II.
Á öðru ári ríkis Nabogodonosor þá birtist Nabogodonosor einn draumur, þar af hann óttaði þá hann vaknaði. Og hann bauð til samans að kalla alla stjörnumeistara, vitringa og konstramenn og Chaldeos að þeir segði konunginum hans draum. Og þeir komu og gengu fyrir konunginn. Og konungurinn sagði til þeirra: „Mér hefur vitrast draumur hver eð mig hefur skelft og eg vilda gjarnan fá að vita hvaða draum það væri.“
Þeir Chaldei sögðu þá á chaldaisku til kóngsins: „Herra konungur, Guð unni þér langa lífdaga! Seg drauminn þínum þénurum og munum vér þá ráða hann.“ Konungurinn svaraði og sagði til þeirra Chaldeis: „Hann er mér úr minni fallinn. Ef að þér segið mér ei þennan draum og ráðið hann þá munu þér forglatast með öllu og yðar hús skammarlega foreydd verða. En ef þér segið mér drauminn og útþýðið hann þá skulu þér af mér þiggja skenkingar, gjafir og mikil metorð. Þar fyrir þá segið mér drauminn og hans útskýring.“ Þeir svöruðu enn aftur og sögðu: „Konungurinn hann segi sínum þénurum drauminn og munum vér þá ráða hann.“
Konungurinn svaraði og sagði: „Að sönnu þá formerki eg það þér viljið þessu fresta fyrir mér því þér sjáið að hann er mér úr minni liðinn. En ef þér segið mér ekki drauminn þá útgengur sá úrskurður yfir yður so sem yfir þá eð fals og lygar hafa ásett sér að tala fyrir mér þangað til að tíminn er umliðinn. Þar fyrir þá segið mér drauminn. Þá kann eg að formerkja það þér ratið einnin upp á rétta útskýringina.“ Þá svöruðu þeir Chaldei fyrir konunginum og sögðu til hans: „Enginn maður á jarðríki er sá að segja kunni það sem konungurinn heimtir, so er þar og einnin enginn konungur, hvörsu mikill og megtugur það hann er, sá eð slíks krefji út af nokkrum stjörnumeistara, vísindamanni eða Chaldeo. Því að það sem konungurinn heimtir er allt formikið. Þar er og enginn sá sem það kunni fyrir konunginum að segja að fráskildum guðunum, sem byggja ekki hjá mönnum.“
Þá varð konungurinn afar reiður og skipaði að láta drepa alla vísindamenn í Babýlon. [ Og sá úrskurður gekk út að vísindamennirnir skyldu líflátnir verða og eftir Daníel og hans félögum var leitað að lífláta þá.
Þá formerkti Daníel svoddan úrskurð og bífalning af Arjók þeim æðsta konungsins dómara hver að útfór til að aflífa vitringana í Babýlon. Og hann hóf upp og sagði til konungsins sendiboða, Arjók: „Hvar fyrir er so harður áfellisdómur útgenginn af konunginum?“ Og Arjók sagði það Daníel. Þá gekk Daníel upp og bað kónginn að hann gæfi honum frest so að hann mætti konunginum útskýringina segja.
Og Daníel gekk heim í sitt hús og kunngjörði þetta sínum félögum Hananja, Mísael og Asarja, það þeir bæði Guð af himni um miskunn yfir slíkum leyndum dómi so það Daníel og hans félagar tortýndust ekki með hinum öðrum vísindamönnum í Babýlon.
Þá varð Daníeli fyrir eina vitran á náttarþeli svoddan leyndardómur opinberaður, fyrir hvað eð Daníel lofaði Guð af himni, hóf upp og sagði: „Blessað sé nafn Guðs um aldur og ævi að eilífu því að hans er bæði vísdómurinn og styrkleikinn. Hann skiptir um tímana og [ stundirnar. Hann afsetur konungana og innsetur konunguna. Hann gefur vitringunum vísdóm og hinum skynsömu þeirra skilning. Hann opinberar hvað djúpt og fólgið er, hann veit hvað í myrkrunum liggur því að í hjá honum er ljósið. Eg þakka þér og lofa þig, Guð feðra minna, því þú veitir mér vísdóm og styrkleik og nú opinberaðir þú það sem vér höfum þig beðið, einkum það þú gjörir konungsins málefni oss opinbert.“
Þá gekk Daníel upp til Arjók hverjum eð konungurinn hafði bífalning gefið til að aflífa vitringana í Babýlon og sagði til hans: „Ekki skaltu fyrirfara vitriningunum í Babýlon heldur haf mig upp fyrir konunginn. Eg mun segja konunginum útskýringina.“ Arjók hafði þá Danielem jafnsnart upp fyrir konunginn og sagði so til hans: „Þar er einn fundinn á meðal þeirra herleiddu af Gyðingalandi sá eð segja kann konunginum útskýringina.“ Kóngurinn svaraði og sagði til Daníel, þann þeir kölluðu Baltasar: „Ertu sá sem kannt að segja mér drauminn þann eg hefi séð og hans útskýring?“
Daníel hóf upp fyrir konunginum og sagði: [ „Sá leyndur dómur sem konungurinn heimtar af þeim spekingum, vitringum, stjörnumeisturum og sannsagnarmönnum, það sama er þeim ei mögulegt konunginum að segja. Heldur Guð af himni, hann kann að opinbera leynda hluti, hann hefur og kunngjört konunginum Nabúgodonosor hvað eð ske skal á eftirkomandi tímum.
Þinn draumur og vitran þá eð þú svafst kom þar út af: Þú kóngur hugsaðir á þinni sæng hvernin það mundi seinna meir hér eftir á til ganga. Og sá hinn sami sem leynda hluti opinberar hann hefur kunngjört þér hvernin það mun til ganga. Og mér er svoddan leyndur dómur opinberaður eigi fyrir minnar visku sakir svo sem það væri hún meiri en allra annarra þeirra eð lifa heldur þar fyrir það konunginum kunngjörð yrði útskýringin og að þú vissir so þína hugskotsþanka.
Þú kóngur sast og sjá þú, að eitt mjög mikið og hátt líkneski stóð gegnt þér. Það var ógurlegt álits. Þess sama líkneskis höfuð var af hinu besta gulli en brjóstið og armleggirnir voru af silfri, kviðurinn og lendarnar voru af messing en fótleggirnir af járni, þess fætur voru sumpart járn og sumpart leir. Svoddan sástu þangað til að einn steinn varð þar af brotinn án handa. Sá sló líkneskið á þess fætur þeir eð járn og leir voru og í sundurbraut þá. Þá varð til líka í sundurbrotið járnið, leirinn, messingin, gullið og silfrið og urðu so sem agnir í sumarhlöðu og vindurinn feykti þeim í burt so að þar sáust ekki líkindi til. En steinninn sá eð líkneskið sló varð eitt mikið bjarg so það hann uppfylldi veröldina. Þetta er draumurinn. Nú viljum vér segja hans útskýring fyrir konunginum.
Þú kóngur ert einn konungur allra kónga þeim er Guð af himni hefur gefið ríkið, magtina, styrk og vegsemdina og allt það hvar er menn búa, þar með villudýrin á mörkunum og fuglana í loftinu í þínar hendur gefið og veitt þér vald yfir öllum hlutum. [ Þú ert það gullhöfuðið. Eftir þig mun upp koma eitt annað kóngaríki, minniháttar en þitt er, þar eftir á það þriðja kóngaríkið það messingin er hvert eð drottna mun yfir öllum löndum. Það fjórða ríkið mun hart verða sem járn. Því að líka sem járnið molar og í sundurbrýtur alla hluti, já líka svo sem það að járnið brýtur allt, svo mun það einnin brjóta og í sundurmola alla hluti.
En það þú hefur séð fæturnar og tærnar, sumpart leir og sumpart járn, það mun vera eitt sundurlaust ríki. Þó mun af þeirri járnsins rótsetningu þar inniblífa, so sem það þú hefur séð járnið meður leirinu samblandað. Og það tærnar á þess fótum eru sumpart járn og sumpart leir það mun í nokkurn máta eitt öflugt og í nokkurn máta eitt veikt ríki vera. Og það þú hefur séð járnið við leirið samblandað þá munu þeir samtengja sig eftir mannlegu sæði en þó munu þeir ekki hver með öðrum halda, líka so sem það járnið lætur ekki samblanda sér við leirið.
En á tímum þeirra kóngaríkjanna mun Guð af himni upphefja eitt ríki sem aldreigi verður foreytt og hans ríki mun öngu öðru fólki í hendur seljast. [ En það mun öll þessi kóngaríkin foreyða og niðurbrjóta þau en það mun blífa eilíflega, eftir því sem þú hefur séð það steinninn varð af brotinn frá berginu án handa tiltekta, sá eð járnið, messingina, leirið, silfrið og gullið sundurmolaði.
Þannin hefur sá hinn mikli Guð kunngjört konunginum hvernin það seinna meir muni tilganga og þetta er vissulega draumurinn og útskýringin er rétt.“
Þá féll konungurinn Nabogodonosor fram á sína ásjónu og [ tilbað fyrir Daníeli og bauð að þeir skyldu offra honum matoffri og reykelsisfórnum. Og konungurinn andsvaraði Daníeli og sagði: „Það er enginn efi á því, yðar Guð er einn Guð yfir öllum guðum og einn herra yfir öllum kóngum, hver eð birta kann leynda hluti, með því þú hefur þennan leyndardóm kunnað að opinbera.“ Og konungurinn upphóf Danielem og gaf honum margar og miklar gjafir og setti hann höfðingja yfir öll lönd í Babýlon, þar með forstjóra yfir öllum spekingum í Babýlon.
Og Daníel bað af konunginum það hann mætti setja yfir héröðin í Babýlon þá Sadrak, Mesak, Abed-Negó. En sjálfur Daníel var hjá konunginum í kóngsins garði.