Gestaboð hjá Hólofernes.

1Eftir þetta skipaði hann að fara með hana þangað, hvar hans silfurborðbúnaður var settur, og þar lét hann tilreiða henni máltíð, af sínum matvælum og drykk af sínu víni.2En Júdit sagði: Eg mun ei þar af eta, svo ekki verði hneyksli, heldur skal mér matreitt verða af því sem eg hefi haft með mér.3Og Hólofernes sagði við hana: En þegar það er þrotið, sem þú hefir meðferðis, hvaðan getum vér þá útvegað þér nokkuð þessháttar? því enginn er hjá oss af þinni þjóð.4Og Júdit sagði við hann: svo sannarlega sem minn herra lifir, þín þerna mun ei hafa lokið því sem hún hefir meðferðis, fyrr en Herrann framkvæmir fyrir mína hönd, það sem hann hefir ályktað.5Og Hólofernis þénarar fóru með hana í tjaldið, og hún svaf til miðnættis, og fór á fætur þegar komið var að morgunvakt.6Og hún sendi til Hólofernes og sagði: minn herra bjóði, að þín þerna fái að ganga út til bænagjörðar!7Og Hólofernes bauð lífvökturunum að hindra hana ekki. Og hún var í herbúðunum í þrjá daga, og gekk á næturnar út í Betylúudal, og baðaði sig í lind hjá herbúðunum.8Og sem hún sté upp (úr lindinni) bað hún Drottin, Ísraels Guð, að greiða sér veg sínu fólki til fremdar.9Og eftir að hún, hrein orðin, kom til baka, var hún í tjaldinu þangað til menn, um kvöldið, báru henni hennar mat.
10Og það skeði á fjórða degi, að Hólofernes hélt veislu þjónum sínum einum, og bauð engum í samkvæmið sem sýslan höfðu.11Og hann sagði við Bagóas gelding, sem var settur yfir allt hans: far þú og yfirtala þá hebresku konu, sem hjá þér er, að hún komi til vor, og eti og drekki með oss,12því sjá, það væri skömm fyrir oss, ef vér létum frá oss slíka konu, án þess að hafa við hana fengist, því ef vér samlögumst henni ekki, svo mun hún gjöra gys að oss.13Og Bagóas gekk frá Hólofernes og gekk inn til hennar og mælti: þessi fríða stúlka veigri sér ekki við, að koma til míns herra, til þess að fá sæmd fyrir hans augliti, og til að drekka vín með oss í fögnuði, og til að verða eins og aðrar dætur Assurssona, sem eru í Nebúkadnesars húsi!14Og Júdit svaraði honum: hvör er eg, að eg skyldi mótsegja mínum herra? Allt hvað honum þóknast vil eg, sem skjótast gjöra, og það skal vera mín gleði meðan eg lifi.15Og hún stóð upp og bjó sig í allt kvenskart. Og stofumey hennar gekk að, og breiddi út handa henni dúk frammi fyrir Hólofernes á jörðina, þann sem hún hafði fengið af Bagóas til hennar daglegu máltíðar, til þess hún lægi þar á meðan hún mataðist.16Og Júdit kom inn (í tjaldið) og lagðist niður; og hjarta Hólofernes varð frá sér numið sakir hennar, og hans sál ólgaði, og hann langaði mjög til að leggjast með henni; og hann hafði leitað tækifæris að glepja hana frá þeim degi sem hann hafði séð hana.17Og Hólofernes sagði við hana: drekk þú nú samt, og vertu glaðvær með oss!18Og Júdit mælti: eg skal drekka, herra, því nú þykir mér líf mitt göfuglegra heldur en nokkurn tíma (áður) frá minni fæðingu.19Og hún tók og át og drakk frammi fyrir honum, það sem hennar þerna hafði matreitt.20Og Hólofernes hafði gleði af henni og drakk mjög mikið vín, meira vín, en nokkurn einn dag áður, frá því hann fæddist.