Vegsemd hins síðara musteris. Haggaí sýnir, að fórnfæringar Gyðinga á því nýbyggða brennifórnaraltarið (Esd. 3,1–3) gátu ekki afsakað undandrátt þeirra með musteris bygginguna; útskýrir orð sín fyrir Serúbabel.

1Á tuttugasta og fyrsta degi hins sjöunda mánaðar talaði Drottinn þessi orð til Haggaí spámanns:2Tala þú þessum orðum til Serúbabels Sealtíelssonar, landshöfðingja Júdaríkis og til Jósúa Jósadakssonar, hins æðsta kennimanns, og til þess fólks, sem eftir er orðið:3Hvör er sá af yður eftir orðinn, er séð hefir þetta hús í sinni fyrri vegsemd? og hvörsu virðist yður það nú? er það ekki einskisvert í yðar augum hjá hinu?4Vert samt hughraustur, Serúbabel! segir Drottinn; vert öruggur, Jósúa Jósadaksson, hinn æðsti kennimaður! segir Drottinn; haldið áfram verkinu, því eg er með yður, segir Drottinn allsherjar,5samkvæmt þeim sáttmála, er eg gjörði við yður, þá þér fóruð út af Egyptalandi; minn andi skal vera meðal yðar, óttist eigi!6því svo segir Drottinn allsherjar: innan skamms vil eg enn eitt sinn hræra himin og jörð, sjóinn og þurrlendið;7já, eg vil hræra allar þjóðir, svo að gersemar allra þjóða skulu hingað koma, og eg vil gjöra þetta hús hið dýrðlegasta, segir Drottinn allsherjar;8mitt er silfrið, mitt er gullið, segir Drottinn allsherjar.9Dýrð þessa hins síðara hússins skal meiri vera, en hins fyrra var, segir Drottinn allsherjar; og á þessum stað vil eg frið gefa, segir Drottinn allsherjar.
10Á tuttugasta og fjórða degi hins níunda mánaðar, á öðru ári Daríí, talaði Drottinn þessum orðum til Haggaí spámanns:11Svo segir Drottinn allsherjar: legg fyrir kennimennina svolátandi lagaspurning:12„ef maður ber heilagt kjöt a) í kyrtilskauti sínu, og snertir síðan brauð, einhvörn rétt matar, vín, viðsmjör, eða nokkuð annað matarkyns með kyrtilskautinu, verður þetta þá heilagt af því? Kennimennirnir svöruðu og sögðu: nei.13Þá spurði Haggaí: ef nokkur, sem orðinn er óhreinn, af því hann hefir snortið lík, kemur við eitthvað af þessu, verður það þá óhreint? Kennimennirnir svöruðu og sögðu: já, það verður óhreint.14Þá svaraði Haggaí og sagði: eins er um þetta fólk og þenna lýð, í mínum augum, segir Drottinn; eins er um allt, sem þeir hafa tekið sér fyrir hendur að gjöra, og það sem þeir hafa fórnfært þar a), það er óhreint.15Og nú, rennið nú huga yðrum frá þessum degi og til undanfarins tíma, áður en steinn var lagður á stein ofan í musteri Drottins:16kæmi nokkur, áður en þetta varð, að kerfaskrúfi, sem gjöra skyldi tuttugu (skeppur korns), þá urðu þar tíu; kæmi hann að vínlagarkeri, og ætlaði að ausa fimmtíu (könnur víns) af víntröðinni, þá urðu þar eigi fleiri en tuttugu.17Eg senda yður þá plágu, að kornið sviðnaði og gulnaði, og allt yðar andvirki varð hagli lostið, og þó sneri sér enginn yðar til mín, segir Drottinn.18Rennið nú huga yðrum frá þessum degi og til undanfarins tíma, frá hinum tuttugasta og fjórða degi hins níunda mánaðar; rennið huga yðrum til þess tíma, sem liðið hefir frá þeim degi að musteri Drottins var grundvallað!19Eru enn þá frækorn í forðabúrunum? Hvörki vínviður né fíkjur, granatatré né viðsmjörsviður bera ávöxt! En upp frá þessum degi vil eg blessun gefa.
20Í annað sinn talaði Drottinn til Haggaí, hinn tuttugasta og fjórða dag sama mánaðar, og sagði:21Tala þú þessum orðum til Serúbabels, landshöfðingja í Júdaríki: Eg vil hræra himin og jörð,22eg vil umvelta veldisstólum konungsríkjanna, og í eyði leggja hin voldugu ríki þjóðanna; eg vil umbylta vögnum og þeim sem á þeim sitja: hestar og riddarar skulu niður falla, hvör fyrir annars sverði.23Á þeim degi, segir Drottinn allsherjar, vil eg taka þig, Serúbabel Sealtíelsson, minn þjón! og láta þig vera sem annan innsiglis hring, því eg hefi útvalið þig, segir Drottinn allsherjar.

V. 12. a. Heilagt kjöt, þ. e. fórnarkjöt sem helgaðist af altarinu.