Tjaldbúðin er upp sett og vígð.

1Drottinn mælti við Móses og sagði:2á fyrsta degi hins fyrsta mánaðar skaltu reisa samkundutjaldbúðina;3þar skaltu setja lögmálsörkina, og byrgja fyrir örkina með fortjaldinu.4Þú skalt flytja borðið inn, og hagræða því sem þar til heyrir; síðan skaltu færa þangað ljósahjálminn, og kveikja á lömpunum.5Þú skalt setja það gullna reykelsisaltari fyrir framan lögmálsörkina, og tjalda fyrir búðardyrnar.6Þú skalt setja brennifórnaraltarið fyrir framan samkundutjaldbúðardyrnar;7vatnskerið skaltu setja milli samkundutjaldsins og altarins, og láta vatn þar í.8Síðan skaltu reisa forgarðinn umhverfis, og tjalda fyrir forgarðsdyrnar.9Þá skaltu taka smurningarviðsmjörið, og smyrja búðina og allt innan búðar, og vígja hana með öllum hennar búnaði, og skal hún þá vera heilög.10Þú skalt smyrja brennifórnaraltarið og öll þess áhöld; þú skalt vígja altarið, og skal altarið þá vera alheilagt.11Þú skalt smyrja vatnskerið og stétt þess, og vígja það.12Þá skaltu leiða Aron og sonu hans að samkundutjaldsdyrunum, og þvo þá úr vatni,13færa Aron í vígsluklæðin, smyrja og vígja hann, og skal hann þá vera minn kennimaður.14Þú skalt og leiða fram sonu hans, og færa þá í serkina,15og smyrja þá, eins og þú smurðir föður þeirra, og skulu þeir þá vera mínir kennimenn; og skal smurningin ávallt afreka þeim og þeirra eftirkomendum hið kennimannlega embætti.
16Móses gjörði í öllum greinum eftir því sem Drottinn hafði boðið honum.17Búðin var reist á öðru árinu þann fyrsta dag hins fyrsta mánaðar:18reisti Móses búðina, lagði pallana, sló upp þiljunum, setti í ásana og reisti upp súlurnar;19hann spennti tjaldvoðina yfir búðina, og lagði tjaldþökin þar ofan yfir, eins og Drottinn hafði boðið honum.20Hann tók lögin, og lagði þau í örkina, setti ásana í örkina, og lét arkarlokið yfir örkina;21hann flutti örkina inn í búðina, setti upp fortjaldsvoðina og byrgði fyrir lögmálsörkina, eins og Drottinn hafði boðið honum.22Hann setti borðið inn í samkundutjaldið við norðurhlið búðarinnar fyrir framan fortjaldið,23og raðaði þar á brauðunum frammi fyrir Drottni, eins og Drottinn hafði boðið honum.24Hann setti upp ljósahjálminn í samkundutjaldinu gegnt borðinu við suðurhlið búðarinnar,25og kveikti á lömpunum frammi fyrir Drottni, eins og Drottinn hafði boðið honum.26Hann setti upp gullaltarið inni í samkundutjaldinu gagnvart fortjaldinu,27og tendraði ilmreykelsi á því, eins og Drottinn hafði boðið honum.28Síðan lét hann dyratjaldið fyrir búðardyrnar,29og setti brennifórnaraltarið við samkundutjaldbúðardyrnar, og fórnaði þar á brennifórn og matarfórn, eins og Drottinn hafði boðið honum.30Hann setti vatnskerið milli samkundutjaldsins og altarisins, og lét þar í vatn til að þvo sér úr;31og þvoðu þeir Móses, Aron og synir hans úr því hendur sínar og fætur,32þá þeir gengu inn í samkundutjaldið; og þegar þeir nálægðu sig altarinu, skyldu þeir og þvo sér, eftir því sem Drottinn hafði boðið Móses.33Síðan reisti hann forgarðinn umhverfis um búðina og altarið, og lét dyratjaldið fyrir forgarðshliðið, og hafði Móses þá lokið þessu starfi.34Þá huldi skýið samkundutjaldið, og dýrðin Drottins fyllti búðina;35og gat Móses ekki gengið inn í samkundutjaldið, því skýið lá yfir tjaldinu og dýrðin Drottins fyllti búðina.36En er skýið hófst upp frá búðinni, þá lögðu Ísraelsmenn upp ávallt meðan þeir voru á ferðalagi sínu;37en þegar skýið hófst ekki upp, lögðu Ísraelsmenn ekki af stað, fyrr en þann dag að skýið hóf sig upp:38því ský Drottins var yfir búðinni um daga, en um nætur skein það sem eldur í augsýn allra Ísraelsmanna, ávallt meðan þeir voru á ferðalagi sínu.