1Á þeim degi mun þessi lofsöngur sunginn verða í Júdalandi: vér höfum öruggt vígi, hann lætur hjálpræðið vera vörn, múr og verju.2Látið upp hliðin, svo hinn réttláti lýður megi inn ganga, það fólk, sem trúnaðinn varðveitir.3Þín ráðstöfun stendur stöðug; þú afrekar ævarandi frið: þess vegna treysta menn á þig.4Treystið Drottni æ og ætíð, því Guð Drottinn er eilíft bjarg.5Hann niðurlægir þá, sem sitja hátt; háreistu borginni steypir hann niður, hann hrindir henni til jarðar, og leggur hana í duftið,6svo fætur manna niðurtroða hana, og það fætur fátækra, iljar umkomulausra.7Vegur hins réttláta er beinn og réttur: þú gjörir götu réttláts manns þráðbeina.8Á veginum þinna réttinda væntum vér eftir þér, Drottinn: til þíns nafns og til þinnar minningar stendur vor hjartans eftirlöngun.9Mín sála, hún þreyir eftir þér á næturnar: andinn í brjósti mínu, hann leitar þín; því þegar þínir dómar ganga yfir jörðina, þá læra heimsins innbyggjendur réttlætið.10Sé hinum óguðlega líknað, þá lærir hann ekki réttlætið, hann gjörir órétt í landi réttindanna c), og gefur ekki gætur að hátign Drottins.11Drottinn, þín hönd er á lofti, þó þeir sjái hana ekki; samt sjá þeir umhyggju, sem þú ber fyrir þínum lýð, og eldur skal eyða mótstöðumönnum þínum.12En oss muntu, Drottinn, veita frið; því allt hvað vér tökum oss fyrir hendur að gjöra, það framkvæmir þú fyrir oss.13Drottinn, vor Guð, yfir oss drottnuðu aðrir drottnendur en þú; en þú ert sá einasti, hvörs nafn vér vegsömum.14Þeir, sem dánir eru, lifna ekki: þeir, sem framliðnir eru, upprísa ekki; því þú hefir vitjað þeirra og afmáð þá, og að öngvu gjört alla þeirra minningu.15Þú lætur fólkið fjölga, Drottinn, þú lætur fólkið fjölga; þú auðsýnir þinn mátt: þú eykur út öll takmörk landsins.16Drottinn, í neyðinni leituðu þeir þín: þegar þú hirtir þá, stundu þeir upp andvörpum.17Eins og þunguð kona, sem komin er að því að hún skuli fæða, tekur sóttina og hljóðar í harmkvælum sínum: eins vorum vér fyrir þínu augliti, Drottinn.18vér vorum þungaðir, vér kenndum sóttar, en það, sem vér fæddum, var hégómi: landinu gátum vér enga björg veitt, og innbyggjendur ríkisins endurfæddust ekki.19Menn þínir, sem dánir eru, skulu lifna, mitt andvana fólk skal upprísa. Vaknið, hefjið upp fagnaðarsöng, þér sem búið í duftinu! því lífsins dögg er þín dögg, og jörðin skal endurfæða hina framliðnu.20Gakk, mitt fólk, inn í herbergi þitt, og loka dyrunum eftir þér, og fel þig þar um stundar sakir, uns reiðin er hjá liðin.21Því sjá þú! Drottinn gengur út frá sínum aðseturstað til að hegna innbyggjendum jarðarinnar fyrir misgjörðir þeirra; jörðin mun birtast láta það blóð, sem á hana hefir verið úthellt, og hún mun ekki lengur fela mega þá menn, sem á henni hafa líflátnir verið.
Jesaja 26. kafliHið íslenska biblíufélag2018-01-02T01:02:41+00:00
Jesaja 26. kafli
Gleðisöngur hinna frelsuðu.
V. 10. c. Land réttindanna, það land, hvar réttlæti og guðhræðsla á að ríkja.
Hægt er að nálgast texta þessa kafla í öðrum íslenskum þýðingum með því að smella á nafn þýðingarinnar hér fyrir neðan. Þýðingin opnast í nýjum glugga.