Esekíel spáir fyrir eyðileggingu Týrusborgar, lýsir áhlaupi Nebúkadnesars á borgina, 1–14; og skelfingunni, sem við það kom yfir nálægar þjóðir, 15–21.

1Á ellefta árinu, þann fyrsta dag hins fyrsta mánaðar, talaði Drottinn til mín svolátandi orðum:2þú mannsins son, fyrir það, að Týrusborg hlakkar yfir Jerúsalem, og segir: nú eru þjóðhliðin niðurbrotin, nú kemur (öll verslun) til mín, nú verð eg full, fyrst hún er orðin auð;3þar fyrir, svo segir Drottinn alvaldur, sjá! eg skal rísa upp í móti þér, Týrusborg! eg skal reisa margar þjóðir í gegn þér, eins og sjávarhafið reisir sínar bylgjur;4þær skulu umbylta múrveggjum Týrusborgar, og niðurbrjóta hennar turna; eg skal burtsópa rykinu af henni og gjöra hana að berum kletti;5hún skal verða að verstöð úti í hafinu, til að breiða net á: því eg hefi talað það, segir Drottinn alvaldur; og hún skal verða þjóðunum að herfangi;6dætur hennar, sem á sléttlendinu eru, skulu með sverði drepnar verða, og þeir skulu viðurkenna, að eg em Drottinn.7Því svo segir Drottinn alvaldur: sjá! eg leiði Nebúkadnesar, Babelskonung, konung konunganna, gegn Týrusborg, frá norðri, með hestum, vögnum, riddurum, miklum mannfjölda og mörgum þjóðum;8hann skal með sverði vega dætur þínar á sléttlendinu, setja víggarða um þig, hleypa upp jarðhryggjum, og reisa herskjöldu móti þér;9hann skal berja á þínum múrveggjum með sínu herskaparverkfæri, og niðurrífa þína turna með sínum hervopnum;10af hestagrúanum skaltu hulin verða í jóreyk, og þínir múrar skulu skjálfa af gný riddaranna, hjólanna og vagnanna, þegar hann fer inn um þín borgarhlið, á þann hátt sem menn fara inn í yfirunninn stað;11hann skal niðurtroða öll þín stræti með hrossahófum, drepa niður fólk þitt með sverði, og þær líkneskjur, sem þú treystir á, skulu hrapa til jarðar;12þeir skulu ræna þínum auði, hrifsa burt þinn kaupeyri, brjóta niður borgveggi þína, niðurrífa þín dýrðlegu hús, og varpa á sjó út húsagrjótinu, viðnum og rofinu.13Eg skal lægja klið þinna söngva, og hljómur þinna harpna skal ei framar heyrður verða;14eg skal gjöra þig að berum kletti; þú skalt verða að verstöð, til að breiða net á; þú skalt ekki framar upp byggð verða: því eg Drottinn hefi talað það, segir Drottinn alvaldur.
15Svo segir Drottinn alvaldur til Týrusborgar: hvört munu ei sjóbyggðirnar skelfast við dynkinn af þínu hruni, við hljóð hinna særðu, og við mannfallið, sem í þér mun verða?16Allir hafsins drottnar munu stíga niður af sínum hástólum, leggja niður skrúð sitt, og fara af glitklæðum sínum, en íklæðast hræðslunni, setjast á jörðina, óttast hvört augnablik, og verða sinnulausir út af þér;17þeir munu upp hefja harmaljóð um þig, og segja: hvörnin ertú til grunna gengin, þú víðfræga sjávarborg, sem varst svo voldug á hafinu! þú og þínir innbyggjendur, sem allir sjóbyggjar voru hræddir við!18Sælöndin titra nú á degi þíns falls, og eyjarnar í hafinu skelfast yfir óförum þínum.19Því svo segir Drottinn alvaldur: þegar eg gjöri þig að eyðiborg, eins og þær borgir, sem óbyggðar eru; þegar eg læt hafið streyma yfir þig, og mörg vötn hylja þig;20þegar eg steypi þér niður til þeirra, sem ofan eru farnir í gröfina, til manna frá fyrri tíðum, og læt þig búa í undirheimi; meðal borgarústa frá fornöld, hjá þeim sem í gröfina eru niðurstignir, svo þú ekki verðir byggileg framar: þá skal eg láta verða blómlegt á landi enna lifendu.21Eg skal leggja þig í eyði skyndilega; þú skalt verða að öngvu; þín skal verða leitað, en aldrei skaltu finnast til eilífðar, segir Drottinn alvaldur.