Um straff fyrir ýmsar syndir. Fyrirheit um eign Kanaanslands, ef Gyðingar halda Guðs boð.

1Ennframar talaði Drottinn við Móses þannig:2Tala þú þetta til Ísraelsbarna: Hvör maður, sem það er af Ísraelsbörnum, eða útlendur, er býr í Ísrael, er fórnfærir Mólok afkvæmi sínu, hann skal dauða deyja, fólkið í landinu skal lemja hann grjóti;3eg vil snúa mínu andliti gegn þvílíkum manni og uppræta hann frá sínu fólki, fyrir það að hann hefir gefið Mólok sitt afkvæmi, til þess að hann saurgaði minn helgidóm og vanhelgaði mitt heilaga nafn.4En ef fólk landsins sér í gegnum fingur við þvílíkan mann, sem gefur Mólok afkvæmi sitt og vill ekki slá hann í hel,5þá vil eg setja mitt andlit gegn þvílíkum manni og gegn hans ætt og eg mun uppræta hann frá hans fólki og alla þá, sem hafa, eftir hans dæmi, elt Mólok með hórlegum hætti.
6Ef nokkur maður snýr sér til þeirra sem leita frétta af dauðum eða spásagnarmanna, og elta þá til að flekast af þeim, þá vil eg setja mitt andlit gegn þvílíkum og uppræta hann frá sínu fólki.7Þér skuluð helga yður og vera heilagir, því eg er Drottinn yðar Guð.8Varðveitið mína setninga og hlýðið þeim, því að eg er Drottinn, yðar Guð.
9Sannlega ef nokkur er sá, sem bölvar föður sínum eða móður, hann skal dauða deyja. Föður sínum eða móður sinni hefir hann bölvað; hans blóð sé yfir honum!
10Hvör sem drýgir hór með annars manns ektakvinnu, fyrir það, að hann hóraðist með ektakvinnu náunga síns, skal hann dauða deyja, bæði hórkarlinn og hórkonan.11Hvör sá maður, sem leggst með ektakvinnu föður síns, hefir berað blygðan föður síns; bæði skulu þau dauða deyja, blóð þeirra sé yfir þeim!12Sé nokkur sá, sem leggst með sonarkonu sinni; svívirðing hafa þau drýgt, þeirra blóð sé yfir þeim!13Leggist nokkur hjá karlmanni, sem kona væri, drýgja þeir báðir viðurstyggð, þeir skulu dauða deyja, blóð þeirra sé yfir þeim!14Taki nokkur konu og móður hennar líka, það er blóðskömm; menn skulu brenna hann í eldi ásamt með þeim, svo að þvílíkur glæpur viðgangist eigi meðal yðar.15Sá maður sem samlagar sig fénaði skal dauða deyja, og gripinn skulu menn drepa;16og ef kona nálægir sig skepnu til að samlaga sig henni, þá skaltu drepa bæði konuna og gripinn, þau skulu dauða deyja, blóð þeirra sé yfir þeim!17Hvör sem tekur sína systur, dóttur föður síns eða móður sinnar og sér hennar blygðan eða hún hans; það er svívirðing, þau skulu upprætast fyrir síns fólks augsýn, því hann beraði blygðan systur sinnar, og úttaka straff fyrir sinn misgjörning.18Hvör sá maður sem leggst með konu á meðan hún hefir sínar tíðir, og berar hennar blygðan, berar hennar blóðlátsbrunn, þau skulu bæði upprætast úr tölu síns fólks.19Ekki skaltu bera blygðan móðursystur þinnar né föðursystur, því ef nokkur berar svo náskylda skulu þau bera sína misgjörð.20Sá sem leggst með konu föðurbróður síns, hann berar blygðan síns föðurbróðurs, og skulu þau úttaka þeirra syndastraff; þau skulu deyja barnlaus.21Hvör sem tekur konu bróður síns, það er skemmdarverk, hann berar blygðan bróður síns; þau skulu vera barnlaus.
22Varðveitið alla mína setninga og hlýðið öllum mínum boðorðum, svo að landið, í hvört eg vil innleiða yður til að búa í, ekki skyrpi yður frá sér;23en það segi eg yður að þér megið ekki breyta eftir viðtektum þeirra þjóða er eg mun reka út frá yður, því þær drýgðu þetta allt, hvörs vegna mér býður við þeim;24þar fyrir sagða eg yður: þér skuluð eignast þeirra land, og að eg vil gefa yður það til erfða, land það sem flýtur af mjólk og hunangi. Eg er Drottinn, yðar Guð, sem hefi skilið yður frá öðrum þjóðum.25En gjörið og greinarmun á fénaði, sem er hreinn og óhreinn, og fuglum sem eru hreinir og óhreinir og saurgið yður ekki á fénaði né fuglum, né nokkru því sem skríður á jörðunni, sem eg aðgreindi fyrir yður sem óhreint.26Þér skuluð vera heilagir fyrir mér, því eg Drottinn er heilagur, og eg hefi aðskilið yður frá öðrum þjóðum, til þess að þér skuluð vera mínir.27En ef maður eða kona skyldu vera á meðal þeirra, er særir dauða eða er táknaútleggjari, þá skulu þau dauða deyja; menn skulu lemja þau grjóti, þeirra blóð skal vera yfir þeim!

V. 5. Ammónítar brenndu afkvæmi sín lifandi Mólok afguði sínum til þóknunar. Sjá 1 Kgb. 11,7. 2 Kgb. 23,10. Jerem. 32,35. V. 9. Hans blóð sé yfir honum, þ. e. hann er dauða sekur. V. 15. Dauða deyja: oftast nær vera dræpur. 2 Mós. 21,12.15. f. V. 21. Að deyja barnlaus: Var á G. t. tímum álitið þungt mótlæti. 1 Mós. 15,2.3. 30,22.23. 1 Sam. 1,20.27. Þess vegna buðu Mósislög (5 Mós. 25,5–10. Matt. 22,24–26) að bróðir skuli taka ekkju bróður síns til ekta. Hér hlýtur þess vegna að vera meint óleyfileg umgengni utan hjónabands við ekkju bróður síns, því ef það skeði á meðan hann lifði var það dauðasök.