Musterisvígslan.

1Þá samansafnaði Salómon öllum öldungum Ísraels, öllum foringjum ættanna, höfðingjum Ísraelssona ættkvísla, til Salómons kóngs í Jerúsalem, til þess að flytja hingað sáttmálsörk Drottins úr Davíðsborg, það er: úr Síon.2Og til Salómons kóngs söfnuðust allir menn af Ísrael í mánuðinum Etanim, til hátíðarinnar (það er sá sjöundi mánuður).3Og allir Ísraels öldungar komu, og prestarnir báru örkina.4Og þeir fluttu þangað (í musterið) örk Drottins og samkundutjaldið og öll heilög áhöld, sem voru í tjaldinu, þetta fluttu prestarnir og Levítarnir.5Og konungurinn Salómon og allur Ísraelssöfnuður, sem til hans var kominn, gengu með honum fyrir örkinni, og fórnfærðu sauðum og nautum er ekki varð talið og reiknað fyrir fjölda sakir.6Og prestarnir báru sáttmálsörk Drottins á sinn stað, í kór hússins, inn í það allrahelgasta, undir kerúbsvængina a),7því kerúbarnir útbreiddu vængina yfir pláss arkarinnar, og huldu örkina og hennar stengur þar upp yfir.8Og stengurnar voru svo langar að endarnir á þeim sáust frá því heilaga, fyrir framan kórinn, en utanað sáust þeir ekki; og þær voru þar allt til þessa dags.9Ekkert var í örkinni nema aðeins bæði steinspjöldin sem Móses lagði þar hjá Horeb(fjalli) þegar Drottinn gjörði sáttmálann við Ísraels sonu, þegar þeir fóru úr Egyptalandi.10Og það skeði, þá prestarnir gengu út úr helgidóminum, uppfyllti ský Drottins hús.11Og prestarnir gátu ekki staðið þar, til að gegna þjónustugjörðinni, sakir skýsins, því dýrð Drottins hafði uppfyllt hús Drottins b).12Þá tók Salómon svo til orða: Drottinn hefir sagt, að hann muni búa í dimmunni c),13byggt hefi eg þér hús til íbúðar, stað til aðseturs að eilífu.14Og kóngurinn sneri sínu andliti og blessaði allan Ísraelssöfnuð, og allur Ísraelssöfnuður stóð.
15Og hann mælti: lofaður sé Drottinn Ísraels Guð, sem talaði með sínum munni til Davíðs föður míns, og framkvæmdi það sem hann sagði, með sinni hönd:16Frá þeim degi að eg flutti mitt fólk úr Egyptalandi, hefi eg engan stað valið meðal allra Ísraels kynkvísla, að mér skyldi byggjast hús, svo að mitt nafn væri þar; og eg valdi Davíð að hann skyldi vera yfir mínu fólki Ísrael.17Og Davíð, faðir minn, hafði í hug, að byggja Drottins nafni, Ísraels Guði hús.18Og Drottinn sagði við föður minn Davíð: þar eð þér hefir komið í hug að byggja hús mínu nafni, þá er það vel gjört, að þér kom það í hug;19en þú skalt ekki byggja það hús, heldur sonur þinn, sem kemur af þínum lendum, sá hinn sami skal byggja húsið mínu nafni.20Og Drottinn hefir efnt það orð sem hann talaði, eg kom í stað föður míns Davíðs og setti mig í Ísraels hásæti, eins og Drottinn hafði talað og byggði húsið nafni Drottins Guðs Ísraels,21og gaf rúm í því örkinni, hvar í sáttmáli Drottins er, sem hann gjörði við vora feður, þá hann flutti þá burt úr Egyptalandi.
22Og Salómon gekk fyrir altari Drottins í nærveru alls Ísraels safnaðar, og hóf upp sínar hendur til himins,23og mælti: Drottinn Ísraels Guð! enginn Guð er sem þú, á himninum yfir, eða jörðinni undir, þú heldur við þína þjóna þinn sáttmála og náð, þá sem ganga fyrir þér af öllu hjarta.24Þú hélst við þjón þinn Davíð, það sem þú sagðir; þú hefir talað það með þínum munni, og efnt það með þinni hendi, sem nú er framkomið.25Og nú, Drottinn Ísraels Guð! haltu og við þinn þjón Davíð, föður minn, það sem þú talaðir við hann, þegar þú sagðir: þig skal ekki vanta mann frammi fyrir mér, sem sitji í Ísraels hásæti, ef aðeins þínir synir hafa gát á sínum vegum, að ganga frammi fyrir mér, eins og þú gengur frammi fyrir mér.26Og nú, Ísraels Guð! rætist þitt orð sem þú talaðir til þíns þjóns Davíðs, föður míns.
27Mundi Guð í raun og veru búa á jörðinni? sjá, himinninn og allra himnanna himnar taka þig ekki; hvað þá þetta hús, sem eg hefi byggt.28En snú þér nú að bæn þíns þjóns og að hans grátbeiðni, Drottinn, minn Guð! að þú heyrir það ákall og þá bæn sem þinn þjón í dag biður þig með,29að þitt auga sé opið nótt og dag yfir þessu húsi, yfir þessum stað um hvörn þú hefir sagt: þar skal mitt nafn vera, að þú heyrir þá bæn sem þinn þjón mun frambera á þessum stað a).30Svo hlýð þú á þá grátbeiðni þíns þjóns, og þíns fólks, Ísraels, sem þeir munu á þessum stað frambera; heyr þú hana í þínum aðsetursstað, á himninum, heyr og fyrirgef syndir!31Þegar einhvör syndgar móti sínum náunga og menn heimta eið af honum og láta hann sverja, og eiðurinn kemur fyrir þitt altari í þessu húsi:32svo heyr þú í himninum, og vertu ekki aðgjörðalaus, og dæm þína þjóna, að þú auglýsir, að sá seki er sekur, og látir hans breytni honum í koll koma, og að sá réttláti er réttlátur, með því að umbuna honum eftir hans réttlæti.33Verði þitt fólk Ísrael sigrað af fjandmönnum, af því þeir syndguðu á móti þér, og þeir umvenda sér til þín, og viðurkenna þitt nafn, og biðja og grátbæna þig í þessu húsi:34þá heyr þú í himninum og fyrirgef synd þíns fólks Ísraels, og leið það heim aftur í það land sem þú gafst þeirra feðrum.35Sé himinninn læstur, svo ekkert regn kemur, af því þeir syndga á móti þér, og þeir biðja á þessum stað, og viðurkenna þitt nafn, og snúa sér frá sínum syndum, af því þú auðmýkir þá,36svo heyr þú í himninum og fyrirgef syndir þinna þjóna og þíns fólks Ísraels, eftir að þú hefir sýnt þeim þann góða veg, sem þeir eiga að ganga, og gef regn yfir landið, sem þú hefir gefið þínu fólki til eignar.37Þegar hallærið kemur í landið, eða drepsótt, eða þurrkur, eða kornbruni, eða eyðileggjandi engisprettur eru þar, þegar fjandmennirnir þrengja að fólkinu í landsins borgum, eða einhvör plága og sjúkdómur:38hvörja bæn, hvörja grátbeiðni sem þá mun koma frá hvörjum sem helst manni af öllu Ísraelsfólki, þegar þeir kenna til, hvör einn, þess sem þjáir hans hjarta, og útbreiða sínar hendur til þessa húss:39þá heyr þú í himninum í stað þinnar íbúðar, og fyrirgef, og gjör og gef sérhvörjum eftir allri hans breytni, eins og þú þekkir hans hjarta; því þú einn þekkir hjörtu allra mannanna barna b).40Svo þeir óttist þig alla tíma, sem þeir lifa í landinu, er þú gafst þeirra feðrum.41Og þá sá útlendi sem ekki er af þínu fólki Ísrael, og kemur úr framandi landi, vegna þíns nafns,42(því þeir munu heyra um þitt mikla nafn, og þína sterku hönd og þinn útrétta arm) þegar hann kemur og biður í þessu húsi:43Þá heyr þú í himninum, í bústað þíns aðseturs, og gjör allt það sem hinn útlendi biður þig um, svo að allar þjóðir á jörðunni a) kannist við þitt nafn og óttist þig, eins og þitt fólk, Ísrael, og að þeir viðurkenni, að þetta hús sé nefnt eftir þínu nafni, það sem eg hefi byggt.44Og þegar þitt fólk fer út í stríð mót sínum fjandmönnum, á þeim vegi sem þú sendir það, og það biður til Drottins, og (snýr sér) til þess staðar sem þú hefir útvalið, og til þess húss sem eg hefi byggt þínu nafni,45þá heyr í himninum þess bæn, og þess grátbeiðni, og hjálpa því til að ná rétti sínum,46og þegar þeir syndga á móti þér, (því enginn er sá maður sem ekki syndgi) og þú reiðist þeim b), og gefur þá á vald óvinanna, og sigurvegarinn flytur þá í fjandmanna land, fjær eða nær;47og þeim gengur það til hjarta, í því landi hvört þeir eru fluttir herteknir, og snúa sér til þín og grátbæna þig í landi þeirra sem sigruðu þá, og segja: vér höfum syndgað, og illa breytt og vér vorum óguðlegir c).48Og þeir snúa sér til þín, af öllu hjarta og af allri sálu, í landi sinna óvina, sem hafa flutt þá burt hertekna og biðja þig, og (snúa sér) til síns lands sem þú gafst þeirra feðrum, til þess staðar sem þú útvaldir, til þess húss sem eg hefi byggt þínu nafni:49þá heyr í himninum í þínum bústað þeirra bæn og grátbeiðni, og lát þá ná rétti sínum.50Og fyrirgef þínu fólki það sem þeir syndguðu móti þér, og allar þeirra yfirtroðslur, með hvörjum þeir brutu á móti þér, og lát þá finna miskunnsemi hjá þeim sem sigruðu þá, að þeir aumkist yfir þá.51Því þeir eru þitt fólk og þín eign, þú fluttir þá úr Egyptalandi úr járnofninum d),52að þín augu séu opin fyrir grátbeiðni þíns þjóns, og grátbeiðni þíns fólks Ísraels, að þú heyrir þá, um hvað sem þeir ákalla þig;53því þú hefir aðskilið þá þér til eignar frá öllum þjóðum jarðarinnar, eins og þú, minn Drottinn! fluttir vora feður úr Egyptalandi!54En sem Salómon hafði lokið allri þessari bæn og grátbeiðni til Drottins og lét af að beygja sín kné, með höndum útbreiddum til himins;55og gekk fram og blessaði Ísraelssöfnuð með hárri rödd og mælti:56vegsamaður sé Drottinn, sem gefið hefir Ísrael, sínu fólki, hvíld, rétt eins og hann lofaði! ekkert hans orð er niðurfallið, ekkert af öllum þeim góðum orðum sem hann talaði fyrir sinn þjón, Móses e).57Drottinn vor Guð sé með oss, eins og hann hefir verið með vorum feðrum, hann yfirgefi oss ekki, og dragi sig ekki í hlé við oss.58Hann hneigi vor hjörtu til sín, að vér göngum á hans vegum, og höldum öll hans boðorð, og hans setninga og hans réttindi, sem hann bauð vorum feðrum (að halda).59Og þessi mín orð, sem eg hefi beðið fyrir Drottni, séu nálægt Drottni vorum Guði, dag og nótt, að hann láti sína þjóna njóta síns réttar, sitt fólk Ísrael, dag eftir dag;60svo að allar þjóðir á jörðinni viðurkenni, að Drottinn er Guð og enginn annar f).61Og yðar hjörtu tilheyri Drottni vorum Guði algjörlega, að þér gangið eftir hans setningum, og haldið hans boðorð eins og nú á þessum degi.
62Og konungurinn og allur Ísrael færðu Drottni fórnir.63Og Salómon offraði þakkarfórn sem hann fórnfærði Drottni, 22 þúsundum nauta, og hundrað og 20 þúsundum sauða, og þannig vígði konungurinn og allir Ísraelssynir, hús Drottins.64Á sama degi helgaði konungurinn forgarðinn fyrir framan Drottins hús; því þar offraði hann brennifórn og matfórn og feiti brennifórnarinnar; því eiraltarið frammi fyrir Drottni, var of lítið til þess að það gæti tekið brennifórnina, matfórnina og feiti þakkarfórnarinnar.65Og Salómon hélt á sama tíma hátíð og allur Ísrael með honum, mikill söfnuður, frá Hemat til Egyptalandslækjar, fyrir Drottni vorum Guði, í sjö og sjö daga, 14 daga.66Þann áttunda dag lét hann fólkið fara frá sér, og þeir blessuðu kónginn, og fóru burt til sinna tjaldbúða, glaðir og með góðu geði, af öllu því góða, sem Drottinn hafði auðsýnt Davíð sínum þjón, og Ísrael sínu fólki.

V. 1. Sbr. 2. Kron. 5,2. V. 6. a. Ex. 26,33.34. V. 9. Ex. 25,16.21. 2 Kron. 5,10. Ebr. 9,4. V. 11. b. Ex. 40,34. Núm. 9,15. 2 Kron. 5,14. 7,1. V. 12. c. 2 Kron. 6,1. Ex. 20,21. Devt. 4,11. V. 13. 2 Sam. 6,18. V. 22. 2 Kron. 6,12. V. 27. Esa. 66,1. Postgb. 7,48. 17,24. V. 29. a. Devt. 12,5.11. 1 Kóng. 9,3. 2 Kóng. 21,4. V. 31. 2 Kron. 6,22. Ex. 22,8.11. V. 32. Devt. 25,1. V. 39. b. 1 Sam. 16,7. Sálm. 7,10. V. 43. a. Esa. 56,7. V. 46. b. Orðskv. 20,9. Préd. 7,20. Róm. 3,23. 1 Jóh. 1,8. V. 47. c. Sálm. 106,6. Dan. 9,5. 2 Kron. 6,37. V. 51. d. Devt. 4,20. V. 56. e. Jóhs. 21,45. 23,14. V. 60. f. Devt. 4,35.39. 32,39.