Reiðidómur Guðs yfir óvinum Guðs safnaðar. Hegning Edomsmanna.

1Gangið nær, þér þjóðir, að þér megið heyra! Gefið gaum, þér lýðir! Heyri það jörðin, og hvað sem á henni er, heimskringlan, og allt sem á henni sprettur!2Drottinn er reiður öllum heiðingjum, og gramur öllum herflokkum þeirra; hann hefir lýst yfir þeim böli og banni, og ætlað þá til slátrunar:3hinum helslegnu mönnum þeirra mun verða burtkastað, hrævadaun upp stíga af líkum þeirra, og fjöllin renna sundur af blóði þeirra.4Allur himinsins her hjaðnar, og himinninn vefst saman eins og bókfell; allur hans her hrynur niður, eins og laufblað fellur af vínviði, og visinn ávöxtur af fíkjutré.5Því mitt sverð á himnum er blóðþyrst: það mun ofan fara yfir Edomsland, til hegningar þeirri þjóð, sem eg hefi lýst bölvan yfir.6Sverð Drottins er alblóðugt, löðrandi af feiti, af blóði alilambanna og geithafranna, af nýrnamör hrútanna; því Drottinn efnar til fórnarveislu í Bosraborg, og til stórkostlegrar slátursfórnar í Edomslandi.7Ásamt þeim skulu úrar, ungneyti og sterkir uxar ofan ganga (á blóðvöllinn): Land þeirra (Edomsmanna) skal fljóta í blóðinu, og jarðvegurinn löðra af feitinni;8því nú er kominn hefndardagur Drottins, endurgjalds árið til að reka þess réttar, er Síonsborg hefir verið misboðið.9Lækir Bosraborgar skulu verða að biki, og jarðvegur hennar að brennusteini; land hennar skal verða að biki brennanda,10sem hvörki skal slokkna nætur né daga: til eilífðar skal þess reykur upp stíga; frá einum mannsaldri til annars skal landið liggja í eyði, og þar skal engi um fara um alla eilífð.11Sarpgæsir og íglar skulu eignast landið, náttuglur og hrafnar skulu búa þar. Landið a) skal verða gjöreytt og með öllu óbyggilegt.12Af hinum eðalbornu mönnum landsins skal engi sá eftir verða, er kjósa megi til konungdómsins, því allir höfðingjar landsins munu undir lok líða.13Í höllum landsins munu þyrnar upp vaxa, og klungur og þistlar í þess víggirtu borgum; landið skal verða að drekabæli og strútsunga inni;14þar skulu mætast urðarkettir og gullúlfar, og skógartröll kallast á: grýlur skulu búa þar, og finna sér þar hæli.15Stökkormurinn skal hafa þar bæli sitt, leggja þar eggjum, klekja út ungunum, og safna þeim í skjól við sig; og gleður skulu flykkjast þar hvör til annarrar.16Leitið í bók Drottins, og lesið: Ekkert af þessum (dýrum) skal vanta: ekkert þeirra skal annars sakna; því Drottins atkvæði hefir svo tilskipað, og hans máttur hefir stefnt þeim öllum þangað;17Hann hefir sjálfur kastað hlutum fyrir þau, og hans hönd skiptir landinu meðal þeirra eftir mæliþræði b); til eilífðar skulu þau eignast það, og búa þar um aldur og ævi.

V. 4. Með þessum orðatiltækjum afmálast hin óttalegasta eyðilegging. V. 6. Bosraborg, höfuðborgin í Edomslandi; alilömb, geithafrar, hrútar, þ. e. hinir óæðri menn í landinu. V. 7. Uxar, (villiuxar), o.s.fl., merkja höfðingjana. V. 11. a. Hebr., hann mun spenna yfir það mæliþráð auðnarinnar og steinlóð óbyggilegleikans. V. 15. Gleða, hræfugl af fálkakyni (kallast glenta í félagsrit. 13,18). V. 16. Bók Drottins, þ. e. í þessari spádómsbók. V. 17. b. Þ. e. eftir réttri tiltölu.