Amos lýsir Guðs hegningu yfir Dammaskusborg, Filistum, Týrusborg, Edomsmönnum og Ammonsmönnum.

1Þessir eru spádómar þeir, er Amos, fjárhirðir frá Tekóa, spáði um Ísraelsríki á dögum Usíass, konungs í Júdaríki, og á dögum Jeróbóams Jóassonar, konungs í Ísraelsríki, tveimur árum fyrir jarðskjálftann (Sak. 14, 5).2Hann sagði: Drottinn mun kalla með ljónsröddu af Síonsfjalli, og hefja upp sína (þrumu)raust frá Jerúsalemsborg; beitarlönd fjárhirðaranna skulu sýta, og toppurinn á Karmelsfjalli skulu uppskrælna.3Svo segir Drottinn: sökum þriggja synda Dammaskusborgar manna hefi eg ásett mér að hegna þeim, en sökum hinnar fjórðu skal eg ekki láta hegninguna undan ganga: því þeir drógu þreskivagna af járni yfir Gileaðsmenn.4Þess vegna skal eg skjóta eldi í hús Hasaels, og hann skal eyða höllum Benhadads.5Eg skal brjóta slagbranda Dammaskusborgar, eg skal eyða innbyggjendunum í Avensdal og þeim sem ber veldissprotann í Beteden, og Sýrlendingar skulu herleiddir verða til Kírlands, segir Drottinn.
6Svo segir Drottinn: sökum þriggja synda Gasaborgar manna hefi eg ásett mér að hegna þeim, en sökum hinnar fjórðu vil eg eigi láta hegninguna undanganga, fyrir það að þeir herleiddu friðsama þjóð, til þess að selja hana í hendur Edomsmönnum.7Þess vegna skal eg skjóta eldi í múrvegg Gasaborgar, og hann skal eyða hennar höllum;8eg skal eyða innbúum Asdodsborgar, og þeim sem ber veldissprotann í Askalonsborg; eg skal snúa hendi minni í gegn Ekronsborg, og þeir, sem eftir eru af Filistum, skulu undir lok líða, segir Drottinn alvaldur.
9Svo segir Drottinn: sökum þriggja synda Tyrusborgar manna hefi eg ásett mér að hegna þeim, en sökum hinnar fjórðu skal eg eigi láta hegninguna undanganga, af því þeir seldu friðsama menn, sem þeir höfðu hertekið, í hendur Edomsmönnum, án þess að muna til þess, að þeir höfðu gjört við þá vináttusáttmál.10Þess vegna skal eg eldi skjóta í múrvegg Týrusborgar, og hann skal eyða hennar höllum.
11Svo segir Drottinn: sökum þriggja synda Edomsmanna hefi eg ásett mér að hegna þeim, en sökum hinnar fjórðu skal eg ekki láta hegninguna undanganga, af því þeir ofsækja bræður sína með sverði án allrar meðaumkvunar, af því þeir sundurrífa æ og æ í reiði sinni, og geyma heift sína ævinlega.12Þess vegna skal eg skjóta eldi í Temansborg, og hann skal eyða höllum Bosraborgar.
13Svo segir Drottinn: sökum þriggja synda Ammonsmanna hefi eg ásett mér að hegna þeim, en sökum hinnar fjórðu skal eg ekki láta hegninguna undanganga, af því þeir kviðristu óléttar konur í Gíleað, til þess að færa út landamerki sín.14Þess vegna skal eg kveikja eld í múrvegg Rabbaborgar, og hann skal eyða hennar höllum, þegar herópið verður æpt á degi styrjaldarinnar, þegar stormurinn geisar á degi fellibyljanna;15og Malkom (Jer. 49,1.3. Seff. 1,5) skal úr landi herleiddur verða, og höfðingjar hans með honum, segir Drottinn.

V. 3. Sökum þriggja synda—sökum hinnar fjórðu (syndar), ákveðin tala í staðin fyrir óákveðna; meiningin er: af því borgarmennirnir hafa oftlega syndgað og ekki viljað af láta, þá vill Guð ekki lengur þola þeim slíkan syndsamlegan lifnað óhegndan.