Vitringar veita Kristí lotningu. Hann flýr til Egyptalands. Heródes lætur deyða sveinbörnin í Betlehem. Jesús kemur til Nasaret.

1Þegar nú Jesús var fæddur í Betlehem í Júdeu, á dögum Heródesar konungs, komu vitringar úr Austurlöndum til Jerúsalem, og sögðu:2hvar er sá nýfæddi konungur Gyðinga? vér höfum séð hans stjörnu í Austurlöndum, og erum komnir til að veita honum lotningu.3En er Heródes konungur heyrði þetta, varð hann skelfdur, og öll Jerúsalem með honum,4og lét samankalla alla æðstu presta og löglærða lýðsins, og spurði þá: hvar Kristur ætti að fæðast?5Þeir sögðu honum: í Betlehem í Júdeu; því þannig hefði spámaðurinn skrifað:6„Þú Betlehem í Júdeu er enganveginn hin minnsta á meðal merkisborga Júdeu; því frá þér mun koma höfðingi, er ráða skal fyrir mínum lýð Ísrael“.7Þá kallaði Heródes vitringana til sín á laun, og spurði þá vandlega: nær stjarnan hefði sést?8sendi þá síðan til Betlehem og sagði: farið, og haldið vandlega spurnum fyrir um barnið, og þegar þér hafði það fundið, kunngjörið mér það, að eg einninn geti komið að auðsýna því lotningu.9En þá þeir höfðu heyrt konunginn, fóru þeir leiðar sinnar. Og sjá! stjarna sú, sem þeir höfðu séð í Austurlöndum, gekk undan þeim, þar til hana bar þar yfir, hvar barnið var;10og er þeir sáu stjörnuna, glöddust þeir harla mjög,11gengu inn í húsið, og fundu þar barnið ásamt með Maríu móður þess, féllu fram og veittu því lotningu. Þar næst opnuðu þeir fjárhirslur sínar, og færðu því gjafir, gull, reykelsi og myrru.12Síðan gaf Guð þeim ávísun í draumi, að þeir skyldu ekki snúa aftur til Heródesar; fóru þeir því aðra leið til baka til síns lands.
13Þegar þeir voru burtu farnir, vitraðist engill Drottins Jósep í draumi, og sagði: statt upp! og tak barnið og móður þess, og flý til Egyptalands, og ver þangað til eg segi þér; því Heródes mun leita barnsins að fyrirfara því.14En þá hann vaknaði, tók hann barnið og móður þess samnættis, og fór til Egyptalands,15og dvaldi þar til þess Heródes var dauður; svo að rættist það, sem Drottinn sagði fyrir spámanninn: „af Egyptalandi kallaði eg Son minn.“
16En er Heródes sá að hann var gabbaður af vitringunum, varð hann afar reiður; sendi út og lét myrða öll sveinbörn í Betlehem, og í þeim héröðum, er þar voru í grennd, tvævetur og þau, er yngri voru, sem svaraði þeirri tímalengd, er hann hafði komist eftir af vitringunum.17Sannaðist þá það, sem spámaðurinn Jeremías segir:18„Í Rama heyrðust hljóð, kveinstafir, grátur og vein mikið, Rakel harmar börn sín, og vill ekki huggast láta, því það er útgjört um þau.“
19Þegar Heródes var dauður, vitraðist engill Drottins Jósep í draumi í Egyptalandi, og sagði:20statt upp! og tak barnið og móður þess og far til Gyðingalands, því þeir eru dauðir, er setið hafa um líf barnsins.21Jósep stóð upp, tók barnið og móður þess, og fór til Gyðingalands.22En er hann heyrði að Arkelaus hefði tekið við ríki í Júdeu, í stað Heródesar föður síns, bar hann ekki traust til að fara þangað, og veik því, eftir ávísun Guðs í draumi, í Galíleuland,23og settist að í borg þeirri, er heitir Nasaret, svo að það rættist, sem spámennirnir höfðu fyrirsagt: að hann skyldi naðverskur kallast.

V. 5. Mik. 5,1. V. 15. Hós. 11,1. V. 17. Jer. 31,15.