Góðar óskir. Páll þakkar Guði fyrir kristnitöku þeirra og kristilega framför, sem hann óskar að vaxi. Talar um Krist og hans friðþægingu; að heiðingjarnir séu einnig hluttakandi þar í, og að hann sjálfur sé verkfæri Guðs þar til.

1Páll, að Guðs vilja postuli Jesú Krists, og Tímóteus bróðir,2óska yður, heilögum bræðrum í Kólossuborg og trúuðum í Kristó, náðar og friðar af Guði vorum Föður.3Þakkir gjörum vér Guði, Föður Drottins vors Jesú Krists, og biðjum ávallt fyrir yður,4frá því vér heyrðum um trú yðar á Jesú Kristi og elsku til allra heilagra,5vegna þeirrar vonar, sem yður er geymd á himni, og sem þér hafið áður heyrt um í þeim fagnaðarsæla sannleikans lærdómi,6sem til yðar er kominn eins og um allan heim, hvar hann ber ávöxt og útbreiðist meir og meir, eins og hjá yður frá þeim degi þér heyrðuð og fenguð þekkingu á náð Guðs yður veittri með sannleikans lærdómi,7eins og Epafras, vor elskulegur samþjón, hefir yður hann kennt, hvör að er trúr Krists þénari hjá yður,8hvör og hefir sagt oss frá yðar kristilegum kærleika.9Þess vegna höfum vér einnig, frá þeim degi vér heyrðum frá yður, ekki aflátið að biðja fyrir yður og óska, að þér fylltust þekkingar á Guðs vilja, með alls slags speki og andlegum skilningi,10svo að þér breytið Drottni verðuglega honum til þóknunar á allan hátt,11séuð ávaxtarsamir í alls konar góðum verkum, vaxið í þekkingu á Guði, eflist af hans dýrðarmætti, í algjörðum dugnaði, til allsháttar þolgæðis og stöðuglyndis með glaðværð.12Vér þökkum Föðurnum, sem gjörði oss hæfa til að fá hlutdeild í arfleifð þeirra, sem af ljósinu helgaðir eru,13með því hann þreif oss frá myrkursins valdi og flutti oss inn í ríki síns elskulega Sonar,14af hvörjum vér höfum lausnina, fyrirgefningu syndanna.
15Hvör að er ímynd ósýnilegs Guðs, frumgetningur allrar skepnu;16því að fyrir hann er allt skapað, sem er á himni og jörðu, hið sýnilega og hið ósýnilega, hásæti, herraveldi, höfðingjadómar og yfirráð; alltsaman er það fyrir hann og handa honum skapað.17Sá hinn sami er og fyrri en allt, og allt viðhelst fyrir hann;18hann er einnig höfuð á safnaðarins líkama, hann er upphafið, frumburður enna dauðu, svo að hann hafi yfirburði í öllu;19því það þóknaðist Guði, að öll fylling skyldi búa í honum,20og að koma öllu í sátt við sig fyrir hann, bæði því, sem er á jörðu og á himni, þá lét hann semja frið með sínu blóði á krossinum.
21Einnig yður, sem forðum voruð fráhverfir (Guði) og óvinir (hans) í huga, sökum yðar vondra verka,22yður hefir nú Jesús sátta gjört, fyrir deyðingu síns holdlega líkama, svo hann láti yður koma fram fyrir Guð, heilaga, lýtalausa og óaðfinnanlega,23ef þér aðeins standið grundvallaðir og stöðugir í trúnni, og látið ekki bifa yður frá von þess náðarlærdóms, hvörn þér hafið numið og kenndur er sérhvörri skepnu undir himninum, hvörs þjón eg, Páll, og svo er orðinn.
24Nú gleð eg mig í mínum þjáningum yðar vegna og uppfylli á mínu holdi það, sem vantaði á Krists þjáningar, fyrir hans líkama, sem er söfnuðurinn,25hvörs þjón eg er orðinn, eftir þeirri ráðstöfun Guðs, sem mér er á hendur falin yðar vegna, að útbreiða Guðs orð,26þann a) leyndardóm, sem hulinn var öldum og kynkvíslum, en nú er opinberaður hans heilögum.27Þeim vildi Guð opinbera, hvílíkur dýrðarríkdómur þessi leyndardómur er fyrir þjóðirnar sem að Kristur er í yður, von dýrðarinnar.28Þenna kunngjörum vér, í því vér áminnum sérhvörn mann og fræðum sérhvörn mann í allri speki, svo vér getum b) leitt hvörn mann algjörvan í Kristó fram (fyrir Guð);29til þess vinn eg og stríði, styrktur af hans krafti, þeim er sýnir sig í mér volduglega kröftugan.

V. 4. sannkristinna. V. 9. skilningi á Krists andlega lærdómi. V. 12. Krists lærdóms ljósi. Post. g. b. 26,18. V. 15. Jóh. 14,9. Fil. 2,6. Hebr. 1,3. V. 16. Jóh. 1,3. Hebr. 1,2. Efes. 1,20.21. V. 18. eður yfir alla. V. 19. annaðhvört, alls lags fullkomlegleikar. sbr. 2,9. eður alls lags náðargæði. Jóh. 1,16. V. 21. Róm. 8,7.8. Kólossu-borgarmenn höfðu, áður en kristnir urðu, verið heiðnir og lifðu í heiðinglegum löstum. Róm. 1,23–32. voru því óvinir Guðs, það er: gjörðu það, sem Guði var á móti, og gátu því ekki góðs af honum vænst. V. 26. a. Efes. 1,9. 3,5–9. V. 27. 2 Kor. 13,3. V. 28. b. samanb. v. 22.