Spámaðurinn kvartar fyrir Guði yfir óguðlegu athæfi Gyðinga, Guð svarar, að hann vilji senda Kaldea til að hegna þeim; spámaðurinn biður Gyðingum vægðar, og að yfirgangi Kaldea verði aftrað.

1Þetta er sá spádómur, sem opinberaður var spámanninum Habakuk.
2Hvörsu lengi skal eg kalla, Drottinn? og þú heyrir þó ekki; hve lengi skal eg kalla til þín um hjálp móti ofríkinu?? og þú hjálpar þó ekki.3Hví lætur þú mig sjá þetta hið illa athæfi? hví viltu sjá á slíka hörmung? Kúgun og ofríki standa fyrir augum mér; þráttanir ganga, og deilur upp rísa.4Þess vegna verður lögmálið kraftlaust, og mál manna verða ekki dæmd eftir sannindum; af því hinn óguðlegi situr um hinn ráðvanda, fyrir þá sök koma fram rangsnúnir dómar.
5Rennið augum til þjóðanna, og litist um! Undrist og skelfist! því á yðar dögum vil eg þann atburð láta fram koma, sem þér eigi munduð trúa, þó yður væri sagður.6Því sjáið, eg vil reisa upp Kaldea, grimma þjóð og ofstopafulla, sem fara um víða veröld til þess að leggja undir sig þá bústaði, sem þeir eiga ekki.7Þeir eru hræðilegir og ógurlegir; þeir skeyta ekki réttindum eða dómsatkvæðum.8Hestar þeirra eru frárri en pardusdýr, og skjótari (skyggnari) en úlfar á kvöldi, og riddarar þeirra hleypa þeim hermannlega; riddarar þeirra koma langt að, fljúgandi sem örn á hræ.9Allir koma þeir til að veita mönnum yfirgang, (því) hugir þeirra standa til austurlanda; þeir raka saman herteknum mönnum, eins og sandi:10þeir hræða konungana og spotta landshöfðingjana; þeir hlæja að öllum víggirtum borgum, hleypa upp jarðhryggjum, og taka þær.11Þá vex þeim hugur, svo þeir fara oflangt fram, og verða sakfallnir; svo fer hvörjum, sem treystir á mátt sinn og megin.
12Ertú ekki, Drottinn, frá öndverðu minn Guð, minn hinn heilagi? Vér munum eigi með öllu undir lok líða, Drottinn, þú hefir sett hann (Babelskonung) til að refsa; þú, vort hellubjarg, hefir ætlað hann oss til hegningar.13Þín augu eru ofhrein til þess, að þau líti á hið vonda; þú getur eigi horft á eymdina. Hví skyldir þú mega líta svikarana? hví skyldir þú þegja, þegar hinn óguðlegi uppsvelgir sér ráðvandari mann?14Hví skyldir þú láta breyta við mennina, eins og við sjávarfiska, eins og við þær skepnur, sem engan lávarð eiga?15Babelskonungur dregur alla menn upp á öngli sínum, sviptir þeim í vörpu sína, og safnar þeim í net sitt; og yfir því gleðst hann og fagnar.16Þess vegna færir hann vörpu sinni fórnir, og reykelsi neti sínu; því með þessum veiðarfærum hefir hann aflað sér góðs hlutar og ríklegs matar.17Á hann að tæma vörpu sína til þess að drepa menn án afláts og vægðarlaust?