Spámaðurinn í Betel.

1Og sjá! guðsmaður nokkur kom frá Júda eftir orði Drottins til Betel, meðan Jeróbóam stóð við altarið til að brenna reykelsi.2Og hann hrópaði mót altarinu eftir orði Drottins, og mælti: altari! altari! svo segir Drottinn: sjá! sonur mun fæðast húsi Davíðs, Jósía er hans nafn, hann mun á þér fórnfæra hæðanna prestum, sem á þér tendra reykelsi, og mannabeinum mun á þér brennt verða.3Og hann gaf teikn á sama degi, og mælti: það er merkið að Drottinn hafi talað: sjá, altarið mun rifna, og askan á því niður hristast.4En sem kóngur heyrði orð guðsmannsins, er hann talaði með háum róm gegn altarinu í Betel, rétti Jeróbóam sína hönd út frá altarinu og mælti: grípið hann! en hans hönd, sem hann rétti út á móti honum, visnaði, og hann gat ekki tekið hana að sér aftur.5Og altarið klofnaði og askan hrundi niður af altarinu, eftir því teikni sem guðsmaðurinn hafði gefið samkvæmt orði Guðs.6Þá tók kóngur til orða og mælti við þennan guðsmann: grátbæn þú Drottin þinn Guð og bið fyrir mér, að mín hönd verði aftur heil. Þá grátbændi guðsmaðurinn Drottin og kóngsins hönd varð aftur heil, og eins og áður.7Og kóngur sagði við þennan guðsmann: kom þú heim með mér og endurnær þig, og eg mun gefa þér gáfu.8En guðsmaðurinn sagði við kónginn: þó þú gæfir mér þitt hálfa hús f), svo mundi eg ei þangað ganga með þér, og eg mun ekki eta brauð, né drekka vatn á þessum stað.9Því svo er mér boðið af orði Drottins sem sagði: þú skalt ekkert brauð eta og ekkert vatn drekka, og þú skalt ekki fara sama veg til baka, sem þú nú fórst.10Og hann fór af stað, aðra leið, og ekki þann sama veg, er hann hafði komið til Betel.
11En gamall spámaður bjó í Betel, og sonur hans kom til hans, og sagði honum frá öllu því sem guðsmaðurinn hafði gjört í Betel á þessum degi; og orð þau er hann hafði talað við kónginn sögðu þeir (synirnir) föður sínum.12Faðir þeirra mælti við þá: hvaða veg fór hann? synirnir vissu hvaða veg sá guðsmaður fór sem komið hafði úr Júda(landi).13Og hann sagði við syni sína: söðlið minn asna! og þeir söðluðu asnann fyrir hann og hann settist á bak.14Og hann fór eftir þessum guðsmanni, og fann hann sitjandi undir einni eik og sagði til hans: ert þú sá guðsmaður sem kom úr Júda(landi)? og hann svaraði: eg em.15Og hann mælti til hans: kom heim með mér og et brauð!16Og hann mælti: eg get ekki snúið til baka með þér og komið með þér, og mun ekkert brauð eta og ekkert vatn drekka með þér á þessum stað.17Því til mín er af Drottins orði sagt: þú skalt ekkert brauð eta, og ekkert vatn drekka þar, og þú skalt ekki fara sama veginn til baka sem þú komst.18Hinn sagði þá við hann: eg er líka spámaður sem þú, og engill hefur talað við mig, eftir orði Drottins, og sagt: farðu með hann til baka með þér í þitt hús, að hann eti brauð og drekki vatn; en hann laug að honum.19Þá fór hann heim með honum og át brauð í hans húsi og drakk vatn.20En er þeir sátu til borðs, kom Drottins orð til spámannsins sem hafði snúið hinum aftur,21og hann kallaði til þess guðsmanns sem kominn var úr Júdalandi og sagði: svo segir Drottinn: fyrst þú þverskallaðist við Drottins skipun, og ekki hélst það boðorð sem Drottinn þinn Guð gaf þér,22og snerir við, og ást brauð og drakkst vatn á þeim stað, sem hann tiltók og sagði: þú skalt ekkert brauð eta og ekkert vatn drekka þar; þá skal þinn líkami ekki koma í þinna feðra gröf!23En eftir að hann hafði etið og drukkið, söðlaði hann sinn asna, handa þeim spámanni, er hann hafði aftur snúið.24Og hinn fór svo af stað; en ljón a) varð fyrir honum á veginum sem drap hann; og hans líkami lá þar á götunni og asninn stóð hjá, og ljónið stóð yfir líkinu;25og sjá! fólk sem fór um veginn sá líkið liggjandi á götunni, og ljónið standa hjá líkinu, og þeir komu og sögðu frá þessu í staðnum, hvar sá gamli spámaður bjó.26Þegar sá gamli spámaður, sem hafði snúið hinum aftur, heyrði þetta, sagði hann: það er sá guðsmaður sem var óhlýðinn Drottins skipun; því hefir Guð gefið hann ljóninu; það sundur reif hann og drap hann eftir Drottins orði, sem hann hafði til hans talað.27Og hann talaði til sona sinna og mælti: söðlið mér asna; og þeir söðluðu hann.28Svo lagði hann af stað og fann hans lík liggjandi á veginum og asninn og ljónið stóðu hjá líkinu. Ljónið hafði ekki etið líkamann og ekki rifið í sundur asnann.29Þá tók spámaðurinn upp lík þessa guðsmanns, og lagði það á asnann og flutti það til baka. Og sá gamli spámaður kom til staðarins til að gráta hann og jarða.30Og hann lagði hann í sína gröf og harmaði hann: (segjandi) æ! minn bróðir!
31En sem hann hafði jarðað hann, sagði hann við syni sína: þegar eg dey þá leggið mig í þessa gröf, í hvörri guðsmaðurinn er jarðaður; leggið mín bein hjá hans beinum!32Því það orð sem hann hrópaði, eftir Drottins orði móti altarinu í Betel og mót húsunum á hæðunum, sem eru í Samaríu stöðum, mun vissulega framkoma.
33Ekki sneri Jeróbóam sér eftir þenna atburð frá sínum vonda vegi; heldur setti aftur presta af óvöldu fólki b) á hæðirnar; hvörja sem honum sýndist kaus hann til, og þeir urðu prestar á hæðunum.34Og hann varð með þessu, orsök til Jeróbóams húss syndar, og til þess að það upprættist af jörðinni.

V. 2. Sbr. 2 Kóng. 23,16. V. 6. e. Ex. 8,8. Núm. 21,7. V. 8. f. Sbr. Núm. 22,18. V. 24. a. Kap. 20,36. V. 32. Sbr. 2 Kóng. 23,17.18. 1 Kóng. 16,24. V. 33. b. Sbr. Kap. 12,31. V. 34. Kap. 12,30. 14,16. 2 Kóng. 10,29.