Stríð við Filistea. Sál leitar frétta af dauðum.

1Og það skeði á þeim dögum, að Filistear drógu saman mikinn her, til að fara í stríð við Ísrael. Og Akis sagði við Davíð: vita skaltu, að þú verður að fara með mér í herbúðirnar, þú og þínir menn.2Og Davíð sagði til Akis: svo skaltu þá reyna hvað þinn þénari mun gjöra. Og Akis mælti til Davíðs: eg vil setja þig ávallt minn höfuðs vörð.
3(En Samúel var dáinn og allur Ísrael hafði grátið hann, og menn höfðu jarðað hann í hans borg Rama. Og Sál hafði rekið úr landi alla galdra og fjölkynngismenn).4Og svo samansöfnuðust Filistear og komu og settu herbúðir sínar í Sunem. Þá safnaði Sál öllum Ísrael, og setti herbúðir sínar í Gilbóa.5En sem Sál sá her Filisteanna, skelkaðist hann; og hans hjarta titraði mjög.6Og Sál spurði Drottin, en Drottinn svaraði honum ekki, hvörki í draumi né með ljósinu b), né fyrir spámannanna milligöngu.7Þá sagði Sál til sinna þénara: leitið mér að konu sem hefir tök á að leita frétta af dauðum c), að eg fari til hennar og spyrji hana. Og hans þénarar sögðu til hans: sjá! kona nokkur er í Endor d) sem veit að leita frétta af dauðum.
8Og Sál gjörði sig óþekkjanlegan, og fór í dularbúning, og lagði af stað, hann og tveir menn með honum, og þeir komu til konunnar um nóttina, og hann sagði: spáðu mér með særingu dauðra, og vek þú mér upp þann sem eg mun nefna þér.9Konan svaraði honum: sjá! þú veist hvað Sál hefir gjört, að hann hefir rekið úr landi galdramenn og fjölkynngismenn e); og því leggur þú snöru fyrir mitt líf, til að deyða mig?10Þá sór Sál henni við Drottin og mælti: svo sannarlega sem Drottinn lifir! þig skal ekkert illt henda hér fyrir.11Og konan sagði: hvörn á eg að vekja upp fyrir þig? og hann svaraði: vektu upp Samúel fyrir mig.
12Og sem konan sá Samúel, hljóðaði hún upp fyrir sig, og mælti til Sáls, og sagði: því hefir þú svikið mig? þú ert Sál.13Og kóngur mælti til hennar: vert þú óhrædd! en hvað sér þú? Og konan sagði við Sál: eg sé guð nokkurn koma upp úr jörðunni.14Og hann sagði til hennar: hvörnig er hann útlits? og hún sagði: gamall maður stígur upp og er íklæddur skikkju; þá sá Sál að það var Samúel, og hneigði andlit sitt til jarðar og laut.15Og Samúel mælti til Sáls: því hefir þú ónáðað mig og látið mig koma fram? Og Sál mælti: nú er eg í kröggum, því Filistear stríða móti mér, og Guð er frá mér vikinn, og svarar mér ekki framar, hvörki fyrir milligöngu spámannanna né í draumum. Því lét eg kalla þig, til að segja mér, hvað eg á að gjöra.16Og Samúel mælti: og því spyr þú mig þegar Drottinn er frá þér vikinn, og orðinn þinn óvin?17Og Drottinn hefir gjört eins og hann hefir sagt fyrir minn munn. Og Drottinn hefir rifið a) kóngsríkið úr þinni hendi og gefið það öðrum, honum Davíð.18Eins og þú hefir ekki hlýtt Drottins raust, og ekki gjört fullnustu hans ströngu reiði við Amalek, þess vegna gjörir Drottinn slíkt nú í dag.19Og Drottinn mun gefa Ísrael með þér í Filistea hönd, og á morgun verður þú hjá mér og þínir synir; og Ísraels her mun Drottinn gefa í Filistea hönd.20Þá féll Sál, svo langur hann var, til jarðar, og varð mjög hræddur við Samúels tal; enginn máttur var heldur í honum, því hann hafði á engu nærst allan þann dag og alla þá nótt.21Og sem konan kom til Sál og sá að hann var mjög frá sér, mælti hún til hans: sjá! þín þerna hefur hlýtt þinni raust, og eg hefi vogað mínu lífi b), og hlýtt þeim orðum, sem þú talaðir við mig;22en hlýddu þá líka orðum þinnar þernu, og leyfðu mér að leggja fyrir þig bita brauðs og et, svo kraftur sé í þér, og að þú getir gengið þína leið.23En hann færðist undan og mælti: eg et ekki! þá neyddu hans þénarar hann og líka konan; og hann gegndi þeirra raust, og stóð upp af jörðinni, og setti sig á rúmið.24Og konan hafði alikálf í húsinu, honum slátraði hún strax, tók mjöl og bakaði þar af ósýrðar kökur c).25Og hún bar þetta fyrir Sál og hans þénara, og þeir átu, og tóku sig upp, og lögðu af stað þá sömu nótt.

V. 6. b. Ljós sem var á brjóstskyldi þess æðsta kennimanns. (Sjá Ex. 28,30. Núm. 27,21). V. 7. c. Devt. 18,11. 2 Kóng. 21,6. 2 Kron. 33,6. Postgb. 16,16. d. Jós. 17,11. V. 9. e. Ex. 22,18. Lev. 20,27. V. 17. a. Kap. 15,28. 1 Kóng. 11,11. V. 21. b. Kap. 19,5. Dóm. 5,18. V. 24. c. Gen. 18,6.