Esekíel fyrirmyndar eyðileggingu Jerúsalemsborgar, 1–5; lýsir þessari hörmung berara með sorgarlátum, 6–22; herför Nebúkadnesars móti Jerúsalem, 23–29; spáir, að Sedekías kóngi muni steypt verða frá völdum, 29–32; að Babels kóngur mundi og eyðileggja Ammoníta, 33–37.

1Drottinn talaði til mín svolátandi orðum:2þú mannsins son, horfðu í suðurátt, og lát orð þín streyma á móti suðri og spá fyrir skóginum, sem er á suðurlandinu,3og seg til skógarins í suðrinu: heyr orð Drottins! Svo segir Drottinn alvaldur: sjá, eg kveiki eld í þér, sem eyða skal hvörju grænu tré og þurrum viði, sem í þér er; sá megni eldslogi skal ekki slokkna, heldur skal fyrir honum allur jarðvegur brenna frá suðri til norðurs.4Allir menn skulu sjá, að eg Drottinn hefi uppkveikt hann, og hann skal eigi slökktur verða.5Þá sagði eg: æ, Drottinn alvaldi, þeir munu segja um mig: hann talar ekki nema í ráðgátum.
6Þá talaði Drottinn til mín svolátandi orðum:7Þú mannsins son: snú þér í móti Jerúsalemsborg, lát orð þín streyma gegn helgidómsstaðnum b), og spá fyrir Ísraelslandi,8og seg til Ísraelslands: Svo segir Drottinn: sjá eg fer á móti þér, eg vil draga mitt sverð úr slíðrum, og afmá hinn ráðvanda, sem í þér býr, ásamt með þeim óguðlega;9og með því eg vil afmá hinn ráðvanda, sem í þér býr, ásamt með þeim óguðlega, þá skal sverð mitt hlaupa úr slíðrunum á alla lifandi menn frá suðri til norðurs;10og allir menn skulu sanna, að eg Drottinn hefi dregið mitt sverð úr slíðrum, og það skal ekki þangað aftur hverfa.11En þú, mannsins son, styn þungan, svo að mjaðmir þínar engist saman, styn beisklega í augsýn þeirra;12og þegar þeir spyrja þig: af hvörju stynur þú? þá svara: af frétt nokkurri, hún c) mun koma, svo að öll hjörtu munu blotna, allar hendur fallast, allur dugur dofna og öll kné iða sem vatn; sjá, hún kemur, hún sannast, segir Drottinn alvaldur.13Ennfremur sagði Drottinn til mín:14þú mannsins son, spá og seg: Svo segir hinn Alvaldi: seg, sverðið, sverðið! það er brýnt, það er fægt;15það er brýnt til þess að bíta, og fægt til þess að blika. O, veldissproti, þú sproti míns sonar! sverðið vægir öngvu tré;16því hefir verið komið í burtu til fægingar, svo það verði nú þegar knefað; sverðið er brýnt og fægt, svo það verði selt vegandanum í hendur.17Hljóða þú og æp, mannsins son! það er ætlað til höfuðs mínu fólki og öllum Ísraelshöfðingjum; þeir ásamt með mínu fólki eru undir sverðið seldir; þar fyrir skaltu berja þér á brjóst.18Bit sverðsins er reynt! Hvað? Mundi það einnig vinna á veldissprotann? segir Drottinn alvaldur.19Spá þú, mannsins son! klappa þú lof í lófa, tvíbregð þú sverðinu í þriðja sinni! fyrir því skal múgurinn, fyrir því skulu höfðingjarnir falla; það skal heimsækja þá í herbergjum þeirra.20Til þess að allur hugur doðni og mannfallið verði sem mest, hefi eg sett það ógurlega sverð við öll borgarhlið þeirra. Hæ, það er gjört til þess að blika og brýnt til þess að brytja!21Vertu til taks (þú sverð)! veg þú til hægri handar! snú þér við! veg til hinnar vinstri, og hvört sem eggjar horfa!22Nú skal eg einnig klappa lof í lófa, og svala heift minni; eg Drottinn hefi talað það.
23Ennfremur talaði Drottinn til mín svolátandi orðum:24þú mannsins son, gjör þér tvo vegu, er sverð Babelskonungs geti farið, og skulu báðir liggja frá sama landi; marka svo einn stað, og skaltu marka hann á vegamótum, þar sem vegir skilja til borgarinnar;25gjör þér einn veg, sem sverðið geti farið til Rabba í landi Ammoníta, en annan til Júdalands, hvar sú trausta borg Jerúsalem er.26Á þessum vegamótum, þar sem báðar leiðir skilja, nemur Babelskonungur staðar, til þess að láta spá fyrir sér: hann hristir örvarnar, aðspyr húsgoðin, skoðar lifrina.27Í sinni hægri hendi heldur hann á spáöxinni, sem vísar honum til Jerúsalemsborgar, til þess að reisa þar víghrúta til að brjóta með hlið á borgina, hrinda upp herópi, færa víghrútana að borgarhliðunum, hleypa upp jarðhryggjum og hlaða víggarða.28Þeim mun sýnast spáin lygileg, en menn munu eiðfesta hana; mun hann þá reka minni til sáttmálarofsins, og ætla sér tækt að vinna borgina.29Þar fyrir segir Drottinn alvaldur: með því að þér látið aðra reka minni til ótryggðar yðvarrar—því svo eru yðar syndir í öllu yðar athæfi,—fyrst að þér hafið slíkt orð á yður, þá skuluð þér í hershendur falla.
30Þú dyggðarlausi og óguðlegi Ísraels höfðingi a)! sá dagur er fyrir hendi, þá misgjörð þín skal þér að tjóni verða.31Svo segir Drottinn alvaldur: legg af þér höfuðmoturinn, tak ofan kórónuna. Svo skal ekki lengur til ganga; eg upphef það lága, og niðurlægi það háva;32og læt eina eyðilegginguna koma á fætur annarri; það sem nú er, skal ekki framar vera; þangað til sá kemur, hvörjum dómvaldið tilheyrir, honum vil eg það gefa.
33Spá þú, mannsins son, og seg: Svo segir Drottinn alvaldur um Ammonítana og háðsyrði þeirra: sverðið, skaltu segja, sverðið er dregið úr slíðrum til að slá í hel, það er nógu fagurt til að blika:34svo að, á meðan þú lætur ginna þig með hégómasýnum og lygispádómum, skaltu verða lagður í valinn hjá þeim helslegnu illgjörðamönnum, hvörra hegningardagur aðkom, þá misgjörðir þeirra skyldu þeim að tjóni verða.35Að sönnu mun eg láta sverðið aftur slíðra, en þig skal eg dæma á þeim stað, sem þú ert fæddur, og í því landi, sem þú ert upprunninn.36Eg skal útausa minni reiði yfir þig, og blása á þig mínum heiftarloga, og selja þig í hendur skaðræðismanna, sem leiknir eru í að eyðileggja.37Þú skalt verða eldsmatur, þínu blóði skal í þínu eigin landi úthellt verða, og minning þín skal verða afmáð; því eg Drottinn hefi sagt það.

V. 7. b. Musterinu. V. 12. c. Hersagan. V. 30. a. Sedekías.