XXVIII.

Það skeði so á þeim tíma að Philistei draga saman mikinn her og vilja herja á Ísrael. Og Akís talaði við Davíð: „Þú skalt vita að eg vil að þú og þínir menn fari herför þessa með mér.“ Davíð svaraði Akís: „Nú vel, þú skalt reyna hvað þinn þénari skal gjöra.“ Akís sagði til Davíðs: „Eg vil að þú sért höfuðvörður minn alla mína daga.“

[ Samúel var andaður og allur Ísraelslýður hafði grátið hann og jarðað hann í sinni borg Rama. Saul hafði og úr landi rekið alla galdramenn og fjölkynngismenn. En sem her Philistei var nú samankominn settu þeir herbúðir sínar í Súnem. Þá samansafnaði Saul öllum Ísrael og settu herbúðir sínar í Gilbóa. En er Saul sá her Philistinorum óttaðist hann og hans hjarta varð mjög skelft. Og hann gekk til umráða við Drottin en Drottin svaraði honum öngu, hvorki í draumi né [ fyri ljós né heldur fyrir spámenn.

Þá sagði Saul til sinna þénara: „Leitið upp fyrir mig þá kvinnu sem hefur [ spáfararanda so eg megi fara til hennar og fá vísindi af henni.“ Hans þénarar svöruðu: „Sjá, þar er ein kvinna í Endór, hún hefur einn spáfararanda.“ Og Saul tók klæðaskipti og gekk þangað og tveir menn með honum og kom um nótt til kvinnunnar og sagði: „Eg bið þig, spá þú mér fyrir spáfararanda og vek upp þann sem eg segi þér.“ Kvinnan svaraði honum: „Sjá, þú veist vel hvað Saul hefur gjört, hvernin hann hefur af landi rekið galdramenn og fjölkynngismenn. Því vilt þú þá leiða mína sál í snöru so eg hreppi dauða?“ Saul sór henni við Drottin og mælti: „So sannarlega sem Drottinn lifir, þig skal ekkert illt ske hér fyrir.“

Þá svaraði kvinnan: „Hvern vilt þú þá að eg uppveki þér?“ Hann svaraði: „Vek upp Samúel fyrir mig.“ Þá kvinnan sá nú Samúel kallaði hún hárri röddu og sagði til Saul: „Því hefur þú svikið mig? Þú ert Saul.“ Kóngurinn sagði til hennar: „Eigi skaltu óttast. Hvað sér þú?“ Kvinnan sagði: „Eg sé [ guði uppstíga úr jörðunni.“ Hann sagði: „Hvernin er hann í hátt?“ Hún ansaði: „Einn gamall maður kemur þar upp og er klæddur einum silkikyrtli.“ [ Þá merkti Saul að það var Samúel og hneigði sig á sína ásjónu til jarðar og baðst fyrir.

En Samúel sagði til Saul: „Því hefur þú gjört mér ónáðir að þú lést uppvekja mig hér upp?“ Saul svaraði: „Eg er staddur í stórri angist. Philistei herja á mig og Guð er vikinn frá mér og vill öngva vissu gjöra mér, hverki fyrir spámenn né drauma. Þar fyrir lét eg kalla þig að þú sýnir mér hvað eg skal gjöra.“

Samúel svaraði: [ „Því spyr þú mig fyrst að Drottinn er vikinn frá þér og er orðinn þinn óvin? Drottinn mun gjöra þér sem hann hefur sagt fyri mig og mun slíta ríkið af þinni hendi og gefa Davíð þínum náunga það. Sökum þess að þú varst óhlýðinn röddu Drottins og fullkomnaðir ekki hans grimmdarreiði á Amalek. Og því hefur Drottinn gjört þér þetta. Þar að auk mun Drottinn gefa Ísrael með þér í hendur Philistinorum. Á morgun munt þú og þínir synir vera með mér og so mun Drottinn gefa Ísraelsher í Philisteis hendur.“ Þá féll Saul fram allur til jarðar svo langur sem hann var og varð harla mjög hræddur fyrir Samúels orðum svo að hann varð máttlaus. Því hann hafði ekki matar neytt allan þann dag og þá nótt.

Og kvinnan gekk inn til Saul og sá að hann var mjög hræddur og hún sagði til hans: „Sjá þú, þín ambátt hlýddi þinni röddu og eg lagði mitt líf í hættu og eg hlýdda þínum orðum sem þú sagðir mér. Svo hlýð þú nú og einnin orðum ambáttar þinnar: Eg vil setja fyrir þig lítið brauð að þú megir eta og styrkjast so að þú megir fara þinn veg.“ Hann neitaði og sagði: „Eg vil ekki eta.“ Þá neyddu hans þénarar og kvinnan honum til so hann hlýddi þeirra ráðum. Og hann stóð upp af jörðunni og setti sig á sængina. Kvinnan átti og einn alinn kálf í sínu húsi, hún fór sem snarast og lét slátra honum. Og hún tók mjöl, hnoðaði og bakaði ósýrt brauð og bar það fram fyrir Saul og hans þénara. Og sem þeir höfðu etið stóðu þeir upp og gengu alla þá nótt.