Jesús fyrirsegir sína pínu; ráðagjörð Gyðinga um að deyða hann. Hann er smurður í Betaníu; Júdas býðst til að svíkja Jesúm. Jesús etur páskalambið, innsetur kvöldmáltíðina. Hans gangur til Viðsmjörsviðarfjallsins og pína í grasgarðinum. Hann er tekinn höndum, Pétur sýnir vörn, lærisveinarnir flýja. Jesús er færður fyrir hinn andlega rétt. Afneitun Péturs.

1Nú er Jesús hafði lokið þessari ræðu, mælti hann við lærisveina sína:2þér vitið, að eftir tvo daga eru Páskar; þá mun Mannsins Sonur ofurseldur verða, að hann krossfestist.
3Um þetta bil komu saman þeir æðstu prestar og skriftlærðir og öldungar lýðsins í garði höfuðprestsins, er Kaífas hét,4og gjörðu ráð sitt hvörnig þeir gætu fengið Jesúm höndlaðan með svikum og tekið hann af lífi;5og sýndist þeim að ekki mundi ráð að gjöra þetta á hátíðinni, að ekki yrði upphlaup meðal fólksins.
6Þegar Jesús var í Betaníu húsi Símonar líkþráa,7kom til hans kona nokkur, hún hafði flösku með dýrmætum smyrslum í; þeim hellti hún yfir höfuð hans er hann var að mat;8en er lærisveinar hans sáu þetta, mislíkaði þeim það, og mæltu: hvar til skal þessi kostnaður?9þessi smyrsl hefðu kunnað að seljast miklu verði, og gefast svo fátækum.10En er Jesús varð þessa var, mælti hann: því amist þér við konu þessari? vel gjörði hún til mín;11því fátæka munuð þér ætíð hjá yður hafa, en mig ekki;12með þessum smyrslum smurði hún mig til minnar greftrunar;13trúið mér, að hvar um heim, sem þessi náðarboðskapur verður kunngjörður, mun og þess, er hún gjörði, henni til sæmdar getið verða.
14Um þetta bil fór einn af þeim tólf, er Júdas hét frá Kariot, til enna æðstu presta,15og spurði þá: hvað þeir vildu gefa sér til að koma honum á þeirra vald; en þeir greiddu honum þrjátíu silfurpeninga,16og upp frá þessu leitaði hann lags að svíkja Jesúm.
17En fyrsta hátíðardag enna ósýrðu brauðanna a) gengu lærisveinarnir til Jesú og spurðu: hvar viltú að vér matbúum þér páskalambið?18hann mælti: farið þér í borgina til manns nokkurs, og segið honum: svo segir Meistarinn: minn tími er nálægur, hjá þér vil eg halda páska með lærisveinum mínum.19Lærisveinarnir gjörðu, sem hann bauð þeim, og efnuðu þar til páska veislu.20Og er kvöld var komið, settist hann til borðs ásamt þeim tólf lærisveinum sínum.21Nú er þeir vóru undir borð komnir, tók hann svo til orða: trúið mér: að einn af yður mun svíkja mig;22og er þeir heyrðu það, urðu þeir mjög hryggvir, og spurðu hann, hvör fyrir sig, með svofelldum orðum: hvört mun eg verða til þess, Herra?23Hann svaraði: sá sem réttir höndina í fatið með mér, hann mun svíkja mig.24Mannsins Sonur mun að sönnu láta líf sitt, eins og því er spáð fyrir honum, en vei þeim manni, er svíkur hann! betra væri honum, að hann aldrei væri fæddur.25Þá spurði Júdas einninn, sá er sveik hann: hvört er eg það, Herra? en Jesús játti því.26Þegar þeir nú sátu undir borðum, þá tók Jesús brauðið, gjörði Guði þakkir, braut það, og gaf sínum lærisveinum og mælti: takið og etið, þetta er minn líkami.27Síðan tók hann bikarinn, gjörði Guði þakkir, gaf þeim hann og mælti: drekkið hér af allir;28þetta er mitt blóð, með hvörju hinn nýi sáttmálinn verður staðfestur, og sem fyrir marga mun úthellast til fyrirgefningar syndanna.29En eg segi yður það satt, að eg mun ekki héðan í frá drekka af þessum vínviðarávexti, til þess er eg drekk með yður af annarskonar ávexti í ríki míns Föðurs.
30Þegar þeir höfðu lofsönginn sungið, fóru þeir til Viðsmjörsviðarfjallsins.31Þá mælti Jesús: á þessari nóttu munuð þér allir yfirgefa mig, eins og sagt er í Ritningunni: „nær eg deyði hirðirinn, mun hjörðin tvístrast;“32en eftir það að eg er upprisinn, mun eg verða kominn á undan yður til Galílæu.33Þá svaraði Pétur honum: þótt allir yfirgefi þig, skal eg samt aldrei yfirgefa þig.34Jesús svaraði: eg segi þér það satt, að á þessari nóttu, áður en haninn gelur, muntú þrisvar afneita mér.35Þá mælti Pétur: þótt eg ætti að láta lífið með þér, vil eg þó ekki yfirgefa þig. Hið sama sögðu og allir lærisveinarnir.
36Síðan kom Jesús með þeim til þess staðar, er hét Getsemane, þá mælti hann til lærisveina sinna: bíðið þér hér, á meðan eg fer og gjöri bæn mína;37en Pétur og þá tvo sonu Sebedeusar tók hann með sér; þá tók hann að hryggjast, og mjög harmþrunginn að verða;38og sagði: eg er í dauðans angist, bíðið hér og vakið með mér.39Þá gekk hann litlu lengra fram, féll fram á sína ásjónu, og bað á þenna hátt: Faðir minn! ef skeð getur, þá víki frá mér þessi kaleikur, þó ekki, sem eg vil, heldur, sem þú vilt!40Síðan kom hann aftur til lærisveina sinna, og fann þá sofandi; þá talaði hann til Péturs á þessa leið; gátuð þér þá ekki vakað með mér eina stund?41vakið og biðjið, að þér fallið ekki í freistni, andinn er að sönnu reiðubúinn, en holdið er veikt a).42Þá fór hann í öðru sinni, og gjörði bæn sína á þessa leið: Faðir minn! ef það er ekki mögulegt, að þessi kaleikur víki frá mér, án þess eg drekki hann, þá verði þinn vilji!43Síðan kom hann aftur, og fann þá í öðru sinni sofandi; því svefnþungi mikill var fallinn á augu þeirra;44þá fór hann enn frá þeim, og gjörði bæn sína í þriðja sinni með sömu orðum og fyrr.45Þá kom hann enn til lærisveina sinna og mælti: sofið það sem eftir er (tímans), og hvílist! Sjáið! stundin nálgast, að Mannsins Sonur verður framseldur á vald vondra manna;46standið upp og förum héðan, sá er í nánd, er mig svíkur.
47Meðan hann var nú þetta að mæla, kom Júdas, einn af þeim tólf, og með honum flokkur mikill, búinn með sverðum og forkum. Þetta lið höfðu sent þeir æðstu prestar og öldungar lýðsins;48en sá, er sveik hann, bað þá hafa það til marks, að sá, er hann kyssti, hann væri Jesús, þann skyldu þeir höndla;49og strax gekk hann að Jesú og mælti: heill, Meistari! og minntist við hann.50Jesús svaraði: vinur! því ertú hér kominn? Þá gengu þeir til Jesú, lögðu hendur á hann og gripu hann.51En einn af fylgdarmönnum Jesú greip til sverðsins, brá því og hjó eyrað af þjónustumanni ens æðsta prests.52Þá sagði Jesús til hans: slíðra þú sverð þitt; þeir er með vopnum vega, munu og fyrir vopnum falla.53Eða meinar þú ekki, að ef eg bæði Föður minn, mundi hann senda mér meir en tólf fylkingar engla;54en þetta hlýtur að ske, svo það komi fram, sem um mig hefir spáð verið.55Um þetta sama bil mælti Jesús við flokkinn: þér eruð farnir út að höndla mig með sverðum og forkum, eins og ræningja; en á hvörjum degi hefi eg þó hjá yður verið, setið og kennt í musterinu, og þó hafið þér ekki vogað að grípa mig.56En þetta allt er skeð, svo það rætist, er spámennirnir hafa sagt. Þá yfirgáfu hann allir lærisveinar hans og flýðu.
57En þeir, sem höndluðu Jesúm, leiddu hann til Kaifasar æðsta prests, hvar skriftlærðir og öldungarnir voru samankomnir;58en Pétur fylgdi álengdar á eftir, allt að garði ens æðsta prests. Þar gekk hann inn og settist meðal þjónustumannanna, til þess hann sæi, hvör endir þar á yrði.59En þeir æðstu prestar, öldungarnir og allt hið mikla Ráð, leituðu ljúgvitna gegn Jesú, að þeir kynnu að dæma hann til dauða,60en fundu ekkert saknæmt um hann, jafnvel þótt margir ljúgvottar kæmu fram. Síðast komu fram tveir ljúgvottar,61þeir er sögðust hafa heyrt hann segja: eg get brotið musteri Guðs og byggt það aftur innan þriggja daga.62Þá stóð upp sá æðsti prestur og mælti: svarar þú engu til þess, sem þessir ásaka þig um?63En Jesús þagði. Þá mælti hinn æðsti prestur: eg særi þig við enn lifanda Guð, að þú segir oss það, ef þú ert Kristur Sonur Guðs.64Jesús svaraði: svo er, sem þú sagðir, en trúið mér: að eftir þetta munuð þér sjá Mannsins Son sitjanda til hægri handar ens alvalda Guðs, og komanda í skýjum himins.65Þá reif hinn æðsti prestur sín klæði og mælti: hann guðlastar; hvað þurfum vér nú framar vitnanna við? nú heyrðuð þér sjálfir hans guðlöstun.66Hvað líst yður? en þeir kváðu hann allir dauða sekan.67Þá hræktu þeir í andlit honum og slógu hann, sumir með hnefum og sumir með lófum,68og mæltu: spáðu nú, Kristur? hvör var það, sem sló þig?
69Nú er Pétur sat utarlega, í garðinum, kom til hans ambátt nokkur, og mælti: þú varst með Jesú enum galverska!70en hann neitaði því, svo allir heyrðu, og mælti: ekki veit eg, hvað það er, sem þú talar um.71En er hann gekk út í fordyrið, þá leit hann önnur ambátt og mælti við þá, sem hjá vóru: þessi maður var með Jesú enum naðverska;72en hann neitaði aftur með eiði, og kvaðst ekki þekkja þann mann.73Skömmu síðar tóku þeir til orða, er hjá vóru og sögðu við Pétur: víst ertú af hans mönnum; það auglýsir mál þitt.74Þá tók hann að sverja og formæla sér, að hann ekki þekkti þenna mann, og í því sama gól haninn;75þá minntist Pétur þess, er Jesús hafði mælt: að áður en haninn galaði, mundi hann þrisvar afneita sér; gekk síðan út og grét sáran.

V. 1–16. sbr. Mark. 14,1–11. Lúk. 22,1–6. V. 15, sjá Sak. 11,12. V. 17–29, sbr. Mark. 14,12–25. Lúk. 22,7–23. a. Þ. e. páska, sjá 2 Mós. 12,17–20. V. 28, sbr. 2 Mós. 24,8. V. 30–35. sbr. Mark. 14,26–31. Lúk. 22,31–39. Jóh. 13,36–38. 18,1. V. 31. Sakk. 13,7. V. 36–46, sbr. Mark. 14,32–42. Lúk. 22,40–46. V. 41. a. Þ. e. yðar vilji er að sönnu góður, en yður vantar kraftana, sbr. Róm. 7,15–23. V. 47–56. sbr. Mark. 14,42–52. Lúk. 22,47–53. Jóh. 18,2–11. V. 57–68. sbr. Mark. 14,53–65. Lúk. 22,54.55.63–71. Jóh. 18,12–27. V. 69–75. sbr. Mark. 14,66–72. Lúk. 22,56–62. (Jóh. 18,12–27).