Mikkas boðar tilkomu Drottins til að hegna Ísraelsmönnum og Júdaríkismönnum fyrir þeirra hjáguðadýrkun; spáir Ísraelsríki gjörsamlegri eyðileggingu, og Júdaríki stórum óförum.

1Þetta er það orð, er Drottinn talaði til Mikkass frá Maresaborg, á dögum Jótams, Akass og Esekíass, Júdaríkis konunga, hvörju hann spáði gegn Samaríu og Jerúsalemsborg.2Heyrið, allir lýðir! Gef gaum að, þú land og allt sem í þér er! Drottinn alvaldur mun sem vottur framganga yðar á meðal, hinn Alvaldi af sínu heilaga musteri.3Því sjáið! Drottinn mun út fara af sínum bústað, ofan stíga og ganga eftir hæðum jarðarinnar.4Fjöllin munu bráðna undan honum, sem vax fyrir eldi, og dalirnir klofna, eins og vatn er steypist ofan hallanda;5og allt þetta fyrir sakir misgjörða Jakobs niðja, og fyrir synda sakir Ísraelsmanna. Hvör er þá skuld í misgjörð Jakobsniðja? Er það ekki Samaría? Og hvör er valdur að blóthörgum Júdaríkismanna? Er það ekki Jerúsalemsborg?
6Eg vil fara með Samaríu, eins og farið er með grýttan akur, hvar menn ætla að planta víngarða: eg vil velta steinum hennar ofan í dalinn, og láta sjást í beran grundvöll hennar.7Öll hennar skurðgoð skulu í sundur brotin verða, og allur hennar blótauður í eldi brenndur; eg skal í eyði leggja öll hennar goðalíkneski, því hún hefir saman dregið þenna auð af blótgjöfum og hann skal að blótgjöfum aftur verða.8Vegna þessa hlýt eg að harma og kveina; eg hlýt að ganga sem hertekinn og klæðlaus; eg verð að telja mér harmatölur sem gullrakkar, og bera fram kveinstafi, sem strútsfuglinn.9Því hennar sár er banvænt, og nær til Júdaríkis, og allt að borgarhliðum míns fólks, til Jerúsalemsborgar.10Látið ekki verða vart við þetta í Gatsborg; Grátið ekki hátt! Hyl þig með ösku í Betaffra.11Gangið fram blygðunarlega naktar, þér konur, sem búið í Saffírsborg! Farið ekki út, þér konur, sem búið í Sanansborg! því Beteselsborg er í angist, og fær ekkert herbergi veitt yður.12Marotsborg er kvíðandi um sinn hag; því ógæfan er niður stigin frá Drottni allt að hliðum Jerúsalemsborgar.13Beit skjótum hestum fyrir vagninn, þú innbúi Lakisborgar! í þeirri borg upp kom fyrst synd Síonsdóttur, því hjá þér fundust misgjörðir Ísraelsmanna.14Láttu af að gjöra tilkall til að eignast Gatsborg. Aksíbsborg skal að öngvu haldi koma Ísraelskonungum.15Einnig yður, innbúum Maresaborgar, vil eg fá annan eiganda. Höfðingjar Ísraelsmanna skulu flýja í Adúllamshellir.16Raka þig, gjör þig sköllótta, vegna þinna ástfólgnu barna; gjör þig alla vega hárlausa, sem örn, því þau eru tekin frá þér og flutt burt í útlegð.