Fyrst sama efni, og svo lofgjörð Drottins fyrir hans vísdómsfulla lögmál.

1Almáttugi Drottinn, Ísraels Guð! angurvært sinni og áhyggjufullur andi kallar til þín.2Heyr Drottinn, og miskunna; því vér höfum syndgað móti þér.3Þú ríkir að eilífu; en vér fyrirförumst að eilífu.4Almáttugi Drottinn, Ísraels Guð! heyr þó bæn þess deyjandi Ísraels og hans sona, sem móti þér hafa syndgað, sem ekki hlýddu raust þeirra Guðs, hvörs vegna ógæfan hitti oss!5minnstu ekki misgjörða vorra feðra, heldur minnstu, á þessum tíma, þinnar handar og þíns nafns.6Því þú ert Drottinn vor Guð, og vér viljum, Drottinn, lofa þig!7Því þess vegna hefir þú lagt þinn ótta í vor hjörtu, að vér áköllum þitt nafn, og vér viljum þig vegsama í vorri hertekningu. Því vér höfum útrýmt úr vorum hjörtum misgjörðum vorra feðra, sem móti þér syndguðu.8Sjá, vér erum í dag í vorri útlegð, hvört þú hefir hrakið oss til smánar, til bölvunar og til sektar fyrir allar misgjörðir vorra feðra, sem brugðu hollustu við Drottin, þeirra Guð.
9Heyr, Ísrael, lífsins boðorð, takið eftir svo þér lærið hyggindi!10Hvörnig stendur á því, Ísrael, að þú ert í óvina landi,11að þú eldist í framandi landi, ert saurgaður af dauðum, ert talinn með þeim í undirheimum?12Þú yfirgafst spekinnar uppsprettu.13Hefðir þú gengið á Guðs vegum, svo byggir þú til eilífðar í friði.14Lær þú (að þekkja) hvar hyggindi eru, hvar kraftur er, hvar speki er, svo þú líka þekkir, hvar langlífi, hvar gæfa, hvar ljós fyrir augum og friður er.
15Hvör hefir fundið hennar (spekinnar) bústað, og hvör hefir komist að hennar fjársjóðum?16Hvar eru höfðingjar þjóðanna og drottnendur yfir dýrum jarðarinnar,17sem léku við fugla himinsins og söfnuðu silfri og gulli, sem menn treysta, og enginn endi var þeirra aðdrátta,18sem smíðuðu silfur og höfðu áhyggjur, og hvörra verk voru ómælanleg?19þeir eru horfnir og sokknir niður til undirheima, og aðrir eru komnir í þeirra stað.20Þeir yngri sáu ljósið og bjuggu á jörðunni; en veginn til spekinnar vissu þeir ekki,21og götu hennar þekktu þeir ekki. Þeirra synir hafa enn hraparlegar villst.22Menn heyra ekkert um hana í Kanaan; menn sjá hana ekki í Teman.23Hagarssynir grennsluðust eftir jarðneskum hyggindum og kaupmennirnir frá Meran og Teman og dæmisögu skáldin og skilningseftirleitendur; en spekinnar veg þekktu þeir ekki og eftir hennar götu tóku þeir ekki.
24Ó Ísrael, hvörsu mikið er Guðs hús, og hvörsu rúmlegir staðir hans eignar!25já mikið, og hefir engan enda, hátt og ómælanlegt!
26Þar a) voru risar, þeir nafnfrægu, frá upphafi miklir orðnir, og þeir kunnu til stríðs.27Ekki valdi Guð þessa, né opinberaði þeim spekinnar veg.28Þeir fórust, af því þeir höfðu engin hyggindi, fórust af sinni heimsku.
29Hvör hefir til himna uppstígið og sótt hana (spekina) og flutt niður úr skýjunum?30Hvör hefir farið yfir hafið og fundið hana, svo hann gæti komið með hana, fyrir einvala gull?31Enginn þekkir hennar veg, enginn tekur eftir hennar götu.32En sá sem allt veit, þekkir hana, hefir fundið hana með sínu viti. Sá, sem jörðina skóp til eilífðar og fyllti hana ferfættum dýrum;33sá sem sendir ljósið, að það fari; sem kallar það, og það hlýðir honum skjálfandi.34Stjörnurnar lýsa þar, sem þær halda vörð, og eru glaðar; hann kallar þær, og þær segja:35„Hér erum vér.“ Þær lýsa glaðlega sínum skapara.36Þessi er vor Guð, og engum öðrum er við hann að líkja.37Hann hefir fundið allan veg viskunnar, og gefið hana Jakob, sínum þénara, og Ísrael, sínum elskulega.38Síðan hefir hún byrst á jörðu, og verið á ferð meðal mannanna:

V. 26. a. Þar, þ. e. í Kanaanslandi.