Hjálparvana skurðgoð
1Bel er boginn, Nebó fallinn,
líkneski þeirra orðin byrði gripa og nauta,
þau sem þér [ áður báruð, lögð á þreytt burðardýr.
2Þau bogna og falla,
megna ekki að bjarga byrðinni
og verða sjálf að fara í útlegð.
3Hlýðið á mig, ættmenn Jakobs
og allir sem eftir eru af Ísraels ætt,
tekið var á móti yður við fæðingu
og þér bornir allt frá móðurlífi.
4Allt til elliára yðar verð ég hinn sami,
ég mun bera yður þar til þér verðið gráir fyrir hærum.
Þetta hef ég gert og ég mun bera yður,
ég mun bera yður og frelsa.
Hver er jafningi Drottins?
5Við hvern viljið þér líkja mér og við hvern jafna mér,
saman við hvern bera mig og telja mig líkjast honum?
6Þeir sem hrista gull úr pyngju sinni
og vega silfur á vogarskálum
geta ráðið sér gullsmið sem smíðar guð,
þeir krjúpa síðan frammi fyrir honum og tilbiðja hann,
7hefja hann á axlir sér og bera hann um,
setja hann aftur niður og þá stendur hann kyrr,
hreyfir sig ekki þaðan.
Sé hann ákallaður svarar hann ekki,
hann hjálpar ekki í neyð.
8Minnist þessa og hafið það hugfast,
leggið yður það á hjarta, syndarar.
9Minnist þess sem áður var frá öndverðu.
Ég er Guð og enginn annar,
enginn er sem ég.
10Ég kunngjörði endalokin frá öndverðu
og sagði fyrir fram það sem eigi var enn fram komið,
ég segi: Ákvörðun mín stendur,
ég geri allt sem mér þóknast.
11Ég kalla örn úr austri,
mann úr fjarlægu landi,
sem framkvæmir það sem ég ákveð. [
Það sem ég hef sagt læt ég fram koma,
það sem ég hef ákveðið geri ég.
12Hlýðið á mig, þér forhertir, [
sem eruð fjarri réttlætinu.
13Sjálfur færi ég yður réttlæti mitt,
það er ekki fjarri,
hjálp minni dvelst ekki.
Ég veiti hjálp á Síon
og færi Ísrael dýrð mína.