Esekíel afmálar yfirmenn Ísraelsfólks undir hirðara nafni, 1–16; yfirgang þeirra ríku, 17–22; einkahirðirinn, sá annar Davíð, 23–31.

1Drottinn talaði til mín svolátandi orðum:2þú mannsins son! spá þú fyrir Ísraelshirðurum, spá og seg til þeirra hirðaranna: Svo segir Drottinn alvaldur: vei Ísraels hirðurum, sem einungis ala sjálfa sig! eiga ekki hirðararnir að ala hjörðina?3Þér etið mörinn, klæðið yður af ullinni, slátrið alifénu, en sauðanna viljið þér ekki gæta.4Þér hjúkrið ekki vanfæra fénu, græðið ekki það sjúka, bindið ekki um það limlesta, sækið ekki það sem hrakist hefir, leitið ekki þess týnda, heldur drottnið þér yfir hjörðinni með hörku og grimmd.5Af því sauðirnir hafa öngvan hirðir, eru þeir sundurtvístraðir, og orðnir öllum skógardýrum að bráð, og með öllu í sundur dreifðir.6Mínir sauðir ráfa hingað og þangað um öll fjöll og allar háar hæðir, þeir eru á sundrungi út um allt landið, enginn spyr eftir þeim, enginn leitar þeirra.7Þar fyrir heyrið orð Drottins, þér hirðarar!8Svo sannarlega sem eg lifi, segir Drottinn alvaldur, af því mínir sauðir eru orðnir að herfangi, og mín hjörð öllum skógardýrunum að bráð, þar eð hana vantar hirðir; af því mínir hirðarar ekki skeyta um mína hjörð, heldur ala sjálfa sig, en hirða ekki hjörðina:9þar fyrir þá heyrið orð Drottins, þér hirðarar!10Svo segir Drottinn alvaldur: sjá! eg vil koma til hjarðmannanna, og heimta mína hjörð af þeirra hendi; eg vil setja þá af hjarðmennskunni; ekki skulu þeir lengur vera hirðarar, sem einungis ala sjálfa sig: eg vil frelsa mína sauði undan þeirra tönnum, þeir skulu ekki framar leggja þá sér til munns.11Því svo segir Drottinn alvaldur: sjálfur vil eg fara og spyrja eftir hjörð minni og leita hennar.12Eins og einn hirðir leitar vandlega að hjörð sinni, þann dag sem hann er að fé sínu og finnur sauðina tvístraða: eins vil eg leita að mínum sauðum, og heimta þá hvervetna þaðan sem þeir villtust í þokunni og dimmviðrinu;13eg vil sækja þá til þjóðanna, samansafna þeim úr löndunum, leiða þá inn í þeirra eigið land, og fæða þá á Ísraelsfjöllum, í dölunum, og á öllum byggðum bólum í landinu;14eg vil halda þeim í góðu haglendi, og sauða hús þeirra skal vera hátt uppi á Ísraelsfjöllum; þar skulu þeir liggja í vænu sauðahúsi, og ganga í feitu haglendi uppi á Ísraelsfjöllum.15Sjálfur vil eg halda mínum sauðum á beit, og sjálfur bæla þá, segir Drottinn alvaldur;16eg vil leita þess týnda, sækja það hrakta, binda um það limlesta, hjúkra því vanfæra; en því ofsæla og baldna vil eg lóga: eg skal vera þeim réttlátur hirðir.
17Og þér, mín hjörð!—svo segir Drottinn alvaldur—sjá! eg vil dæma á millum ásauðar og geitsauðar, hrútanna og hafranna.18Nægir yður það ekki, að þér gangið í því besta haglendi, nema þér líka fóttroðið það, sem þér skiljið eftir af grasinu? að þér drekkið það tæra vatn, nema þér líka stígið ofan í það, sem þér leifið, og gruggið það upp?19Eiga þá mínir sauðir að eta það, sem þér hafið niðurtroðið með yðar fótum, og drekka það, sem þér hafið gengið ofan í og óhreinkað?20Þar fyrir segir Drottinn alvaldur svo til þeirra: sjá! eg kem, og dæmi milli hins feita og margra sauðfénaðar.21Af því þér stjakið vanfæra fénu með bógum og bægslum, og stangið það með hornum yðar, þangað til þér loks fáið hrundið því út:22þá vil eg hjálpa minni hjörð, svo hún verði ekki framar að herfangi, og eg vil dæma í millum sauðar og sauðar.
23Eg vil uppvekja þeim einn einkahirðir, sem skal ala þá—minn þjón Davíð, hann skal fæða þá, hann skal vera þeirra hirðir;24Eg Drottinn vil vera þeirra Guð, en minn þjón Davíð skal vera höfðingi meðal þeirra; eg Drottinn hefi talað það.25Eg vil gjöra friðarsáttmála við þá, og reka öll illdýri út úr landinu, svo þeir skulu óhultir búa mega í eyðimörkinni og sofa í skógunum.26Eg vil láta þá blessast, og allt það sem er umhverfis mína hæð (Síon), og skúrirnar vil eg láta niður falla í tækan tíma; það skulu vera blessunardaggir;27trén á mörkinni skulu bera sinn ávöxt, og jörðin sinn gróða. Óhultir skulu þeir í landinu búa, og þá eg hefi sundurbrotið oktré þeirra, og frelsað þá af hendi þeirra, sem þjáðu þá, skulu þeir viðurkenna, að eg em Drottinn.28Þá skulu þeir ekki framar verða heiðingjunum að herfangi, og skógardýrin skulu ekki rífa þá í sig; þeir skulu búa óhultir, og enginn skal hræða þá.29Eg skal láta þeirra samastað verða nafntogaðan; þeir skulu ekki framar eyðast af hallæri í landinu, og ekki framar liggja undir ámæli heiðingjanna.30Þeir skulu viðurkenna, að eg Drottinn, þeirra Guð, er með þeim, og að þeir eru mitt fólk, niðjar Ísraels, segir Drottinn alvaldur.31Og þér, mín hjörð, sú hjörðin, sem eg held á beit, þér eruð menn a), eg er yðar Guð, segir Drottinn alvaldur.

V. 31. a. Þ. e. munið eftir því, að þér eruð skammsýnir og vanmáttugir men, og að það er Guð einn, sem getur uppfyllt þessi fyrirheit.