Mikka spáir um Messías, um viðreisn og betrun Gyðinga.

1Og þú Betlehem í Effratahéraði, þó þú sért of lítil til þess að teljast meðal höfuðættborga Júdaríkis, þá skal þó frá þér útganga sá, sem vera skal yfirhöfðingi Ísraelsmanna; hans uppruni skal vera frá alda öðli, í frá dögum eilífðarinnar.2Að sönnu mun Guð láta þá vera í hers höndum allt til þess tíma, að sú hefir fætt, er fæða skal: en þá skulu hinir aðrir bræður hans aftur koma til Ísraelsniðja.3Hann skal standa og gæta sinnar hjarðar, í krafti Drottins, í hátign Drottins, síns Guðs; og þeir skulu óhultir búa, því nú skal hans veldi ná allt til endimarka landsins (Sak. 9,10).4Hann skal vera friðarhöfundur. Þó Assýríukonungur fari inn í land vort, og vaði inn í vor virki, þá skulum vér kveðja upp sjö hirðara og átta herforingja móti honum;5þeir skulu fara herskildi yfir land Assýríukonungs, og yfir Nimrodsland allt að borgarhliðum þess. Þannig skal hann frelsa oss frá Assýríukonungi, ef hann fer inn í land vort, og stígur inn yfir vor landamerki.
6Þá skulu eftirleifar Jakobs niðja verða á meðal margra þjóða sem dögg frá Drottni, sem regnskúrir á grasi, þær er ekki bíða eftir manninum, og ekki vænta mannanna barna.7Eftirleifar Jakobsniðja skulu verða á meðal heiðingjanna, mitt á meðal margra þjóða, eins og ljón á meðal skógardýra, eins og ljónskálfur í sauðahjörð, sá er niðurtreður og sundurrífur, þar sem hann veður yfir, án þess nokkur fái bjargað.8Þín hönd skal á lofti vera yfir mótstöðumönnum þínum, og allir óvinir þínir skulu afmáðir verða.9Á þeim degi, segir Drottinn, vil eg eyða öllum þeim hestum, sem þú átt í landinu, og gjöra að öngvu vagna þína;10eg vil eyða borgum þíns lands, og niðurbrjóta öll þín virki;11eg vil af taka alla galdra hjá þér, og engi skal finnast hjá þér, sem fer með augnaseið;12eg vil eyða þínum skurðgoðum og þeim goðalíkneskjum, sem hjá þér eru, og þú skalt ekki þaðan í frá falla fram fyrir verkum þinna handa;13eg vil niðurbrjóta þín Astarotslíkneski, og afmá þína blótstaði;14með reiði og heift vil eg hefnast á þeim heiðingjum, sem eigi vilja hlýða.