Drottinn sannar enn guðdóm sinn með því að hann muni sameina heiðingja og Gyðing, afmálun skurðgoðadýrkunarinnar; frelsun Gyðinga úr herleiðingunni.

1Heyr þó, minn þjón, þú afspringur Jakobs, og þú Ísraelslýður, er eg útvaldi.2Svo segir Drottinn, sá er þig hefir gjört og myndað, og hjálpað þér allt í frá móðurkviði: óttast þú eigi, minn þjón, afsprengi Jakobs, þú afspringur Ísraels, hvörn eg útvaldi!3Því eg vil vatni ausa yfir hið þyrsta landið, og árstraumum yfir þurrlendið; eg vil úthella mínum anda yfir afsprengi þitt, og minni blessan yfir þína afkomendur,4svo þeir skulu vaxa, eins og gras á engi, og sem víðir hjá vatnslækjum.5Einn mun segja: „eg tilheyri Drottni;“ annar mun kenna sig við Jakob; þessi mun rita inni í hönd sína, „helgaður Drottni“, og nefna sig eftir Ísrael.6Svo segir Drottinn, konungur og frelsari Ísraelslýðs, Drottinn allsherjar: eg em hinn fyrsti, og eg em hinn síðasti, og fyrir utan mig er enginn Guð til.7Hvör er sem eg, að hann ákvarði, kunngjöri og ráðstofni það (hið ókomna), eins og eg hefi gjört, allt í frá því er eg hóf þessa hina örgömlu þjóð? Kunngjöri þau (skurðgoðin) eins sínum dýrkenndum hið ókomna, og það sem hér eftir mun verða!8Óttist því eigi, og skelfist eigi! Lét eg þig ekki heyra það, og kunngjörða eg það ekki löngu áður? Þér eruð mínir vottar; er nokkur Guð til, nema eg? Nei, ekkert annað hellubjarg er til, eg veit af öngvu öðru.
9Allir þeir, sem tilbúa goðalíkneskjur, eru hégómi, og þeirra kostulegu verk eru til engrar nytsemdar; þeir geta ekki rekið sig úr vitni um það, að þær sjá ekkert og skynja ekkert, og því hljóta þeir að fyrirverða sig.10Hvör mundi geta tilbúið Guð, með því að steypa það líkneski, sem til einskis er nýtt?11Sjá, allir sem þar eiga hlut að, verða að blygðast sín. Smiðirnir sjálfir, þeir eru þó ekki nema menn. Lát þá alla koma saman: þeir hljóta þó að standa smeykir og fyrirverða sig, hvör með öðrum.12Járnsmiðurinn meitlar járnið í sundur, eldar það við glóðina, og lagar það með hamrinum: hann vinnur járnið með sínum sterka armlegg: hann sveltur svo að hann vanmegnast: hann drekkur ekki vatn, svo hann verður móður.13Trésmiðurinn leggur mæliþráðinn á tréð, markar það með rauðsteini, heflar og sirklar það: síðan lagar hann það eftir einhvörri mannsmynd, og býr til úr því fagran mann, til þess hann búi í (goða)húsinu.14Hann höggur sér sedrustré, harðan við og eik, og velur um meðal skógartrjánna, eða hann gróðursetur arantré, sem sprettur upp í regnskúrunum.15Af þessum trjám, sem menn hafa til eldiviðar, tekur hann nokkuð til að verma sig við, hann kveikir eld við þau og bakar brauð; en af þessum hinum sömu trjám gjörir hann goð, og tilbiður það, hann býr til líkneski af þeim, og fellur fram fyrir trjánum.16Helming trjánna brennir hann í eldi, við hinn helminginn sýður hann kjöt, sem hann etur, steikir steik, og etur sig saddan; og þegar hann er orðinn heitur, segir hann: „nú þykir mér vænt, mér er heitt, og hefi ljósið til að horfa í!“17Úr því, sem þá er eftir, gjörir hann goðalíkneski handa sér, knékrýpur því, fellur fram, tilbiður það, og segir: „frelsa mig, því þú ert minn guð!“18Þeir hafa hvörki skyn né skilning; augu þeirra eru afturlukt, svo þeir sjá ekki, og hjörtu þeirra, svo þau skynja ekki.19Manninum dettur ekki í hug, hann hefir ekki vitsmuni eða skilning til að hugsa með sér: „helming þessa trés brennda eg í eldi, bakaði brauð við glæður þess, steikti kjöt og át; skylda eg þá búa til viðurstyggilegt goð af því, sem afgangs er, og knéfalla fyrir trédrumbi?“20Hann hleypur eftir hégómanum, hans táldregna hjarta leiðir hann afvega, svo hann fær ekki sálu sinni borgið, og hann spyr því ekki sjálfan sig: „eru það ekki svik, sem eg hefi handa milli?“
21Hugleið þetta, þú Jakobsætt og Ísraelslýður, því þú ert minn þjón, eg hefi tilbúið þig; þú, Ísraelslýður, ert minn þjón, gleym þú mér eigi!22Eg lét þínar misgjörðir burtu hverfa, sem þoku, og þínar syndir, sem ský; snú þér til mín, því eg em þinn frelsari.23Lofsyngið, þér himnar, því Drottinn er máttugur; kallið hátt, þér undirheimar; hefjið fagnaðar söng, þér fjöll, skógar og öll skógartré, því Drottinn endurleysir Jakobsniðja, og gjörir sig dásamlegan meðal Ísraelsmanna.24Svo segir Drottinn, þinn endurlausnari, sá er þig hefir tilbúið í frá móðurkviði: Eg em Drottinn, sá er skóp alla hluti, eg útþanda himininn aleinn, og útbreiddi jörðina af eigin mætti mínum.25Eg ónýti tákn svikaranna, og gjöri lygispámennina að fíflum; eg vísa vitringunum aftur, og gjöri visku þeirra að heimsku.26Eg staðfesti orð þjóna minna, og framkvæmi atkvæði minna sendiboða; eg em sá, er segi um Jerúsalemsborg: „hún skal verða uppbyggð“, og til Júdaríkisborga: „þér skuluð verða uppbyggðar“; og eg reisi af nýju þá ena niðurbrotnu staði.27Eg segi til djúpsins: „þverra þú, eg vil láta þína strauma uppþorna“.28Eg segi Sýrusi að vera minn hirðir, hann skal framkvæma allan minn vilja, og segja til Jerúsalemsborgar: „þú skalt uppbyggð verða“, og til musterisins: „þú skalt verða grundvallað“.