Davíðs ellilasleiki. Adonía gjörir sig að kóngi. Davíð lætur smyrja Salómon til konungs.

1En Davíð konungur var orðinn gamall, hniginn að aldri, og þó hann væri þakinn fötum, gat honum ekki hitnað.2Þá sögðu hans þjónar við hann: menn leiti mínum herra konunginum að stúlku, mey einhvörri, að hún sé hjá kónginum og veiti honum aðhjúkrun og sofi í hans faðmi (örmum), svo að mínum herra konunginum hitni.3Og menn leituðu að fríðri stúlku í öllu Ísraels landi, og fundu Abísag frá Sunem a), og fóru með hana til konungs.4En stúlkan var harla fríð og tók að sér að hjúkra kónginum og þjónaði honum. En kóngur kenndi hennar ekki b).
5Og Adonía, Hagitsson c), tók sig til og mælti: eg vil verða kóngur! og hann útvegaði sér vagna og riddara, og 50 menn sem fyrir honum runnu d).6Og faðir hans hafði aldrei á ævi sinni hryggt hann, ekki svo mikið hann hefði sagt: því gjörir þú þetta? hann var líka mikið fríður sýnum og móðir hans hafði fætt hann næst eftir Absalon.7Og hann kom að máli við Jóab, Serujason, og prestinn Abíatar, og þeir hjálpuðu Adonía.8En presturinn Sadok og Benaja sonur Jójada, og spámaðurinn Natan, og Simei og Rei og Davíðs kappar voru ekki með Adonia.9Og Adonia slátraði sauðum og nautum, og alikálfum hjá steininum Sohelet, sem er hjá brunninum Rógel, og bauð öllum sínum bræðrum, kóngssonunum, og öllum Júdamönnum, þénurum kóngsins.10En Natan spámanni og Benaja, og köppunum og bróður sínum Salómon, bauð hann ekki.
11Þá talaði Natan við Batseba móður Salómons, og mælti: hefir þú ekki heyrt að Adonia Hagitsson er orðinn kóngur? Og Davíð vor herra veit það ekki.12Og kom þú nú, eg skal kenna þér ráð, að þú bjargir þinni sál, og sálu Salómons sonar þíns.13Far þú nú og gakk inn til Davíðs kóngs, og segðu við hann: hefir þú ekki, minn herra konungur, svarið þinni ambátt og sagt: Salómon sonur þinn skal verða konungur eftir mig, og hann skal sitja í mínu hásæti? og hvörnig er þá Adonía orðinn konungur?14Og sjá! meðan þú ert að tala um þetta við kónginn, svo skal eg koma og enda þitt tal á eftir þig.15Svo gekk Batseba til kóngsins inn í herbergin; en konungurinn var mikið gamall, og Abísag af Sunem þjónaði kónginum.16Og Batseba hneigði sig og laut kónginum og konungur mælti: hvað er þitt erindi a)?17Og hún sagði við hann: þú hefir, herra minn, svarið þinni ambátt við Drottin þinn Guð: Salómon sonur þinn skal verða kóngur eftir mig, og hann skal sitja í mínu hásæti;18og sjá! nú er Adonía orðinn kóngur og minn herra konungur, þú veist það ekki!19Hann hefir slátrað fjölda af nautum, alikálfum og sauðum og boðið öllum kóngssonunum, prestinum Abíatar og hershöfðingjanum Jóab. En Salómoni, þínum þénara, bauð hann ekki.20Og allur Ísrael horfir sínum augum til þín, minn herra konungur! að þú látir menn vita, hvör sitja skuli í hásæti míns herra konungsins eftir hann.21Og það mun fara svo, þegar minn herra konungur er lagstur hjá sínum feðrum, að eg og sonur minn Salómon, við munum gjalda (líða).
22Og sjá! meðan hún enn var að tala við kónginn kom spámaðurinn Natan.23Og menn sögðu kóngi frá og mæltu: sjá! Natan spámaður er hér; og hann gekk inn fyrir konunginn og beygði sitt andlit til jarðar fyrir konunginum.24Og Natan mælti: minn herra konungur! þú hefir líklega sagt: Adonía skal vera konungur eftir mig, og hann skal sitja í mínu hásæti?25Því er hann héðan farinn í dag, og hefir slátrað fjölda af nautum, alikálfum og sauðum, og boðið öllum kóngsins sonum og herforingjunum og prestinum Abíatar; og sjá! þeir eta og drekka með honum, og segja: konungur Adonía lifi!26En mér þínum þjón og prestinum Sadok og Benaja syni Jójada, og Salómoni þínum þénara hefir hann ekki boðið.27Nú er spursmál hvört þetta er skeð að tilhlutan míns herra konungsins, því þú hefir ekki kunngjört þínum þjónum, hvör sitja skuli í hásæti míns herra konungsins eftir hann.
28Þá svaraði Davíð konungur og mælti: kallið á Batseba, og hún kom inn fyrir konunginn og gekk fyrir konunginn.29Og kóngurinn sór og mælti: svo sannarlega sem Drottinn lifir, sem hefir frelsað mína sál úr öllum þrautum!30Eins og eg hefi svarið þér við Drottin Ísraels Guð og sagt: Salómon þinn son skal kóngur vera eftir mig, og hann skal sitja í mínu hásæti í minn stað, svo vil eg gjöra á þessum degi.31Þá hneigði Batseba sitt andlit til jarðar, og laut konunginum og mælti: minn herra konungurinn lifi eilíflega!32Og konungurinn Davíð mælti: kallið fyrir mig á prestinn Sadok, spámanninn Natan og Benaja son Jojada! og þeir komu inn fyrir konunginn.33Og konungur sagði við þá: takið með yður þjóna yðvars herra, og setjið Salómon minn son á minn múlasna og farið með hann til Gíhon.34Þar smyrji presturinn Sadok og spámaðurinn Natan hann til kóngs yfir Ísrael, og blásið í básúnuna og segið: konungur Salómon lifi!35Komið svo með honum hingað, og hann komi og setjist í mitt hásæti, og hann skal vera konungur í minn stað, og hann set eg höfðingja yfir Ísrael og Júda.36Þá svaraði Benaja sonur Jojada konunginum og mælti: veri það svo! það segi Drottinn, Guð míns herra konungsins Davíðs!37Eins og Drottinn var með mínum herra konunginum, svo sé hann með Salómoni, og lyfti hans hásæti upp yfir míns herra, konungsins Davíðs!
38Síðan fóru þeir presturinn Sadok, spámaðurinn Natan og Benaja sonur Jójada og hirðin og settu Salómon upp á Davíðs kóngs múlasna, og fóru með hann til Gíhon.39Og presturinn Sadok tók viðsmjörshornið úr tjaldbúðinni, og smurði Salómon, og þeir blésu í básúnuna, og allt fólkið sagði: konungur Salómon lifi!40Og allt fólkið fór með honum, og lék á hljóðfæri, og þeir voru hressir með miklum fögnuði, svo að jörðin skalf af þeirra háreysti.
41Og Adonía heyrði það, og allir þeir sem hann hafði í boði sínu, (en þeir höfðu þá lokið máltíð). Og Jóab heyrði hljóm básúnunnar, og mælti: hvörju gegnir þetta hróp og háreysti í borginni?42En sem hann var enn um þetta að tala, sjá! þá kom Jónatan sonur Abíatars prests; og Adonía mælti: vertu velkominn! þú ert vænn maður og munt koma með góð tíðindi.43En Jónatan svaraði og mælti við Adonía: nei, það er öðru nær! vor herra konungurinn Davíð hefir gjört Salómon að kóngi.44Og konungurinn hefir sent með honum prestinn Sadok, spámanninn Natan og Benaja son Jojada, og hirðina, og þeir hafa sett hann upp á kóngsins múlasna.45Og þeir, presturinn Sadok og spámaðurinn Natan haf smurt hann til kóngs í Gíhon, og eru þaðan farnir með fögnuði, og staðurinn er allur uppvægur. Það er nú sá hávaði sem þér hafið heyrt.46Líka hefir Salómon sest í kóngs hásætið.47Sömuleiðis hafa þénarar konungsins gengið til að óska til lukku vorum herra Davíð konungi og hafa sagt: þinn Guð gjöri nafn Salómons stærra enn þitt nafn, og hefji hans hásæti yfir þitt hásæti, og kóngurinn hefir beðist fyrir í sæng sinni.48Konungurinn hefir og sagt þetta: lofaður veri Drottinn Ísraels Guð sem nú í dag lét einn setjast í mitt hásæti, að mín augu sæju það!49Þá skelfdust og stóðu upp allir sem höfðu verið í heimboði Adonía, og hvör fór sína leið.50En Adonía hræddist Salómon, tók sig til og gekk burt og greip um altarishornin.51Það var sagt Salómoni með þessum orðum: sjá! Adonía er hræddur við Salómon, og sjá! hann hefir tekið um altarishornin, og segir: Salómon konungur sverji mér í dag, að hann skuli ekki deyða sinn þjón með sverði.52Þá mælti Salómon: verði hann vænn maður, skal ekki eitt af hans hárum falla á jörðina; en verði hann fundinn að illu, svo kostar það hans líf.53Svo sendi Salómon konungur, og þeir tóku hann frá altarinu; og hann kom og laut konungi Salómon. Og Salómon sagði til hans: far þú heim í þitt hús.

V. 3. a. Kap. 2,17. V. 4. b. Gen. 4,1. V. 5. c. 2 Sam. 3,4. d. 2 Sam. 15,1. V. 16. a. 2 Sam. 14,5. V. 19. Sbr. v. 9.10.