Jósúa stefnir þing; hans áminning til fólksins.

1Löngum tíma eftir það að Drottinn hafði gefið Ísrael frið fyrir öllum þeirra óvinum allt í kring, og Jósúa var mjög hniginn á hinn efra aldur,2kallaði hann saman allan Ísraelslýð, öldungana, höfðingjana, dómendur og skrifara, og sagði til þeirra: gamall gjörist eg nú og aldurhniginn;3þér hafið sjálfir séð allt það sem Drottinn, yðar Guð hefir gjört öllum þessum heiðingjum yðar vegna, því Drottinn, yðar Guð, hefir barist fyrir yður.4Sjáið! með hlutkesti hefi eg úthlutað sérhvörri ættkvísl yðar til arfs þeim heiðingjum, sem enn eru eftir, og eins öllum þeim heiðingjum, sem eg hefi eytt, frá Jórdanará til Hafsins mikla, þar sem sólin gengur niður;5og Drottinn yðar Guð mun stökkva þeim undan yður, og útreka þá frá yður og þér skuluð fá land þeirra til eignar, eins og Drottinn, yðar Guð, hefir lofað yður6verið nú einhuga í því, að halda og gjöra allt það sem fyrirskrifað er í lögbók Mósis, svo þér skeikið ekki þarfrá til hægri né vinstri handar;7svo að þér samlagið yður ekki þeim þjóðum, sem eftir eru hjá yður, nefnið ekki Guði þeirra á nafn, sverjið ekki við þá, þjónið þeim ekki, og fallið ekki fram fyrir þeim,8heldur verið fastheldnir við Drottin yðar Guð, eins og þér hingað til hafið verið;9hann hefir líka rekið upp frá yður miklar og voldugar þjóðir, og hefir enginn getað veitt yður mótstöðu til þessa.10Þúsund þeirra skal fyrir einum yðar flóttaför fara, því Drottinn yðar Guð, berst fyrir yður, eins og hann hefir lofað yður.11Gætið þar fyrir vandlega yðar hugskots, svo að þér elskið Drottin yðar Guð.12En ef þér snúið yður frá honum, og aðhyllist þær þjóðir, sem enn eru eftir hjá yður, bindið tengdir við þær og blandist við þær, og þær við yður,13þá vitið fyrir víst, að Drottinn yðar Guð, mun ekki framar stökkva þessum þjóðum burt frá yður, heldur skulu þær verða yður að snöru og fótakefli, að hirtingarhrísi á yður og að þyrnum í yðar augum, þar til þér verðið afmáðir úr þessu góða landi, sem Drottinn, yðar Guð, hefir gefið yður.14Sjáið! senn geng eg veg allrar veraldar, en þér skuluð vita af öllu yðar hjarta, og allri yðar sálu, að ekkert hefir brugðist af öllum þeim fyrirheitum, sem Drottinn, yðar Guð, hefir gefið yður; öll eru þau uppfyllt, svo ekkert hefir ábrostið.15En eins og öll fyrirheit Drottins, yðar Guðs, hafa ræst á yður, svo mun Drottinn láta sínar hótanir á yður rætast, þar til hann hefir afmáð yður af þessu góða landi, sem Drottinn, yðar Guð, hefir gefið yður.16Ef þér rjúfið það sáttmál, sem Drottinn, yðar Guð, bauð yður að halda, farið og þjónið annarlegum guðum, og tilbiðjið þá, þá skal reiði Drottins upptendrast gegn yður, og yður skal skyndilega verða í burtu svipt úr þessu fagra landi, sem hann hefir gefið yður.