Hagar fæðir Ísmael.

1En Saraí kona Abrams ól honum ekki börn, hún hafði egypska þernu, sem hét Hagar.2Og Sarai sagði til Abrams: heyrðu nú! Drottinn hefir varnað mér barngetnaðar, leggst þú nú með minni þernu, ske má, að mér verði það hagur; og Abram hlýddi orðum Sarai.3svo tók Sarai, Abrams kona, Hagar sína þernu, þá egypsku, eftir að þau höfðu búið 10 ár í Kanaanslandi, og gaf manni sínum, Abram, hana fyrir konu.
4Og hann lagðist með Hagar og hún varð ólétt; en er hún vissi að hún var með barni, fyrirleit hún húsmóður sína.5Þá sagði Sarai til Abrams: sá óréttur, sem eg líð, bitnar á þér! eg gaf þér þernu mína í faðm, hún sér að hún hefur fengið getnað, og eg verð fyrirlitin af henni. Drottinn dæmi milli mín og þín!6Og Abram sagði til Sarai: heyrðu! þín þerna er í þinni hendi, gjör þú við hana það sem þér gott þykir. Þá þjáði Sarai hana, svo hún flúði í burt.7Þá fann Drottins engill hana hjá vatnslind í eyðimörkunni, hjá lindinni á veginum til Súr.8Og hann mælti: Hagar, þerna Sarai! hvaðan kemur þú og hvert ætlar þú að fara? Og hún mælti: eg flý frá augum Sarai, hússmóður minnar.9Og engill Drottins sagði til hennar: hverf þú heim aftur til hússmóður þinnar, og auðmýktu þig undir hennar hönd.10Og engill Drottins sagði til hennar: eg mun margfalda þitt afkvæmi, að það verði ei talið fyrir fjölda sakir.11Og engill Drottins sagði til hennar: sjá! þú ert þunguð, og munt son fæða, hans nafn skaltu kalla Ísmael (Guð heyrir) því heyrt hefur Drottinn þína mæðu.12Hann mun verða ólmur maður, hans hönd mun vera móti hverjum manni, og hvers manns hönd móti honum; og hann mun búa fyrir austan alla sína bræður.13Og hún kallaði nafn Drottins sem við hana talaði: sannarlega hefi eg hér séð þann sem sér mig hér eftir.14Þess vegna heitir lindin: brunnur þeirrar lifandi sjónar; sjá! hún er á milli Kades og Bereð.15Og Hagar fæddi Abram son, og Abram nefndi nafn sonar síns, sem Hagar fæddi honum, Ísmael.16En Abram var 86 ára gamall, þegar Hagar ól honum Ísmael.