Esekíel spáir fyrir Ammonítum, 1–7; Móabítum, 8–11; Edomítum, 12–14; Filistum, 15–17.

1Drottinn talaði til mín svolátandi orðum:2þú mannsins son, snú þér móti Ammonítum, og spá fyrir þeim,3og seg til Ammoníta: heyrið orð Drottins, hins alvalda! svo segir Drottinn alvaldur: fyrir það, að þú hlakkar yfir því, að minn helgidómur er vanhelgaður, og yfir því, að Ísraelsland er í eyði lagt, og Júdaríkis innbúar hafa orðið að fara í útlegð:4þar fyrir, sjá! eg gef þig Austurvegsmönnum til eignar; þeir skulu setja kvíar sínar í þínu landi, og reisa þar búðir sínar, þeir skulu eta þinn ávöxt og drekka þína mjólk;5eg skal gjöra Rabba að úlfaldastíu, og land Ammoníta að hjarðarbóli, svo þér skuluð viðurkenna, að eg em Drottinn.6Því svo segir Drottinn alvaldur: fyrir það, að þú klappar lof í lófa, og getur í hvorugan fótinn stígið ofdrambs gleði yfir Ísraelslandi,7þar fyrir, sjá! eg útrétti mína hönd í móti þér, læt þig verða heiðingjum að herfangi, afmái þig úr tölu þjóðanna, týni þér úr tölu landanna, og eyðilegg þig, svo þú viðurkennir, að eg em Drottinn.
8Svo segir Drottinn alvaldur: af því Móabsmenn og Seirsmenn b) segja: sjá! Júdamenn eru eins og allar aðrar þjóðir eru c):9þar fyrir, sjá! eg greiði Austurvegsmönnum veg inn í Móabsland, þeim megin sem borgirnar eru, þær ystu borgir, sem eru prýði landsins, svo sem Bet-Jesímót, Baal-Meón, og allt til Kirjatajim.10Eins og eg gef þeim land Ammoníta til eignar, til þess að Ammoníta skuli ei framar minnst verða meðal þjóðanna:11eins mun eg og láta refsidóminn ganga yfir Móabsmanna, svo þeir viðurkenni, að eg em Drottinn.
12Svo segir Drottinn alvaldur: af því Edomsmenn breyta við Júdamenn af hefndargirni, og misgjöra stórlega með því að hefna sín á þeim:13þar fyrir, svo segir Drottinn alvaldur, vil eg útrétta mína hönd í gegn Edomslandi, eyða þar mönnum og fénaði, og gjöra landið að auðn, frá Teman og til Dedans skulu þeir fyrir sverði falla;14eg vil láta mitt fólk Ísraelsmenn, framkvæma mína hefnd á Edomsmönnum: þeir skulu breyta við Edomsmenn eftir minni heiftarreiði, svo þeir skulu finna, að hefndin kemur frá mér, segir Drottinn alvaldur.
15Svo segir Drottinn alvaldur: fyrir það, að Filistar eru hefndargjarnir, og af ofdrambi halda fram hefndinni með ævarandi fjandskap, til eyðileggingar:16þar fyrir, svo segir Drottinn alvaldur, vil eg útrétta mína hönd móti Filistum, tortýna Kretum, og afmá þá sem eftir eru orðnir við hafsströndina;17eg skal koma stórum hefndum fram á þeim, og refsa þeim með grimmd, svo þeir skulu viðurkenna, að eg em Drottinn, þá eg læt mína hefnd koma fram á þeim.

V. 8. b. Edomsmenn. c. Þeirra Guð er ei máttugri en annarra þjóða guðir, fyrst þeim vegnar ei betur en öðrum.