Jason og Menelaus koma illu til leiðar.

1En sá áður nefndi Símon, sem sagt hafði til sjóðsins og svikið sitt föðurland, rægði Onias, eins og hann hefði sjálfur barið Helíodórus, og verið frumkvöðull illvirkisins.2Og hann dirfðist að nefna þennan borgarinnar velgjörara, sinna landsmanna fulltingismann, sem vandlætti fyrir lögmálið, mótstöðumann ríkisstjórnarinnar.3Þegar nú fjandskapurinn var orðinn svo mikill, að vinir Símons jafnvel myrtu menn,4þá hugleiddi Onias hvörsu hættulegt ósamþykkið væri, og æðigangur Appollonius, sem ól á vonsku Símons,5sá sem var höfuðsmaður í Neðra-Sýrlandi og Fönikiu, og fór til konungs, ekki til þess að ákæra landa sína, heldur hafandi í huga sameiginlegt og sérdeilislegt gagn alls fólksins.6Því hann sá það fyrir, að ef konungur skærist ekki hér í, mundi landið aldrei geta fengið frí, og Símon aldrei láta af sinni fásinnu.
7En er Selevkus var dáinn, og Antíókus auknefndur hinn göfgi, kominn til ríkis, leitaðist Jason við, bróðir Onias, að ná æðstaprestsembættinu,8því eitt sinn er hann átti tal við konung, hét hann honum 360 vættum silfurs, og af annarri inntekt, 80 vættum.9Auk þessa hét hann enn nú öðrum 150 vættum, ef sér yrði leyft af konungi að reisa (gymnasium) leikhús og drengjaskóla og veita Antíókíu mönnum borgarrétt, í Jerúsalem.10Þegar konungur hafði heitið þessu og hinn var búinn að fá tignina, vandi hann sveitunga sína skjótt á gríska siði.11Og kónganna mannkærlegu löggjafir, sem Jóhannes, faðir Evpolemus, hafði útvegað, sá sem fór sendiförina til Rómverja upp á vinskapinn og stríðssamband, þær aftók hann, og ónýtti það löglega stjórnarfórn, og innleiddi nýja siði, lögum gagnstæða.12Því gjarnsamlega byggði hann leikhús fyrir neðan kastalann, og lét þá göfugustu æskumenn brúka hatt (á höfði).
13Þannig fengu grískir siðir yfirhönd og menn hneigðust til háttsemi útlendra, sakir Jasons guðlausu og frekjufullu fásinnu, er æðsta presti var ósæmileg.14Svo prestarnir hirtu ei framar um að þjóna altarinu, heldur forsmáðu musterið og gleymdu fórnunum, og hlupu til að vera við þau ólöglegu skoðunarspil í leikhúsinu, þegar að hnötturinn a) kallaði þá.15Og möttu einkis sæmd feðranna, en gjörðu þess meira af enni grísku frægð.16Af þessu komust þeir í ærið miklar kröggur, og einmitt þeir, eftir hvörra siðum þeir stældu, og hvörjum þeir vildu verða líkir, þeir hinir sömu urðu þeirra fjandmenn og hegnendur;17því að það er ekki hégómi að forsmá guðleg lög, heldur sýnir það sig seinna.
18En er kappleikar, sem tíðkuðust í Týrus hvört fimmta ár, skyldu þar haldast, í kóngsins nærveru,19gjörði sá vondi Jason menn frá Jerúsalem, sem voru úr Antíokíu, til að flytja þangað 3 hundruð mörk silfurs, í fórn handa Herkúles; samt beiddu þeir ekki um, sem með þetta fóru, að það yrði brúkað til fórnar, því það sómdi ekki, heldur að það tækist til annarrar brúkunar.20Hann sendi (brúkaði) þá þetta, vegna hans sem sendi, til fórnar handa Herkúles, en vegna hinna sem með það komu, til herskipagjörðar.
21En sem Apolloníus, Menestevsson, var sendur til Egyptalands, sakir þess að Tólómeus Filometor tók þar þá við ríki, varð Antíokus þess áskynja, að hann var orðinn ótrúr hans efnum, og hugsaði um það að sér yrði óhult, hvörs vegna hann fór til Joppe, og kom til Jerúsalem.22Dýrðlega var við honum tekið af Jason og borginni, og hann kom (í borgina) með blysum og fagnaðarópi; síðan fór hann herför til Fönikíu.
23Að þremur árum liðnum sendi Jason Menelaus, bróður Símons, sem fyrr er getið, til að færa honum peninga, og til að minna hann á einhvör nauðsynjamálefni.24Þessi kom sér í mjúkinn hjá konunginum, með því að vegsama hans veldi, og náði svo því æðstaprestsembætti, því hann bauð 3 hundruð vættir silfurs meir en Jason (fyrir það).25Kom svo, eftir að hann hafði fengið konunglegt boðorð, aftur; en hann hafði enga, æðsta presti verðuga, kosti, heldur því meir af ofsa grimmdarfulls týranna og villudýrsheift.26Þannig var Jason, sem hafði bolað út bróður sinn, steypt af öðrum, og hann var sem útlagi rekinn burt í Ammonítaland.27Menelaus fékk nú að sönnu tignina; en þá peninga, sem hann hafði lofað kónginum, galt hann ekki, þó að Sostratus, höfuðsmaður kastalans, krefði hann þeirra.28Því þessi átti að kalla saman tekjurnar; hvörs vegna kóngur stefndi báðum fyrir sig.29Menelaus lét bróður sinn Lysimakus takast á hendur æðstaprestsembættið fyrir sig, en Sostratus fékk fyrir sig Krates höfuðsmann kypriskra.
30Meðan þessu fór fram, vildi það til að þeir í Tarsus og Mallus gjörðu uppreisn, sakir þess þeir höfðu verið gefnir hjákonu kóngsins, sem hét Antíokis.31Kóngur brá nú skjótt við að jafna þetta mál, og lét eftir vera sem höfuðsmann einn af þeim æðstu höfðingjum, Andronikus (að nafni).32Þá hugði Menelaus að hann hefði fengið hentugt tækifæri, og hnuplaði nokkrum gullgripum musterisins, sem hann gaf Androníkus; en nokkra seldi hann í Týrus og kringumliggjandi staði.33Þetta spurði Onías með vissu og kærði það, því hann var flúinn í griðastað til Dafne, sem liggur hjá Antíokiu.34Þess vegna fékk Menelaus heimuglega Androníkus í tal, og krafðist af honum að handtaka a) Onías. Hann kom þá til Onías, og þá þessi var með svikum yfirtalaður, gaf hann honum með eiði sína hönd, og þó hann væri grunaður, fékk hann svo talið um fyrir honum, að hann fór úr sínum griðastað b), sem hann strax lokaði, og bar enga blygðun fyrir því réttvíslega.35Sakir þess reiddust, ei aðeins Gyðingar, heldur margir meðal annarra þjóða, og undu illa því rangláta morði þessa manns.36Og þá kóngurinn kom til baka úr Kilikíuhéruðum, sögðu Gyðingar í borginni honum frá, og líka létu Grikkjar í ljósi að þeir tækju upp þykkjuna með þeim fyrir það, að Onías hefði verið myrtur móti öllum rétti.37Antíokus varð nú hryggur af hjarta, snerist til meðaumkunar og úthellti tárum, sakir hygginda þessa andaða og miklu siðsemi,38og logandi af bræði lét hann óðar fletta purpuranum af Androníkus, og rífa af honum klæðin, og leiða svo um allan staðinn, og drepa morðingjann á þeim sama stað, hvar (á hvörjum) hann hafði haft í frammi sitt guðleysi við Onias, og þannig galt Drottinn honum maklega hegningu.
39Þegar enn framar hér að auki margt musterisrán viðgekkst í staðnum af hendi Lysimakus, með samþykki Menelaus, og þetta barst út, gjörði fólkið samtök móti Lysimakus, þegar búið var að koma undan mörgum dýrgripum úr gulli.40Þegar fólkið gjörði nú uppreisn og fylltist bræði, lét Lysimakus 3 þúsund manns vopnast og beitti ranglátu ofbeldi (handalögmáli), en fyrir flokknum var Týrannus nokkur, maður aldraður, en engu betri en hinn.41En sem fólkið sá upphaf þessa ofbeldis af Lysimakuss hendi, gripu sumir steina, aðrir digra staura, og nokkrir tóku duftið sem þar lá, köstuðu öllu þessu hvörju með öðru á Lysimaks menn.42Með þessu særðu þeir marga af þeim, og marga felldu þeir, og alla hröktu þeir á flótta, en musterisræningjann sjálfan drápu þeir hjá féhirslunni.
43En um þetta var ransókn haldin gegn Menelaus.44Þegar kóngurinn kom til Týrus, frambáru þrír menn, sendir af öldungunum, ákæru móti honum.45Þegar Menelaus var nú þegar orðinn sannur að sök, lofar hann Tólómeus syni Dorymens, miklum peningum til þess að sefa kónginn.46Þá tók Tólómeus kónginn með sér inn í forbyrgi a) nokkuð, sem vildi hann láta kóng kæla sig þar, og sneri sinni hans þar.47Og svo fríkenndi hann Menelaus, fyrir ákærunni, hann sem var þó sekur í allri vonsku, en dæmdi til dauða þá veslings menn, sem hefðu verið dæmdir sýknsaka þó þeir hefðu átt að færa mál sitt fyrir Skýtum b).48Strax urðu þeir þannig að þola rangláta hegningu, sem tekið höfðu málstað borgarinnar og fólksins og þeirra helgu áhalda.49Sakir þess gáfu líka Tyríumenn hinum sömu allan kostnaðinn til viðhafnar mikillar útfarar og tóku upp þykkjuna þeirra vegna, sem maklegt var.50En Menelaus sat í tigninni og átti það að þakka ágirnd maktarmannanna, og varð hann æ verri og verri, og kom ætíð fram sem mótstöðumaður sinna meðborgara.

V. 14. a. Hnattkast hefir verið merki til leiksins byrjunar. V. 34. a. Aðr: að drepa. b. Griðastaðnum líklega. Aðrir leggja út eftir öðrum lestri: hvörn hann þá strax drap. V. 46. a. Eiginl: gangrúm með þaki yfir, sem hvíldi á stólpum. V. 47. b. Sama sem villtum þjóðum.