Sama efni, að Gyðingar skyldu ekki reiða sig á hjálp Egypta, heldur treysta Drottni, sem sjálfur mundi eyða her Assýríumanna.

1Vei þeim, sem fara ofan til Egyptalands eftir liðstyrk, sem reiða sig á hesta og treysta á vagna, af því þeir séu margir, og á riddara, af því þeir séu mjög sterkir, en renna ekki augum til hins heilaga Ísraels Guðs, og leita ekki Drottins.2Hann er þó að vísu vísdómsfullur: hann getur látið ógæfuna yfir koma, og hann tekur ekki orð sín aftur; hann rís upp í móti húsi illvirkjanna, og í móti þeim, sem lið veita misgjörðamönnunum.3Egyptar eru menn, en enginn Guð; hestar þeirra eru hold, en ekki andi. Þegar Drottinn útréttir sína hönd, þá hrasar liðveislumaðurinn, og sá dettur, sem liðveisluna hefir þegið, svo þeir tortýnast allir, hvör með öðrum.4Því svo hefir Drottinn sagt til mín: eins og ljónið og ljónskálfurinn öskrar yfir bráð sinni, og bregða sér ekki, þó fjölda hjarðmanna sé stefnt saman móti þeim, hræðast ekki háreysti þeirra, og láta ekki hugfallast við mannmergðina: eins mun Drottinn allsherjar ofan stíga til að verja með herskildi Síonsfjall og hæðir þess.5Eins og fuglar eru á flökti (yfir hreiðri sínu), eins mun Drottinn allsherjar vera hlífskjöldur Jerúsalemsborgar, hlífa henni og frelsa hana, verja hana og bjarga henni.6Snúið aftur, þér Ísraelsmenn, til hans, hvörjum þér eruð svo langt fráhorfnir.7Á þeim degi mun sérhvör yðar hafna þeim silfurgoðum og gullgoðum, sem hendur yðar hafa gjört til að syndgast á.8Assýríukonungur skal fyrir sverði falla, en ekki fyrir mannahendi: sverð skal verða honum að bana, en ekkert manns sverð. Hann skal undan sverði flýja, og æskumenn hans verða ánauðugir.9Fyrir hræðslusakir skal hann fara framhjá því hellubjargi, hvar hann gæti haft hæli, og höfðingjar hans skulu flýja í ofboði undan merkjunum, segir Drottinn, sá eð hefir sinn eld á Síonsfjalli og ofn sinn a) í Jerúsalemsborg.

V. 9. Sinn eld og ofn sinn, þ. e. altari sitt.