Bæn móti óvinum.

1Til hljóðfærameistarans á liljuhljóðfæri. Af Davíð.2Guð! frelsa mig, því vatnið þrengir sér inn að sálunni.3Eg er sokkinn niður í djúpt botnlaust foræði, hvar engin fótfesta er, eg er kominn í mikið djúpt vatn og straumurinn gengur yfir mig.4Eg er þreyttur af að hrópa, minn barki er hás, mín augu daprast í því eg bíð míns Guðs.5Þeir eru fleiri en hárin á mínu höfði, sem mig hata án saka. Voldugir eru mínir óvinir sem leitast við að afmá mig án orsaka; eg á að borga það sem eg ekki rænti.6Guð þú þekkir mína heimsku og mín synd er þér ekki hulin.7Lát þá ekki sneypast af því að sjá mín kjör sem bíða þín. Ó Drottinn herskaranna! lát þá ekki vanvirðast fyrir mína skuld, sem leita þín, Ísraels Guð!8Því vegna þín ber eg háðung, sneypa þekur mitt andlit.9Eg er orðinn framandi hjá mínum bræðrum, og ókunnugur börnum minnar móður.10Vandlæti fyrir þitt hús eyðileggur mig og smán þeirra sem þig smána, lendir á mér.11Þegar eg grét og fastaði, var gjört gys að mér.12Þegar eg íklæddist sekk, varð eg þeim að athlátri (að orðskvið).13Þeir sem sitja í portinu tala um mig, og þeir kveða um mig, sem drekka áfengan drykk.14En eg flý með mína bæn til þín, Drottinn! lát hana vera þér þóknanlega, ó Guð! eftir þinni mikilli miskunnsemi. Bænheyr þú mig eftir trúfesti þíns frelsis.15Frelsa þú mig úr feninu, að eg ekki sökkvi. Láttu mig losna frá mínum hatursmönnum, og úr því djúpa vatni.16Láttu ekki vatnsfallið ganga yfir mig, og ekki hylinn svelgja mig, og ekki pyttinn afturljúkast yfir mér.17Bænheyr mig, Drottinn! því þín miskunn er mikil, snú þínu augliti til mín, eftir mikilleik þinna miskunnsemda.18Hyl ekki andlit þitt fyrir þjóni þínum, því eg er í angist, flýttu þér! bænheyrðu mig!19Vertu nálægt minni sálu, endurleys hana! frelsa mig fyrir minna óvina sakir.20Þú veist mína smán og skömm og háðung, allir mínir mótstöðumenn eru þér opinberir.21Háðungin kremur mitt hjarta, eg dey; eg vænti meðaumkunar, en hún er ekki til, huggunar, en eg finn enga.22Þeir gefa mér gall að eta, og ef mig þyrstir, gefa þeir mér edik að drekka.
23Þeirra matborð verði þeim að snöru, og þeirra friður að gildru.24Lát þeirra auga daprast, að þeir ekki sjái, og þeirra lendar ætíð vera óstyrkar.25Útaus þinni bræði yfir þá, og lát ákefð þinnar reiði ná þeim.26Þeirra hallir verði í auðn, og engin búi í þeirra tjaldbúðum!27Því þeir ofsækja þann sem þú hefir slegið, og auka þess pínu sem þú hefir sært.28Lát þá bæta sekt á sekt, og ekki komast til þíns réttlætis!29Lát þá verða afmáða af lífsins bók, og ekki innskrifast meðal þeirra ráðvöndu.30En mig sem er aumur og harmþrunginn, mig upphefji þitt frelsi, ó Guð!31Þá mun eg lofa Guðs nafn með söng, og vegsama hann með þakkargjörð.32Það geðjast Drottni betur en uxi, betur en naut með hornum og klaufum.33Hinir aumu sjá það og gleðja sig; og þér sem leitið Guðs, yðar hjarta skal lifna við.34Því Drottinn heyrir þá fátæku, og sína fanga fyrirlítur hann ekki.35Himinn og jörð skal lofa hann, og allt sem úir og grúir þar inni.36Því Guð mun frelsa Síon, og uppbyggja Júdæu borgir, að menn búi í þeim og eigi þær, og niðjar hans þénara skulu erfa.37Þær, og þeir sem elska hans nafn, skulu búa þar.