Inngangur. Hrós viskunnar. Aðvörun.

1Orðskviðir Salómons, Davíðs sonar Ísraelskonungs,2til að þekkja vísdóm og menntun, til að nema spekinnar orð,3til að læra undirvísun í umhugsunarsemi, réttvísi, rétti og sannsýni.4Til að gefa þeim einföldu hyggindi, unglingunum þekkingu og framsýni.5(Sá vitri skal og svo hlusta til og auka sinn lærdóm; sá framsýni skal fá heilræði),6til að skilja orðskviðu og gátur; orð hinna vísu og þeirra óljósu tölur.7Ótti Drottins er upphaf viskunnar, heimskingjar forsmá vísdóm og menntun.8Minn son! hlusta þú á áminning föður þíns, og yfirgef ekki boðorð þinnar móður.9Því fögur prýði eru þau á þínu höfði og keðja á þínum hálsi.10Minn son! þegar syndarar lokka þig, þá samsinntu ekki.11Þegar þeir segja: kom þú með oss, vér viljum setjast um líf manna, vér viljum fara í launsátur fyrir þann saklausa án saka,12vér viljum svelgja þá í oss, sem gröfin lifandi (menn), og þá hreinskilnu, sem þá er niður fara í afgrunnin;13allt þeirra dýrmæta fé skulum vér finna og fylla vor hús með herfangi;14þitt hlutskipti skaltu hafa með oss, allir skulum vér einn sjóð hafa!15Minn son! far þú ekki þann veg með þeim. Aftra þú fæti þínum frá þeirra leið.16Því fætur þeirra hlaupa til ills, og þeir hraða sér til að úthella blóði.17Vissulega er það til einkis að leggja (fugla)netið, þegar allir fuglarnir horfa á.18En þessir umsitja sitt eigið blóð, þeir fara í launsátur fyrir sitt eigið líf.19Þannig er hvörs þess háttur sem hneigður er til gróða, hann sviptir sína eigin herra lífinu.
20Spekin kallar fyrir utan, hún lætur sína raust heyra á götunni.21Hún hrópar á fjölmennum stöðum hjá innganginum í port staðanna:22hvörsu lengi viljið þér heimskingjar elska heimskuna? þér háðfuglar hafa lyst til að hæða? þér einfeldningar hata hyggindi?23Snúist til minnar umvöndunar! sjáið! eg vil úthella yfir yður mínum anda; eg vil kunngjöra yður mín orð.24Af því eg hrópaði og þér dróguð yður í hlé; eg útrétti mínar hendur, og enginn gaf því gaum;25af því þér létuð allt mitt ráð fara, og vilduð ekki þola mína umvöndun,26þá vil eg líka hlæja í yðar ólukku; eg skal gjöra mér glatt þegar það kemur sem þér óttist.27Þegar það, sem þér hræðist, kemur sem eyðilegging; og yðar ólukka kemur sem stormbylur; þegar angist og neyð yfirfellur yður.28Þá munu þeir kalla til mín, en eg skal ekki ansa; þeir munu árla leita mín, en ekki finna mig.29Af því þeir hötuðu þekkingu, og útvöldu ekki ótta Drottins,30af því þeir ekki féllust á mín ráð, og forsmáðu alla mína umvöndun.31Því skulu þeir neyta af ávöxtum sinna vegu, og mettast af sínum eigin ráðum.32Því fráfall hinna heimsku drepur þá, og uggleysi hinna fávísu tortínir þeim.33En hvör sem mér hlýðir, sá mun óhultur búa, og ekki skal hann hræðast hið illa.