oss nú að fara þrjár dagleiðir á eyðimörk, að vér færum fórnir Drottni, Guði vorum.19Veit eg þó, að Egyptalandskonungur mun eigi leyfa yður burtförina, og jafnvel ekki þó harðar sé á honum tekið.20En eg vil útrétta mína hönd, og ljósta Egyptalandsmenn með alls konar undrum, sem eg mun þar fremja meðal þeirra, og þá skal hann sleppa yður.21Eg skal láta þetta fólk hafa það lán hjá egypskum, að þá þér farið í burt, skuluð þér eigi tómhentir fara;22því hvör kona skal fá að láni hjá grannkonu sinni og sambýliskonu silfurker, gullker og klæði, og það sama skuluð þér láta sonu yðra og dætur í burt bera og skuluð þér taka það frá egypskum.