Esekíel bendir með hárskurði sínum til ýmsra hörmunga, sem yfir Gyðinga mundu koma, 1–4; skýrir með berum orðum, það sem áður var sagt undir rós, 5–17.

1Þú mannsins son, tak hvassan kníf, svo beittan sem járnkníf, og lát hann ganga um þitt höfuð og vanga; tak síðan metaskál og skipt hárinu í sundur:2einn þriðjunginn skaltu í eldi brenna í miðri borginni, að liðnum umsátursdögunum; annan þriðjunginn skaltu saxa í smátt með knífnum; en dreif seinasta þriðjunginum út í veðrið, og enn vil eg ofsækja þá með brugðnu sverði.3Þó skaltu þar af taka fáein hár, og binda þau í kápulaf þitt;4en aftur skaltu taka nokkur af þessum, og kasta á eldinn og brenna þau upp; og skal þaðan eldur koma yfir allt Ísraels hús.
5Þannig skal fara fyrir Jerúsalem, segir Drottinn alvaldur; eg hefi sett hana meðal heiðingjanna, og ýmiss lönd í kringum hana,6en hún hefir sett sig upp á móti mínum skipunum með meira guðleysi en heiðingjarnir, og móti mínum boðorðum meir en löndin, sem umhverfis hana eru; því þeir (Jerúsalemsmenn) hafa hafnað mínum skipunum, og ekki breytt eftir mínum boðorðum.7Þess vegna, svo segir Drottinn alvaldur, fyrst að þér hafið verið óstýrilátari en heiðingjarnir, sem búa umhverfis í kring um yður, og eigi haldið mín boðorð, né lifað eftir mínu lögmáli, og jafnvel ekki fylgt þeim lögum a), sem heiðingjarnir umhverfis yður hafa:8þá skal eg líka, segir Drottinn alvaldur, rísa í móti þér, og láta réttlætisdóminn yfir þig ganga í augsýn heiðingjanna,9og gjöra þér það, sem eg aldrei hefi áður gjört, og mun ekki hér eftir gjöra, sökum þíns svívirðilega athæfis.10Þess vegna skulu í þér feðurnir eta sín börn, og börnin feður sína; eg skal láta réttlætisdóminn yfir þig ganga, og dreifa leifum þínum í allar áttir.11Svo sannarlega sem eg lifi, segir Drottinn alvaldur, fyrir það að þú hefir saurgað minn helgidóm með öllum þínum ódæmum og öllum þínum svívirðingum, þá vil eg einnig venda burt augum mínum, ekki aumkva þig og ekki vægja þér.12Þriðjungurinn af þér skal deyja af drepsótt og verða hungurmorða í þér miðri, annar þriðjungurinn skal fyrir sverði falla umhverfis þig, og síðasta þriðjunginum skal eg stökkva í allar áttir, og ofsækja hann með brugðnu sverði.13Mín reiði skal koma niður á þeim, eg skal láta mína heift hvíla yfir þeim, og eg skal leita mér þar í hugsvölunar; þeir skulu þá sanna, að eg Drottinn hefi talað þetta í minni vandlætingu, þegar eg næ að svala minni heift á þeim.14Eg skal gjöra þig að auðn, að athlægi þjóðanna, sem búa í kring um þig, í augum allra sem ganga framhjá þér.15Þú skalt verða að athlægi og háðung, að viðbjóð og skelfingu þeim þjóðum, sem umhverfis þig búa, þegar eg í reiði og heift læt réttlætisdóminn yfir þig ganga með heiftarinnar þungu refsingu, (eg Drottinn hefi talað það),16þegar eg hleypi á yður hungursins skæðu og eyðileggjandi örvum, og sendi þær yður til tjóns, þegar eg magna hungrið meðal yðar og læt verða matarlaust hjá yður;17já, hungursneyð og skæða varga skal eg senda í móti yður, til að gjöra yður barnlausa; drepsótt og blóðsúthelling skal í þér geysa; og eg skal hafa sverðið á lofti yfir þér. Eg Drottinn hefi talað það.

V. 7. a. Náttúrulögmálinu.