Lög um réttlæti, stórhátíðir; fyrirheit um Kanaansland.

1Þú skalt ekki fara með lygikvittu; þú skalt ekki leggja lag þitt við vondan mann til að gjörast ljúgvottur.2Þú skalt ekki fylgja fjöldanum í því að gjöra það sem illt er; ef þú átt svör að veita í sök nokkurri, þá skaltu ekki á eitt leggjast með margnum til þess að halla réttu máli;3ekki skaltu vera hliðdrægur manni, þó fátækur sé, í málsókn hans.
4Ef þú hittir uxa óvinar þíns, eða asna hans, sem villtur fer, þá fær þú hann þegar aftur til hans.5Sjáir þú asna óvildarmanns þíns liggja örmagna undir byrði sinni, þá skaltu ekki láta óvin þinn vera einan um grip sinn, heldur skaltú fara til með honum, og ekki fyrr frá gripnum ganga, en sjálfur eigandinn.6Þú skalt ekki halla réttarfari fátæks manns í sök hans.7Varastu að beita lognum sökum, og slá ekki í hel saklausan mann og réttlátan; því eg vil ekki, að sá hafi sitt mál, sem á röngu hefir að standa.8Eigi skaltu mútur þiggja, því mútan glepur sjónir fyrir þeim skyggnu, og umsnýr málefnum hinna ráðvöndu.9Þú skalt ekki kúga útlendan mann; þér vitið sjálfir, hvörninn útlendum manni er innanbrjósts, því þér hafið verið útlendingar á Egyptalandi.
10Sex ár skaltu sá jörð þína, og safna ávöxtum hennar;11en sjöunda árið skaltu láta hana liggja og hvíla sig, svo að þeir fátæku meðal þíns fólks megi eta þar af; það sem þeir leifa, mega skógardýrin eta; eins skaltu gjöra við þinn víngarð og viðsmjörsgarð.
12Sex daga skaltu verk þitt vinna, en sjöunda daginn skaltu halda heilagt, svo að þinn uxi og þinn asni geti hvílt sig, og sonur þinnar ambáttar og hinn útlendi geti endurnært sig.
13Allt hvað eg hefi sagt yður, það skuluð þér halda. Nöfn annarra guða megið þér ekki hafa í huga, og ekki láta heyra þau af yðar munni.
14Þrisvar á ári skaltu mér hátíð halda.15Þú skalt halda hátíð enna ósýrðu brauða: sjö daga skaltu eta ósýrt brauð, eins og eg hefi boðið þér, á ákveðnum tíma í mánuðinum abíb, því í þeim mánuði fórstú út af Egyptalandi; þér skuluð ekki með tómar hendur koma fram fyrir mitt auglit.16Þarnæst frumskeruhátíðina, þá þú hefir uppskorið frumgróða þess sæðis, er þú sáðir í akurinn; og uppskeruhátíðina við árslokin, þá þú hefir alhirt afla þinn af akrinum.17Þrem sinnum á ári skal allt þitt karlkyn birtast frammi fyrir Drottni almáttugum.18Þú skalt ekki fórnfæra mitt fórnarblóð með súrdeigi, og feitin af minni hátíðafórn má ekki liggja náttlangt til morguns.19Það besta af frumgróða jarðar þinnar skaltu færa til húss Drottins Guðs þíns. Þú skalt ekki sjóða kiðið í mjólk móður sinnar.
20Sjá! eg sendi engil á undan þér, til að varðveita þig á ferðinni, og leiða þig til þess staðar, sem eg hefi tilreitt.21Haf gát á þér í hans augsýn, hlýð hans röddu, og set þig ekki upp í móti honum, því hann mun ekki fyrirgefa yðar yfirtroðslur, þar eð mitt nafn býr í honum.22En ef þú hlýðir hans raustu rækilega, og gjörir allt það sem eg segi þér, þá skal eg vera óvinur óvina þinna, og mótstöðu veita þínum mótstöðumönnum.23Því minn engill skal ganga á undan þér, og leiða þig inn í land þeirra Amoríta, Hetíta, Feresíta, Kananíta, Hevíta og Jebúsíta, og eg skal eyðileggja þá.24Þú mátt ekki tilbiðja þeirra guði, og ekki dýrka þá, og ekki breyta eftir þeirra athæfi, heldur skaltu gjöreyða og með öllu sundurbrjóta skurðgoð þeirra.25Þér skuluð dýrka Drottin, yðvarn Guð, og hann mun blessa þitt brauð og þitt vatn, og eg skal láta allt sóttarfar víkja frá þér.26Engin vanbyrja og engin óbyrja skal finnast í landi þínu, og eg skal láta þig verða langlífan.27Eg skal senda mína ógn á undan þér, og gjöra felmtsfullar allar þær þjóðir, sem þú kemur til, og eg skal láta alla þína óvini snúa bökum við þér.28Eg skal senda geitunga á undan þér, og þeir skulu í burtu stökkva Hevítum, Kananítum og Hetítum frá þér.29Þó vil eg ekki stökkva þeim burt fyrir þér á einu og sama ári, svo landið leggist ekki í eyði, og villidýrin ekki fjölgi þér til meins;30heldur vil eg stökkva þeim burt fyrir þér smám saman, þar til þú fjölgar og eignast landið.31Eg vil setja landamerki þín frá Hafinu rauða og til Filistahafs, frá eyðimörkinni og til Fljótsins; því eg vil selja innbyggjendur landsins á vald þitt, og þú skalt stökkva þeim burt undan þér.32Þú mátt ekkert sáttmál gjöra við þá eða þeirra guði;33Þeir mega ekki búa í þínu landi, svo þeir ekki komi þér til að falla frá mér; ef þú þjónar þeirra guðum, þá mun það verða þér til ógæfu.

V. 28. Geitungar: er fljúgandi skorkvikindi, hefir líkan búnaðarhátt og býfluga, og bítur háskalega.