Guðs velgjörningar við Ísraelsbörn eiga að hvetja þá til hlýðni við hans boð.

1Öll þau boðorð sem eg legg fyrir yður í dag, skuluð þér varðveita til eftirbreytni, svo þér verðið lánsamir og farsælir, og fáið til eignar landið sem Drottinn lofaði forfeðrum yðar með eiði.2Látið yður reka minni til allrar þeirrar leiðar, sem Drottinn þinn Guð leiddi þig yfir í þessi 40 ár í eyðimörkinni, svo að hann með nokkru mótlæti reyndi þig, til að þekkja þinn innri mann, hvört þú mundir halda hans boðorð eður ekki.
3Hann lét þig rata í hungursneyð, en þá fæddi hann þig á manna sem hvörki þú né þínir forfeður þekktu til, svo þú skyldir sjá að maðurinn lifir ekki einasta á brauði, heldur á hvörju öðru sem Drottinn leggur honum til;4klæði þín hafa ekki slitnað *), eður fætur þínir þrútnað í þessi 40 ár.
5Þú mættir því finna það hjá sjálfum þér, að eins og faðir fóstrar son sinn, eins hefir Drottinn þinn Guð fóstrað þig;6varðveittu þess vegna boðorð Drottins þíns Guðs, að þú gangir á hans vegum og óttist hann.
7Þegar Drottinn þinn Guð er búinn að leiða þig inn í landið góða, það landið hvar vatnsföll eru, uppsprettur og stöðuvötn sem spretta upp í dölum og fjöllum,8inn í landið hvar nóg er af hveiti, byggi, vínviði, fíkjutrjám og granateplum, viðsmjörstrjám og hunangi,9inn í landið, hvar þú ekki munt þurfa að eta þitt brauð með fátækt, og hvar þig mun ekkert bresta, hvörs steinar eru járn, og hvar þú getur grafið koparinn úr fjöllunum,10þá skaltu—nær þú hefir etið þig mettan—þakka Drottni þínum Guði fyrir landið það ið góða, sem hann gaf þér.11En varaðu þig við því að þú gleymir ekki Drottni Guði þínum með því að halda ekki hans boðorð, tilskipanir og lög, sem eg í dag legg fyrir þig,12að þegar þú hefir etið þig mettan, og byggt þér prýðileg hús að búa í,13og þegar þú eflist að nautum og sauðum, silfri og gulli og alls kyns fjármunum,14varaðu þig, segi eg, að þú metnist þá ekki með sjálfum þér, og gleymir Drottni þínum Guði, sem leiddi þig úr Egyptalandi, því þrældómsfangelsinu,15sem leiddi þig yfir þá miklu og hræðilegu eyðimörk, hvar eð voru stingandi höggormar og sporðdrekar, þar var og hrjóstur mikið og vatnsleysi, en hann lét vatn buna fram af harðri hellu handa þér,16hann fæddi þig í eyðimörkinni á manna sem forfeður þínir þekktu ei til, að hann fyrst reyndi þig með nokkurri mæðu, en gjörði þér svo vel til á eftir.
17Ekki skaltú hugsa með sjálfum þér: mín eigin orka, og styrkur minna handa hafa aflað mér þessarar megunar,18mundu heldur til Drottins þíns Guðs, því hann er það sem veiti þér krafta til þessarar velmegunar, því hann vildi halda sinn sáttmála, sem hann hafði svarið forfeðrum þínum, hvörn hann hefir og haldið til þessa.19En ef þú gleymir Drottni þínum Guði, og gefur þig við annarlegum guðum, dýrkar þá og tilbiður, þá segi eg þér nú strax fyrir sann, að það mun bráðlega vera úti með yður,20eins og með þær þjóðir sem Drottinn eyðilagði fyrir yður, eins munuð þér farast, af því þér ekki vilduð hlýða vilja Drottins yðar Guðs.

*) Þig hefir aldrei brostið fatnað.