Hegning hinna þverbrotnu Gyðinga og skurðgoða dýrkennda. Samansöfnun Gyðingalýðs.

1Svo segir Drottinn: Himinninn er mitt hásæti, og jörðin mín fótskör. Hvaða hús er það þá, er þér viljið byggja mér? og hvör er sá staður, sem verið geti minn aðsetursstaður?2Mín hönd gjörði allt þetta, og þannig er það allt til orðið, segir Drottinn. En eg vil renna augum mínum annað, til hins volaða, til þess, sem hefir sorgfullt hjarta, til þess, sem óttast mín orð.3Sá sem slátrar, og hinn sem vegur mann: sá sem fórnfærir sauð, og hinn sem banar hundi: sá sem færir matfórn, og hinn sem framber svínablóð: sá sem brennir reykelsi, og hinn sem tilbiður goðalíkneski: þessir útvelja, hvör um sig, það sem er eftir eigin hugþótta þeirra, og láta sér vel líka, það sem er viðurstyggilegt.4Eg vil þá og einnig útvelja það, sem gjörir þeirra hlut að verra, og láta yfir þá koma það, sem þeir hræðast, fyrst engi þeirra gegndi, þá eg kallaði, og enginn heyrði, þá eg talaði, heldur aðhöfðust það, sem mér mislíkaði, og útvöldu það, sem mér þóknaðist ekki.5Heyrið orð Drottins, þér sem óttist hans orð! Bræður yðar, sem hata yður, og vilja ekkert samneyti við yður hafa fyrir míns nafns sakir, þeir segja: „gjöri Drottinn sig dýrðlegan, svo vér megum sjá yðar fögnuð“; en þeir skulu verða til smánar.
6Einhvör gnýr heyrist frá borginni, einhvör raust frá musterinu; það er raust Drottins, sem geldur óvinum sínum það, sem þeir hafa til unnið.7Hún (Síonsborg) fæðir, áður en hún kennir sín; hún er orðin léttari að sveinbarni, áður en jóðsóttin kemur að henni.8Hvör hefir heyrt slíkt? Hvör hefir séð dæmi til slíks? Getur nokkurt land fæðst á einum degi, eða nokkur þjóð komið til allt í einu? Og þó skuli Síonsborg hafa fætt börn sín, áður en hún kenndi sóttar!—9Skylda eg, sem læt fæðingarstaðinn opnast, ekki geta látið fóstrið fæðast? segir Drottinn. Eg, sem læt lífsávöxtinn fæðast, skylda eg sjálfur vera ávaxtarlaus? segir þinn Guð.10Gleðjið yður ásamt með Jerúsalemsborg, fagnið yfir henni, allir þér, sem hafið hana kæra! Verið glaðir ásamt með henni, allir þér, sem voruð hryggvir yfir henni.11Því þér skuluð sjúga, og saddir verða af hennar endurnærandi brjóstum; þér skuluð teyga, og gæða yður með hennar ríkdómsgnótt.12Því svo segir Drottinn: Sjá, eg veiti velsældinni til hennar, eins og vatnsstraumi, og ríkdómi heiðingjanna, eins og bakkafullum læk; þér skuluð liggja á brjóstum hennar, og hún skal bera yður, og hafa barnagælur við yður á knjám sér.13Eins og móðirin huggar barn sitt, eins skal eg yður hugga; í Jerúsalemsborg skuluð þér huggaðir verða.14Þér munuð sjá það, og yðvart hjarta mun fagna, og yðar bein blómgast, sem gras; því hönd Drottins mun auðkennd verða á þjónum hans, og hans reiði á óvinum hans.15Því, sjáið, Drottinn kemur í eldi—hans vagn er sem vindbylur—til að gjalda reiði sína með heift, og hótan sína með eldslogum.16Því með eldi og með sínu sverði mun Drottinn allt hold dæma, og þá mun stór verða sá valköstur, er Drottinn fellir.17Þeir sem helga sig og hreinsa innst í eikargörðunum, einn hér og annar þar; þeir sem eta svínakjöt, óhrein dýr og músarhéra, skulu allir undir lok líða, segir Drottinn.18Eg þekki yðar athafnir og hugsanir. Sá tími kemur, að eg mun samansafna öllum þjóðum, hvörrar tungu sem eru; þær skulu koma og sjá mína dýrð.19Eg vil setja teikn á nokkura þeirra, og þá af þeim, sem undan hafa komist (hegningunni), vil eg senda til heiðingjanna í Tarsisborg, til Fúllands, Lúdlands, Bogmannalands, Tíberanalands, Jónalands (Grikklands), og til fjarlægra landsálfa, sem ekki hafa neina fregn af mér, og ekki séð mína dýrð; og þeir skulu kunngjöra mína dýrð meðal heiðingjanna.20Allir bræður yðar skulu fluttir verða úr öllum heiðnum löndum, Drottni til fórna; á hestum, kerrum, vögnum, á múlum og úlföldum, til míns heilaga fjalls, til Jerúsalemsborgar, segir Drottinn; eins og þá Ísraelsfólk færir matarfórn í hreinum kerum til Drottins húss.21Af þeim vil eg einnig taka kennimenn og Levíta, segir Drottinn.22Því eins og hinn nýi himinn og hin nýja jörð, sem eg skapa, standa fyrir mínu augliti, segir Drottinn, eins skal yðar afsprengi og nafn standa.23Og frá einni tunglkomu til annarrar, frá einum hvíldardegi til annars, skulu allir menn koma, til að tilbiðja fyrir mínu augliti, segir Drottinn.24Og þeir skulu útganga (úr borginni), og sjá hræ þeirra manna, sem fallið hafa frá mér; því þeirra ormur skal ekki deyja, og þeirra eldur ekki útslokkna, og þau skulu vera hvörjum manni viðurstyggileg.

V. 7. Borginni er hér líkt við móður, en meiningin er: Eg mun viðrétta hag borgarinnar og alls Gyðingalýðs, áður en nokkurn mann varir.