1Á meðan Antíokus konungur var á ferð um upplöndin, frétti hann að í Persíu væri Elymais, orðlögð borg fyrir auðæfi, silfur og gull,2og að horfið þar væri harla auðugt og væru þar gylltar hlífar, og brynjur og vopn sem Alexander Filippusson Makedónakonungur, hefði skilið þar eftir, hann, sem fyrst var konungur meðal Grikkja.3Hann (Antiokus) kom og leitaðist við að taka borgina, og ræna hana, en gat það ekki, því þessi ásetningur var orðinn kunnur bæjarmönnum.4Risu þeir móti honum til stríðs, en hann flúði, og fór þaðan með mikilli hryggð, og ætlaði til Babylonar.5Þá kom einhvör sendimaður til hans í Persíu, og sagði honum frá, að herinn, sem farið hefði til Júdeulands hefði verið rekinn á flótta;6og að Lysías hefði í öndverðu farið með styrkan her, en orðið að flýja fyrir þeim, og að þeir hefðu eflst að vopnum, liði og miklu herfangi, sem þeir hefðu tekið frá hernum, sem þeir höfðu brytjað niður,7og rifið niður viðurstyggðina sem hann hafði reist á altarinu í Jerúsalem, og hlaðið háa múrveggi í kringum helgidóminn, eins og áður fyrri, og (kringum) Betsúru, borg hans.8Svo brá við þegar konungur heyrði þessa sögu, að hann varð hissa, og tók sér þetta mjög nærri; hann lagðist í rúmið, og varð veikur af sorg, af því honum hafði ekki gengið eins vel og hann hugsaði.9Þar var hann í marga daga, því hin mikla sorg hans fór jafnan vaxandi, og hann hélt hann mundi deyja.10Þá kallaði hann á alla vini sína og sagði við þá: svefninn flýr augu mín, og er hugsjúkur af áhyggju;11og eg sagði við sjálfan mig: í hvílíka neyð og holskeflu er eg nú ekki kominn? samt var eg (þóttist vera) góður og elskaður meðan eg ríkti.12Enn nú minnist eg þeirra illgjörða sem eg framdi í Jerúsalem, þegar eg tók allan gull og silfurbúnaðinn sem þar var, og sendi til að afmá þá sem bjuggu í Júdeu, að orsakalausu.13Eg kannast nú við, að sökum þessa, dynur þessi ólukka yfir mig, og sjá! eg dey nú í mikilli sorg í framandi landi.14Síðan kallaði hann á Filippus, einn af vinum sínum, og setti hann yfir allt sitt ríki;15og fékk honum kórónuna, og yfirhöfn sína og fingurgull, að hann skyldi ala upp son hans Antiokus, og fóstra hann, þartil hann gæti tekið konungdóm.16Og Antiokus konungur dó þarna á 149da ári (ríkisstjórnar Grikkja).
17Þegar Lysías frétti, að kóngurinn væri dauður, setti hann Antiokus son hans, sem hann hafði áður fóstrað, til konungs í hans stað, og nefndi hann Evpator (hinn ættgöfga).18Þeir sem í víginu vóru, vóru alltaf að kreppa að Ísraelsmönnum hringinn í kringum helgidóminn, og leituðust við með öllu móti að gjöra þeim illt, en veittu heiðingjum styrk.19Júdas ásetti sér að afmá þá, og stefndi öllum lýðnum saman til að setjast um þá.20Þeir söfnuðust ásamt, og settust um þá á 150ta ári, og bjuggu til skotvirki og stríðsvélar móti þeim.21Nokkrir af þeim komust út úr umsátrinu, og sumir guðlausir Ísraelsmenn gjörðust þeim áhangandi,22fóru þeir á konungsfund, og sögðu: hvörsu lengi ætlar þú að fresta úrskurðinum, og nær hefna bræðra vorra?23Oss geðjast vel að þjóna föður þínum, að fara eftir því sem hann sagði, og fylgja boðum hans.24Nú hafa synir þjóðar vorrar sest að í víginu, og þess vegna hatast þeir við oss; já, allir af oss sem fundnir urðu eru drepnir, og eignum vorum var rænt;25og ekki hafa þeir framið ofbeldi á oss einungis, heldur einnig á öllum í landi þeirra.26Og sjá! í dag hafa þeir sest um vígið í Jerúsalem til að ná því, og þeir hafa víggirt helgidóminn, og Betsúru;27og takir þú ekki skjótt ofan í bakið á þeim, munu þeir aðhafast meira enn þetta, og munt þú þá ekki fá við þá ráðið.28Þegar konungur heyrði þetta, reiddist hann, og safnaði öllum vinum sínum og hershöfðingjum, og yfirmönnum riddaraliðsins;29og úr öðrum kóngsríkjum, og frá eyjunum í hafinu kom leiguher til hans.30Herlið hans var að tölu: hundrað þúsundir fótgönguliðs, og tuttugu þúsundir riddaraliðs, og þrjátíu og tveir hervanir fílar.31Þeir fóru gegnum Idúmeu, og settu herbúðir við Betsúru, og herjuðu á hana í marga daga, og bjuggu til stríðsvélar, en hinir fóru út, og brenndu þær í eldi, og börðust karlmannlega.
32Þá tók Júdas sig upp frá víginu, og setti herbúðir við Betsakaría gegnt herbúðum kóngsins.33En kóngurinn tók sig snemma upp um morguninn, og fór með herinn í skyndi á leið til Betsakaría, og liðið bjóst til bardaga, og blés í lúðra.34Þeir sýndu fílunum vínþrúgna og mórberjalög, til að koma þeim fram í stríðið.35Þeir skiptu dýrunum (fílunum) á fylkingarnar, og létu hvörjum fíli fylgja þúsund menn í hringabrynjum, og með koparhjálma á höfðum, og fimm hundruð útvaldra riddara vóru skipuð hvörju dýri.36Þeir höguðu sér eftir kringumstæðunum, hvar sem dýrið var, þar vóru þeir, og hvört sem það fór, þá fylgdust þeir með, og yfirgáfu það ekki.37Og sterkir tréturnar vóru á þeim tjaldaðir á hvörju dýri, girtir á þau með tilbúningi; í hvörjum turni vóru þrjátíu og tveir hermenn, og blámaðurinn sem stýrði fílnum.38Það sem afgangs var af riddaraliðinu settu þeir hér og hvar beggjamegin við herinn, skyldu þeir (riddararnir) eggja liðið, og hlífa fylkingunum.39En þegar sólin skein á hina gullnu og eirslegnu skyldi, þá leiftruðu fjöllin af þeim, og skinu eins og logandi blys.40Nokkur hluti af liði kóngsins breiddi sig upp um há fjöll, en nokkur hluti um láglendið, komust þeir áfram með gætni og í góðri skipun.41Og allir skulfu sem heyrðu hljóðin úr þvílíkum fjölda, og af ferðalagi þessa grúa, og vopnabrakinu, því herinn var næsta mikill og voldugur.42Júdas nálgaðist, og her hans, til atlögu, og féllu sex hundruð menn af liði konungs.43En Eleasar Savaran sá eitt af dýrunum, að það var búið konunglegri brynju, og bar af öllum dýrunum, og sýndist honum að konungurinn væri á því.44Hann gaf sig þá út, til að frelsa þjóð sína, og afla sér ævarandi frægðar.45Óð hann að því (dýrinu) djarflega út í miðja fylkinguna, og drap á hægri og vinstri hlið; hrukku þeir fyrir honum til beggja handa.46Hann smaug undir fílinn, og settist undir hann, lagði hann, en hann hné til jarðar ofan á hann, og dó hann þar.47Þegar þeir sáu liðsafla kóngsins, og aðfarir hersins, viku þeir frá þeim.48En kóngsins hermenn héldu áfram, og ætluðu að mæta þeim í Jerúsalem, og kóngurinn fór með herinn til Júdeu og til Síonsfjalls.49Hann samdi frið við innbúana í Betsúru, og fóru þeir út úr borginni, því þeir höfðu þar ekki viðurværi, til að geta verið í henni, því þá var hvíldarár landsins.50En kóngurinn tók Betsúru, og setti þar setulið til að gæta hennar.51Hann herjaði á helgidóminn í marga daga, reisti þar skotvirki og stríðsvélar, eldskeyti, grjótskála, og píluskotvirki til að skjóta af, og slöngur.52Hinir gjörðu sér líka hervirki á móti þeirra hervirkjum, og börðust í marga daga.53En þeir höfðu ekki matvæli (innanborgar) í ílátunum, af því að sjöunda árið var, og þeir, sem sloppið höfðu frá heiðingjunum og komist í Júdeu, höfðu lokið því sem eftir var af forðanum.54Og fáeinir menn urðu eftir í helgidóminum, því hungrið bar þá ofurliði, og tvístruðust þeir hvör heim til sín.
55Nú frétti Lysías, að Filippus, hvörn Antíokus konungur í lifanda lífi hafði kjörið til að fóstra son sinn Antíokus, þangað til hann tæki við kóngsstjórninni,56væri kominn aftur frá Persíu og Medíu, og lið kóngsins sem með honum hafði farið, og að hann (Filippus) vildi ná stjórnarráðum.57Þá flýtti hann sér burt, og sagði við kónginn og liðsforingjana, og (heldri) mennina: vér vanmegnumst daglega, höfum lítið til fæðu, og staðurinn sem vér sitjum um, er víggirtur, og ríkisins nauðsynjar hvíla á oss.58Látum oss því bjóða þessum mönnum handsöl, og gjörum frið við þá, og alla þeirra þjóð;59og gjörum þeim kost á, að fara eftir lagareglum þeirra, eins og áður, því sökum setninga sinna, er vér vildum ónýta, urðu þeir reiðir og aðhöfðust allt þetta.60Þessi ræða geðjaðist konungi vel og höfðingjunum, sendi hann á þeirra fund til að bjóða frið, og tóku þeir því vel.61Kóngurinn og höfðingjarnir unnu þeim eiða, síðan fóru þeir út úr víginu.62Kóngurinn fór upp á Síonsfjall, og sá staðarvígið; þá rauf hann eiðinn sem hann hafði unnið, og skipaði að rífa niður múrinn hringinn í kring.63Síðan fór hann þaðan í skyndi, og sneri til Antíokíu, og hitti svo á, að Filippus var sestur að völdum í borginni, barðist hann við hann, og tók borgina með ofbeldi.
Fyrsta Makkabeabók 6. kafliHið íslenska biblíufélag2018-01-02T01:05:51+00:00
Fyrsta Makkabeabók 6. kafli
Dauði Antíokuss göfga. Bardagi Gyðinga við Antíokus ættgöfga (Evpator).
Hægt er að nálgast texta þessa kafla í öðrum íslenskum þýðingum með því að smella á nafn þýðingarinnar hér fyrir neðan. Þýðingin opnast í nýjum glugga.